“Blessuð verðbólgan”, segja margir, sem sjá skuldasúpu sína hverfa eins og dögg fyrir sólu. Ungt fólk reisir sér hurðarás um öxl í íbúðabyggingum og lætur síðan verðbólguna um að eyða skuldunum. Þetta er ef til vill hin jákvæða hlið verðbólgunnar.
En verðbólgan hefur mjög alvarlegar skuggahliðar. Brauð eins er annars dauði í verðbólgudansinum. Gamla fólkið, sem tekur lífeyri, er meðal þeirra, sem greiða kostnaðinn af verðbólgugróða annarra. Það er gamla fólkið, sem sér verðbólguna brenna upp vonir sínar um gott og áhyggjulítið ævikvöld.
Lífeyrir er yfirleitt reiknaður út í eitt skipti fyrir öll sem ákveðinn hundraðshluti, t.d. 60-70% af meðallaunum síðustu fimm ára. Þetta hlutfall hefur þegar rýrzt, er menn byrja að taka eftirlaun, vegna verðbólgu síðustu ára. Síðan sígur stöðugt á ógæfuhliðina því að lífeyririnn helzt óbreyttur meðan verðgildi krónunnar minnkar. Smám saman verður hinn mánaðarlegi lífeyrir um það bil að engu.
Þetta ástand var slæmt meðan verðbólgan nam um 10% á ári. En nú er það orðið gersamlega óþolandi, þegar verðbólgan er komin upp í 50% á ári. Við slíka verðbólgu er þátttaka í lífeyrissjóði nákvæmlega einskis virði.
Einu lífeyrissjóðirnir, sem eru verðtryggðir, eru sjóðir opinberra starfsmanna. Það er ríkið sjálft, sem greiðir verðbólguhallann. Er áætlað, að um 400 milljónir króna fari í þessa verðtryggingu á næsta ári.
Misræmið milli lífeyrissjóða opinberra starfsmanna og annarra lífeyrissjóða þarf að jafna og jafnframt þarf að finna leiðir til að tryggja verðgildi ellilífeyris og afkomuöryggi hinna öldruðu eftir langa vinnuævi. Guðmundur H. Garðarsson alþingismaður hefur ásamt fleirum lagt fram á alþingi þarfa tillögu um þetta efni.
Sumir hafa bent á þá lausn, að útlán lífeyrissjóða verði að meira eða minna leyti verðtryggð, svo að höfuðstóll sjóðanna haldi sem næst verðgildi sínu í verðbólgunni. Aðrir telja, að slík lausn muni gera mörgum lífeyrissjóðsfélögum ókleift að koma þaki yfir höfuð sér, og vilja, að ríkið komi að meira eða minna leyti til skjalanna eins og það gerir að því er varðar ríkisstarfsmenn.
Engin einföld lausn er til á þessu alvarlega vandamáli. Samt þolir lausn á því enga bið.
Erlend lán eru í lagi
Erlendar skuldir Íslendinga eru alltaf að aukast og nú síðast um hvorki meira né minna en fjóra milljarða króna. Sumum ofbýður þessi skuldasöfnun, sem virðist þó meiri en hún er í raun og veru. Ekki má gleyma því, að þjóðarframleiðslan og gjaldeyrisöflunin aukast í takt við erlendar lántökur.
Fastar erlendar skuldir hafa um árabil verið um fjórungur af árlegri þjóðarframleiðslu og eru það enn. Greiðslubyrðin hefur um árabil verið um 10% af árlegum útflutningstekjum og er það enn. Það er því engin hætta á ferðum, þó tekin séu erlend stórlán til nytsamlegra framkvæmda, ekki sízt, ef framkvæmdirnar eru á sviði orkumála.
Jónas Kristjánsson
Vísir