“Þeir menn, sem eru í dag búnir að sökkva okkur á kaf í skuldafen meðal erlendra þjóða, geta vafalaust talað digurbarkalega um þjóðarstolt,” segir Aron Guðbrandsson tæpitungulaust um þjóðarleiðtoga okkar, sem flestir fitja upp á trýnið, þegar aronskan er nefnd.
Skoðanakannanir benda til, að meirihluti þjóðarinnar sé í stórum dráttum sama sinnis og Aron í afstöðunni til svonefnds varnarliðs. Til hins sama bendir hin gífurlega aðsókn að fundum, þar sem Aron talar.
Á miðvikudaginn í síðustu viku kynnti Dagblaðið aronskuna með fjögurra síðna úttekt á sjónarmiðum Arons Guðbrandssonar. Þar leggur Aron áherzlu á, “að allt frá fyrstu tíð hafi öll okkar samskipti við herinn verið heldur niðurlægjandi fyrir okkur”.
Aron bendir á, að við keyptum bragga og aðra mengun hersins fyrir of fjár, að við leyfðum flugvöll í borgarhjarta og bragga í húsagörðum. Hann telur, að þjóðarleiðtogarnir hafi jafnan haldið á þessum málum “af vanþekkingu, klaufaskap og minnimáttarkennd”.
Aron minnir á, að Josef Luns líkir Íslandi við ósökkvandi flugvélamóðurskip og að Keflavíkurflugvöllur sparar Bandaríkjunum 4620 milljarða króna. Aron telur, að Íslendingar setji sig í mikla hættu fyrir hagsmuni nágrannaþjóðanna.
Hann telur að þjóðarleiðtogarnir hafi beinlínis dregið úr varnarmætti varnarliðsins með því að neita boðum þess um Njarðvíkurhöfn, varanlegan veg frá Keflavík til Hvalfjarðar og Aðaldalsflugvöll. Þar á ofan veitum við varnarliðinu fríðindi á borð við tollfrelsi og niðurgreiðslur landbúnaðarafurða.
Aron telur sanngjarnt, að fyrir dvöl varnarliðs í liðinn aldarfjórðung komi leiga, sem nemi öllum skuldum íslenzka ríkisins. Ennfremur telur hann sanngjarnt, að fyrir núverandi og væntanlega dvöl varnarliðsins greiði það kostnað af ýmsum almannavörnum í landinu.
Þessar almannavarnir felast fyrst og fremst í samgöngubótum, varanlegum vegum, flugvöllum og höfnum, ekki sízt til að tengja suðvesturhornið við aðra landshluta. Bendir Aron á hina miklu hættu, sem nábýlið við Keflavíkurflugvöll skapar tveimur þriðju hlutum þjóðarinnar. Auk samgangnanna vill hann, að varnarliðið kosti byggingu fullkomins sjúkrahúss á Suðurlandi.
Aron vill, að Íslendingar annist sjálfir þessar framkvæmdir og noti þær meðal annars til að hjálpa 15 til 20 þúsund skólanemendum um sumarvinnu.
Aron rekur dæmi um viðskipti Tyrkja, Grikkja, Spánverja og Portúgala við Atlantshafsbandalagið á þessum sviðum. Mesta áherzlu leggur hann þó á fordæmi Norðmanna, sem hafa á undanförnum árum fengið frá bandalaginu og einstökum ríkjum þess hvorki meira né minna en 305 milljarða íslenzkra króna til að byggja upp samgöngukerfið í landinu. Síðan segir Aron:
“Ég þekki ekki einn einasta Norðmann, sem vildi selja Noreg, eins og hefur klingt í eyrum okkar, að við ætluðum að selja Ísland, ef við höguðum okkur eins og menn í samningum.”
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið