Aravatn

Frá Skagavegi sunnan Hrauns á Skaga um Aravatn að Höfðavötnum á Ketubrunaleið milli Ketu á Skaga og Keldulands.

Hér er farið um dæmigert land á utanverðum Skaga, að mestu flatt og gróið land, alsett veiðivötnum, brokarflóum, stararsundum, tjörnum, holtum, móum og melum. Tvö stór vötn eru á leiðinni, Ölvesvatn nyrðra og Aravatn.

Byrjum milli Hrauns og Þangskála á Skaga við þjóðveg 745 sunnan Steinatjarnar. Förum til suðvesturs milli Neðstavatns að norðanverðu og Kollusátursvatns að sunnanverðu. Síðan suður með Hraunsvatni að austanverðu að Ölvesvatni austanverðu. Þaðan suðaustur með Aravatni austanverðu. Förum svo suður um Rangártjarnir að Ketubrunaleið norðvestan Höfðavatna og Þrívörðuhóls. Ketubrunaleið liggur milli Ketu í Skagafirði og Keldulands í Húnaþingi.

13,2 km
Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Heylækur, Ketubruni.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort