Ársgömul ákvörðun um árás

Punktar

Washington Post hefur komizt yfir leyniskýrslu frá 17. september 2001, þar sem George W. Bush Bandaríkjaforseti gefur hermálaráðuneytinu meðal annars fyrirmæli um að undirbúa árás á Írak. Þetta var aðeins sex dögum eftir árásina á World Trade Center. Glenn Kessler skrifar í dag fréttaskýringu í blaðið um skýrsluna og framhald málsins. Harðlínumenn og Ísraelsvinir í hirð forsetans voru þá strax ákveðnir í að nota tækifærið til að hernema hug forsetans og ráðast á Írak. Hugmyndafræðingarnir Paul D. Wolfowitz og Zalmay M. Khalilzad, hermálaráðherrann Donald H. Rumsfeld, varaforsetinn Dick Cheney og öryggisráðgjafinn Condolezza Rice skipuðu þennan hóp. “Þau eru með Írak á heilanum”, var haft eftir Colin Powell utanríkisráðherra, þegar hann kom af einum fundinum. Þetta er hrollvekjandi frétt um ráðamenn Bandaríkjanna.