Álftavatnsvað

Frá Reykjum í Ölfusi að Gjábakka í Þingvallasveit.

Þetta hefur verið alfaravegur allt frá söguöld.

Hestamenn notuðu Álftavatnsvað í sleppitúrum fyrir mörgum árum, en það hefur lítið verið notað síðustu árin. Mikilvægt er, að hestaferðamenn haldi við þessari sögufrægu leið yfir Álftavatn.

Sögufræg leið frá Reykjum í Ölfusi. Þar bjó Gissur Þorvaldsson um skeið. Vaðsins er getið í Sturlungu. Þetta er leiðin, sem sendiboði Gissurar Þorvaldssonar reið árið 1238 til Sturlu Sighvatssonar, sem kominn var með lið sitt að Hrafnabjörgum í Þingvallasveit. Sendiboðinn reið síðan norður Búrfellsgötur austan Búrfells og svo um Lyngdalsheiði til Gjábakka. Eftir að Sturla Sighvatsson hafði handtekið Gissur Þorvaldsson við Apavatn, ætlaði hann að drepa erkióvin sinn, en hætti við. Sturla og Gissur riðu síðan frá Apavatni um Bakkagötur til Klausturhóla og Hæðarenda og komu þar inn á Álftavatnsleið.

Um vaðið segir í kirkjubókum “ei er það fært fyrr en snjóleysingar mestu eru úr fjöllum, og í langvinnum rigningum verður það líka ófært. Ei er það heldur reitt fyrir dýpi, nema á þeim eina stað, og er það miðað vað, hvoru megin sem að því er komið. Verður það aldrei grynnra en í kvið og er á breidd við í lengsta lagi stekkjarveg.”

Byrjum á Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Reiðslóði liggur suðaustur með hlíðinni, síðan ofan við sumarhús Ölfusborga og áfram að Gljúfri. Rétt áður en við komum að Hvammi beygjum við til vinstri norður Hvammsmela í Djúpagrafning og upp á Grafningsháls. Af hálsinum förum við austur og niður hjá Litla-Hálsi og um Ferðamannagil að Álftavatnsvaði á miðju Álftavatni. Þar er Vaðeyri í miðju vatni. Farið er beint austur í eyrina og þaðan beint áfram upp á land norðan Vaðlækja. Síðan norðaustur að Miðengi og áfram um Kerhraun að þjóðvegi 351 norðvestan Seyðishóla og sunnan Hæðarenda.

19,7 km Árnessýsla

Erfitt fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Hellisheiði, Hengladalaá, Klóarvegur, Reykjadalur, Búrfellsgötur, Lyngdalsheiði, Bakkagötur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort