Hvarf brezkra togara af Íslandsmiðum er vafalítið sá atburður, sem einna helzt á eftir að halda minningu ársins 1976 á lofti. Þar með varð 200 mílna fiskveiðilögsagan í stórum dráttum að veruleika, þótt enn veiði hér nokkrar þjóðir í skjóli undanþága.
Viðskiptakjörin bötnuðu af sjálfu sér á þessu ári án nokkurs tilverknaðar af okkar hálfu. Þessi uppákoma hélt þjóðarskútunni saman á árinu og gerði ríkisstjórninni kleift að sitja árið um kring með hendur í skauti.
Þótt árið væri aðgerðalítið í efnahagsmálum, einkenndist það af góðum framgangi nýrra hugmynda á því sviði. Má þar nefna kenningar Arons Guðbrandssonar og Kristjáns Friðrikssonar, hvora á sínu sviði, auk þess sem landbúnaðarkenningar, er áður þóttu forkastanlegar, hafa jafnvel sótt fylgi inn í raðir landbúnaðarins.
Ekki er unnt að segja, að ríkisstjórnin hafi valdið neinum sérstökum vonbrigðum í fjármálum og efnahagsmálum á árinu. Hún var búin að valda þeim vonbrigðum áður. En hún lét sér ekki segjast, þótt henni væri margbent á, að hún væri búin að slá vinstri stjórnina út í ríkisdýrkun og skattheimtu.
Hin raunverulegu þáttaskil í ofangreindum atriðum urðu ekki á þessu ári. Til að finna þáttaskil verðum við að leita til glæpa- og glæframála ársins. Ekki vegna þess, að glæpir og glæfrar hafi verið svo miklir á þessu ári, heldur vegna breyttra viðhorfa almennings til þeirra.
Það er vegna þessa sem árið 1976 er fyrst og fremst ár efasemdanna. Íslendingar hættu að vera auðtrúa á þessu ári. Þeir hættu að taka skinhelgi góða og gilda. Þeir sáu, að mikið vantar upp á, að innihald íslenzks lýðræðis samsvari forminu.
Þetta byggðist á stórauknum upplýsingastraumi á þessum sviðum. Sumir blaðamenn og greinahöfundar lögðu kapp á að kanna ofan í kjölinn ýmis þau mál, sem áður lágu í þagnargildi. Aldrei áður hefur verið lögð önnur eins vinna í gagnavinnslu á fjölmiðlum.
Ritstjórn Dagblaðsins hefur valið Vilmund Gylfason mann ársins sem fulltrúa þessa nýja upplýsingastraums, þar sem greinar hans, fyrst í Vísi og síðan í Dagblaðinu, hafa vakið einna mesta athygli á þessu sviði.
Í fyrra valdi Dagblaðið Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur sem fulltrúa baráttunnar fyrir minnkun stéttaskiptingar á kvennaári og láglaunaári. Sú barátta hefur haldið áfram og mun halda áfram, þótt ný vandamál hafi á þessu ári náð augum og eyrum almennings.
Mál þessa árs er, að þjóðin hefur ákveðið að gera kröfu til innihalds lýðræðisins. Hún mun ekki miklu lengur sætta sig við vítahring stjórnmálaflokka, flokksgæðinga og lánastofnana, né aðra spillingu, sem þróazt hefur í skjóli alræðis hinna samtryggðu stjórnmálaflokka og einokunar þeirra á íslenzkri fjölmiðlun, fjármagni og réttarfari.
Almenningur hefur á þessu ári fengið upplýsingar, sem munu fyrr eða síðar leiða til viðreisnar lýðræðis í landinu. Efinn er upphafið, aðgerðir eru endirinn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið