Ámótsvað

Yfir Norðurá og Hvítá í Borgarfirði.

Ámótsvað hefur ekki verið farið á síðustu árum, svo ég viti til.

Í Sturlungu er sagt frá mörgum vöðum á Hvítá, einkum þegar sagt er frá flótta Þórðar kakala undan Kolbeini unga 1242. Sennilega hefur áin verið vatnsminni í þá daga. Nú fara menn allra sinna ferða á brúm. Mikilvægt er þó, ef hægt er, að nota áfram sögufræg vöð.

Ámótsvað er á Hvítá, þar sem Reykjadalsá rennur í Hvítá “þar sem gatan liggur yfir um Reykjadalsá” eins og segir í Sturlungu. Höfðahólar heita þar. Þorgils skarði boðaði til fundar Borgfirðinga 1252 í Höfðahólum við Ámótsvað og kallaði eftir völdum. Við vaðið hittu Hrafn Oddsson og Sturla Þórðarson Þorgils skarða 1252 til að kveða niður ósætti. Árið 1253 hittu þeir Hrafn og Sturla Heinrek biskup hér í enn einni sáttatilraun, en mistókst. Biskup ætlaði svo á vaðið í standsöðli, en var færður annar hestur:

“Á sína hlið reið hvor, Jón járnbúkur og Böðvar úr Bæ. Reið Jón við strauminum, en Böðvar forstreymis. Egill og Eiríkur birkibeinn riðu fyrir vaðið. Áin tók í síðuna. Þá snaraði biskup af baki og fékk hann eigi uppi setið öðruvísi en þeir héldu honum á baki og slöðraði svo til lands, en af baki rak Indriða af Rauðsgili og Sigurð úr Kálfanesi og varð þeim borgið. Biskup mælti, er hann kom af ánni, að hann mundi aldrei á jafnófært vatn ríða síðan.”

Byrjum við Hábrekknavað á Norðurá tæpum kílómetra sunnan við Litla-Skarð og norðan við sumarhúsahverfið í Munaðarnesi. Frá vaðinu förum við um Varmaland, Stafholtsveggi, Hamraenda og stutta leið niður með Þverá. Förum yfir ána andspænis Neðra-Nesi. Síðan að Hvítá og upp með henni að ármótum hennar og Reykjadalsár. Þar er Ámótsvað, þekktasta vað Hvítá á Sturlungatímanum. Sunnan ár förum við um Kálfanes og Runna að Stóra-Kroppi. Leiðin um vöðin er í stórum dráttum ágizkuð á kortinu.

Síðari aldir var yfirleitt farið yfir Hvítá hálfum öðrum kílómetra neðar á Langholtsvaði.

14,7 km
Borgarfjörður-Mýrar

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Hábrekknavað.
Nálægar leiðir: Langholtsvað, Bugar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga