Fróðlegt væri að vita, hvort mjólkursöluhnúturinn í Reykjavík er orðinn til fyrir klaufaskap málsaðila eða bragðvísi þeirra, sem aldrei vildu, að Mjólkursamsalan sleppti neinum hluta smásölu sinnar í hendur kaupmanna.
Lokun mjólkurbúðanna er alténd alls ekki það mark, sem stefnt var að í upphafi, þegar Ellert B. Schram alþingismaóur og fleiri hófu baráttu fyrir afnámi einokunar Mjólkursamsölunnar á smásölu mjólkur. Þá var aðeins farið fram á, að þeir kaupmenn, sem vildu og gátu, mættu selja mjólk. Þess var aldrei krafizt að Mjólkursamsalan lokaði búðum sínum.
Margir kaupmenn hafa áhuga á að fá að selja mjólk og mjólkurvörur, ekki vegna álagningarinnar, heldur vegna aðdráttaraflsins á neytendur. Mjólk er ein þeirra vara, sem menn þurfa oftast að kaupa. Þegar menn kaupa mjólk, er oft hentugt að kaupa aðrar vörur Í leiðinni.
Aðrir kaupmenn hafa engan áhuga á að selja mjólk, þar sem þeir telja sig hvorki hafa pláss né peninga til að búa verzlanir sínar á þann hátt, að þær standist kröfur um meðferð mjólkur.
Margir neytendur hafa áhuga á að geta fengið mjólk í kjörbúðinni. Þeim finnst hvimleitt og tímafrekt að þurfa að gera sér ómak í mjölkurbúð eins og aðrar sérverzlanir, svo sem bakarí, fiskbúð og kjötbúð. Þeir vilja fá allar sínar heimilisvörur á einum og sama stað og jafnvel fá þær heimsendar.
Aðrir neytendur vilja heldur verzla í sérverzlunum og hjá “kaupmanninum á horninu”, þar sem þeim finnst of mikill spretthlaupsbragur ríkja í hinum tiltölulega ópersónulegu, stóru kjörbúóum.
Sjónarmið þessara neytenda, smákaupmannanna og hagsmunir starfsstúlknanna, sem missa atvinnu sína, þegar mjólkurbúðunum verður lokað, hafa sameinazt í víðtækri undirskriftasöfnun gegn lokun mjólkurbúða.
Bæði sjónarmiðin, með mjólkurbúðum og með mjólkursölu í matvöruverzlunum, eru góð og gild. Mjólk á að vera til sölu á báðum þessum stöðum. Engin ástæða er til að fara úr öðrum öfgunum yfir í hinar.
Stefna Mjólkursamsölunnar virðist vera: Allt eða ekkert. Ef til vill telur hún, að mjólkurbúðareksturinn verði erfiðari, þegar öðrum mjólkursölustöðum fjölgar. En hún virðist ekki hafa athugað neitt þann möguleika, að starfsstúlkurnar viÍldu ef til vill sjálfar reka mjólkurbúðirnar fyrir eigin reikning, fremur en að missa gamalgróna atvinnu sína.
Slæmur hnútur er nú kominn á málið, er þúsundír manna vilja viðhalda mjólkurbúðunum. Löggjafinn og málsaðilar hljóta að verða að taka tillit til þessa sjónarmiðs, án þess þó að hverfa frá þeirri stefnu, að mjólk megi vera til sölu í öllum þeim matvöruverzlunum, þar sem nauðsynleg aóstaða er.
Skammur tími er til stefnu. Samt ætti að vera unnt að leysa málið fyrir áramót, ef menn hafa góðan vilja.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið