Angi af einsflokkskerfi

Greinar

Sigurður Gizurarson, sýslumaður Þingeyinga, ritaði kjallaragrein í Dagblaðið síðasta mánudag, þar sem hann vakti athygli á, að samtrygging stjórnmálaflokkanna og almannafésýsla þingmanna væru andstæð grundvallaratriðum í stjórnarskránni og minntu á einsflokkskerfi austandtjaldslanda. Hann sagði m.a.:

“Efalítið er íslenzka þjóðfélagið sósíalískara, af því að enginn flokkur hefur andæft tilhneigingunni til opinberra afskipta í reynd. Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert það í orði kveðnu, en ekki gengið hnífur á milli hans og flokkanna til vinstri við hann í framkvæmd … Vinstri flokkarnir hafa viðhaldið með almenningsálitinu blekkingunni um, að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur andstæður sósíalisma. Af því hefur svo leitt yfirboð í sósíalisma til þess að reyna að skapa í huga almennings skil á milli flokkanna.

Í framkvæmd hefur af þessu leitt vissan samruna stjórnmálaflokkanna hér á landi, sem stundum er kallaður samtrygging þeirra. Þinglið flokkanna hefur mótað með sér vissa samstöðu gegn öflum utan alþingis, sem lýsir sér m.a. í því, að þrátt fyrir meginreglu stjórnarskrár lýðveldisins um þrískiptingu ríkisvaldsins, eru alþingismenn (löggjafarvaldið) búnir að leggja undir sig vel flestar pólitískar stofnanir framkvæmdavaldsins með því að kjósa sig í stjórnir ríkisfyrirtækja og banka, bygginganefndir og sjálfa miðstöð félagshyggju-þjóðfélagsins: Framkvæmdastofnun ríkisins. Minnir þetta skipulag ofurlitið á einsflokksskipulagið austantjalds.

Allfjarstætt verður að teljast, að stjórnmálamenn, kjörnir á alþingi af almenningi, verði helztu fésýslumenn þjóðarinnar á vegum framkvæmdavaldsins. Ástæður þrískiptingar ríkisvaldsins hafa alltaf verið, að með þeirri skiptingu sé komið í veg fyrir ofvöxt valds í hendi fárra manna.

Sakir aukningar opinberra afskipta hefur þessi skipting meira gildi nú á dögum en nokkru sinni. Landvinningar alþingismanna innan geira framkvæmdavaldsins ganga gersamlega í berhögg við þessi varnaðarsjónarmið þrískiptingarinnar, sem kveðið er á um í 2. grein stjórnarskrárinnar.

Viðurkennt meginsjónarmið í rekstrarhagfræði og stjórn fyrirtækja er valddreifing. Allt mælir þetta gegn því, að alþingismenn leggi undir sig framkvæmdavaldið í ríkiskerfinu eins og dæmin þó sanna. Alþingismenn hafa yfirleitt hvorki þekkingarleg skilyrði til þessara starfa, svo sem viðskipta- eða hagfræðimenntun, né heldur reynslu úr atvinnulífinu, t.d. reynslu af því, hvort þeir geti rekið fyrirtæki, án þess að það fari á hausinn.”

Nokkru síðar segir Sigurður: “Þingmennirnir í stjórn Framkvæmdastofnunar og forstjórarnir eru undir beinum þrýstingi þeirra, sem leita til þeirra, þar sem það eru kjósendur þeirra, hvort heldur það eru aðilar með einkarekstur eða forsvarsmenn fyrirtækja í eigu sveitarfélaga. Fátt er því jafnaugljóst og enginn þingmaður ætti að koma nálægt Framkvæmdastofnun ríkisins, ef koma á í veg fyrir, að annarleg sjónarmið ráði fjárfestingarákvörðunum. Það er fráleitt kerfi, að stjórnmálamenn geti ráðið yfir slíkri fjármálalegri aðstöðu til að byggja upp kjörfylgi sitt. En þetta eru skuggahliðar hinnar íslenzku félagshyggju.”

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið