Fyrir um það bil 200 árum uppgötvuðu Vesturlandabúar, hvernig þeir gátu orðið ríkir. Þeir gerðu iðnbyltingu og hófu markaðsbúskap. Með nýjum hugmyndum um félagslegt réttlæti lærðu þeir svo að dreifa auðnum sín á milli og gera alla ríka í meira eða minna mæli.
Áður ríkti enn verra ástand í Vestur-Evrópu en nú ríkir í fátækustu löndum heims. Meðalaldur í Frakklandi árið 1788 var 30 ár, en er nú um 45 ár í þriðja heiminum og 70 ár í ríka heiminum.
Á núverandi mælikvarða var nær ekkert til skiptanna allar aldir veraldarsögunnar fram undir nítjándu öld. Þeir, sem betur máttu sín, arðrændu hina eftir megni.
Sama var uppi á teningnum í upphafi iðnbyltingarinnar, því að eigendur fjármagns tóku fyrr við sér en eigendur vinnuafls. Þá ríkti ástandið, sem Karl Marx hefur lýst. En það arðrán er löngu úr sögunni.
Að vísu er enn ákveðin spenna milli eigenda vinnuafls og stjórnenda fyrirtækja, en ekki vegna arðráns. Þessir aðilar semja með reglubundnu millibili um, hvernig skipta skuli þeim gróða, sem aukin vísindi, aukin tækni, aukin stjórnun og aukin sölumennska hafa fært þeim, síðan þeir sömdu síðast um kaup og kjör.
Þeir eru í rauninni að skipta nýju herfangi. Milli slíkra aðila er alltaf einhver spenna, en hún kemur arðráni ekkert við. Þeir, sem selja vinnu sína, vinna alltaf skemur og skemur, en fá samt alltaf meiri og meiri tekjur.
Auður nútímans á Vesturlöndum er nefnilega ekki frá neinum tekinn. Hann er einfaldlega búinn til með tækniþekkingu og skipulagsþekkingu. Hann var ekki til áður.
Sumir halda, að þessi auður sé tekinn frá þriðja heiminum, sem selji ríku þjóðunum mat og hráefni á of lágu verði. Þetta er rangt. Það eru einkum ríku þjóðirnar, sem framleiða og selja mat og hráefni. Ríku þjóðirnar framleiða hvorki meira né minna en 70% af mat og hráefnum heimsins og hafa því ekki hag af lágu verði á þessum vörum.
Eina þjóðin, sem kann að hafa grætt á nýlendum sínum, eru Bretar, og þeir eru ekki á sérlega góðum vegi staddir um þessar mundir í samanburði við aðrar ríkar þjóðir. Svíar og Svisslendingar eru ofsaríkir en áttu samt aldrei nýlendur. Þjóðverjar og Japanir urðu ekki ofsaríkir fyrr en þeir höfðu misst nýlendur sínar.
Athyglisvert er, að margar fyrrverandi nýlendur hafa grætt á Vesturlöndum, svo sem Singapúr, Alsír og Brasilía, en sjálfstæð ríki þriðja heimsins, svo sem Thailand, Eþíopía og Libería, lifa mörg í eymd, sem minnir á ástandið í heiminum fyrir iðnbyltinguna.
Þriðji heimurinn hefur grætt á ríku þjóðunum en ekki öfugt. Ríku þjóðunum hefur ekki aðeins tekizt að dreifa auði sínum milli eigin íbúa. Þeim hefur líka tekizt að láta brot, að vísu of lítið brot, af honum renna til þriðja heimsins, einkum til fyrrverandi nýlendna sinna.
Og enginn maður hefur verið arðrændur í þessu mikla ævintýri.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið