Ríkisstjórnin hefur tekið þá vafasömu ákvörðun að greiða niður verð á áburði um 750 milljónir króna. Niðurgreiðslur eru í eðli sínu illar, því að þær skekkja verðmyndunarkerfið í landinu. Þær stuðla að vanþekkingu almennings á raunverulegu verði ýmissa afurða og hvetja einnig til offramleiðslu á þessum afurðum, sem síðan verður að flytja út með drjúgum útflutningsuppbótum.
Sú afsökun, að þetta sé til að halda verðlagi niðri í landinu er tóm blekking. Það skiptir ekki máli, hvort neytendur greiða þessar 750 milljónir yfir búðarborðið eða í mánaðargreiðslum skatta sinna. Í báðum tilvikum eru 750 milljónirnar greiddar og stuðla að verðbólgu á hvorn veginn sem er.
Ríkisstjórninni ber fremur að beina kröftum sínum að því að rífa niður blekkingarvefinn, sem hefur magnazt í efnahagslífinu. Niðurgreiðslur, uppbætur, millifærslukerfi, fjármagnsmismunun og lánakjaramismunun, innflutningsbönn, framkvæmdastyrkir og fleira slíkt gerir efnahagskerfi okkar að slíkri grínfígúru, að fjárfestingarfé okkar fer í meira mæli í súginn en hjá flestum öðrum þjóðum heims.
Jónas Kristjánsson
Vísir
