“Afkoma heimilanna er í hættu” hafa margir sagt að undanförnu. Þetta orðalag sýnir, hve alvarlegum augum fólk lítur á kjaraskerðinguna, sem það hefur orðið að þola undanfarið ár.
Þetta sjónarmið á verulegan þátt í að gera stjórnarandstæðingum kleift að beita Alþýðusambandinu af óvenjulegri hörku í kjarasamningunum, sem nú standa yfir. Þess vegna er almennt búizt við allsherjarverkfalli um miðja næstu viku.
Samt eru lífskjör hinna verst launuðu ekki lakari en þau voru fyrir hálfu öðru ári og lífskjör hinna bezt launuðu ekki lakari en þau voru fyrir tveimur-þremur árum. Töldust þau lífskjör þó nokkuð góð í samanburði við lífskjör fyrri ára.
Þetta eru staðreyndir, sem dyljast mönnum um þessar mundir af eðlilegum ástæðum. Neyzluvenjur eru stöðugt að breytast, lífskjarakröfurnar að aukast. Menn reka sig stöðugt á, að þeir eiga erfitt með að laga sig að samdrætti lífskjara, þótt þeir hafi vel komizt af á slíkum lífskjörum fyrir hálfu öðru ári.
Hitt viðurkenna menn, að þjóðarbúið hefur orðið fyrir óvenjulegum áföllum á undanförnum mánuðum. Verðlag útflutningsafurðanna hefur að meðaltali lækkað á sama tíma og verðlag innfluttrar vöru hefur hækkað.
Viðskiptakjörin hafa því versnað hrapallega. Hallinn á viðskiptajöfnuðinum gagnvart útlöndum varð hvorki meira né minna en 15,5 milljarðar króna í fyrra. Við fjárfestum of mikið og höfðum of mikla einkaneyzlu og samneyzlu, sem þessari upphæð nam.
Þetta líf um efni fram var annars vegar greitt með því að tæma digran gjaldeyrisvarasjóð og hins vegar með erlendu lánsfé. Nú er ekki lengur hægt að tæma tóman sjóð. Og möguleikar okkar til lántöku erlendis eru óðum að þverra.
Sama óheillaþróunin hélt áfram fyrstu þrjá mánuði þessa árs. Í apríl gerðist það loks, að jafnvægi náðist milli útflutnings og innflutnings. Þá loks komst þjóðarbúið á kjöl.
Hinir svartsýnu segja, að skýringin á góðum árangri í apríl sé óvenju mikill útflutningur á loðnuafurðum. En hinir bjartsýnu segja, að lífskjörin séu komin niður á það stig, að við lifum ekki lengur um efni fram.
Ef fyrri skýringin er rétt, er fokið í flest skjól og framundan er efnahagsleg og þjóðfélagsleg upplausn. Ef síðari skýringin er rétt, getum við vonað, að lífskjörin fari senn að batna.
Auðveldasta leiðin til að bæta lífskjörin er að draga úr samneyzlu og fjárfestingu og leggja meira í einkaneyzlu, meðan ófremdarástandið í viðskiptakjörunum varir.
Þegar líður á árið höfum við ástæðu til að vona, að ný efnahagsþensla í Bandaríkjunum muni smám saman leiða til hækkunar á verðlagi fiskafurða okkar.
Sennilega getur Alþýðusambandið knúið með verkföllum fram kauphækkanir í þessum mánuði. En slíkir samningar yrðu sama vitleysan og samningarnir í fyrra. Viðskiptajöfnuðurinn gagnvart útlöndum mundi aftur sporðreisast með nýjum gengislækkunum og endurtekningu á geðveikis-verðbólgu undanfarinna ára. Allir mundu tapa á slíku.
Jónas Kristjánsson
Vísir
