Ef frumvarp ríkisstjórnarinnar um efnahagsaðgerðir nær fram að ganga, hefur náðst það mikilvæga markmið, að almennar launatekjur verði tekjuskattsfrjálsar. Hjón með tvö börn og 1.216.500 króna árstekjur, einhleypingar með 555.000 króna árstekjur og einstæð foreldri með eitt barn og 906.400 króna árstekjur greiða engan tekjuskatt samkvæmt frumvarpinu.
Þegar útsvarið er tekið með í reikninginn, má sjá, að skattbyrði fólks með almennar launatekjur lækkar verulega frá því, sem nú er. Hjón með tvö börn og 1.200.000 króna árstekjur fá lækkun skatta, sem nemur 25.766 krónum. Einstæð foreldri með eitt barn og 500.000 króna tekjur fá lækkun, sem nemur 35.272 krónum. Og hjón á ellilaunum og með 700.000 króna tekjur fá 13.425 króna lækkun.
Þessi dæmi sýna skýra mynd af áhrifum frumvarps ríkisstjórnarinnar á lífskjör almennings. Skattalækkanirnar vega mjög þungt á móti þeirri kjaraskerðingu, sem þjóðin hefur mátt þola á undanförnum mánuðum. Einkum bæta þær hag þeirra fjölskyldna, sem minnstar hafa tekjurnar og flest börnin, enda eiga þessar fjölskyldur erfiðast með að taka á sig byrðar efnahagsástandsins.
Í stórum dráttum má segja, að frumvarpið tryggi, að almenningur hafi sömu lífskjör og hann hafði árin 1971 og 1972. Til viðbótar koma svo láglaunabæturnar, sem aðilar vinnumarkaðsins munu væntanlega bráðlega semja um. Með frumvarpinu nýja og væntanlegum láglaunabótum ætti að takast að slá virka skjaldborg um lífskjör þeirra, sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.
.Þessar aðgerðir kosta ,að sjálfsögðu stórfé. Tekjur ríkisins af tekjuskatti munu lækka um 800-900 milljónir og tekjur sveitarfélaga af útsvari munu lækka um 360 milljónir. Tekjur ríkisins af tollum og söluskatti, sem einnig verða lækkaðir á ýmsum nauðsynjavörum, munu lækka um 600 milljónir.
Til viðbótar við þennan tekjumissi þarf ríkið að gera ýmsar ráðstafanir til að tryggja fjármögnun fjárfestingarsjóða og þróun orkumála í landinu. Eru þær ráðstafanir innifaldar í frumvarpinu og fela meðal annars í sér flugvallargjald, skyldusparnað hátekjufólks og lántökuheimildir.
Til þess að skattalækkunardæmið og fjárfestingardæmið gangi upp þarf ríkið að skera niður fjárlög sín um þrjá og hálfan milljarð króna. Er í frumvarpinu gert ráð fyrir, að ríkisstjórninni verði í samráði við fjárveitingarnefnd Alþingis heimilað að skera niður að þessu marki.
Í þessum niðurskurði felst langvíðtækasta tilraun, sem gerð hefur verið til að hafa hemil á útþenslu ríkisbáknsins og draga úr ofþenslu þess. Niðurskurður þessi verður ekki létt verk né vinsælt. En þegar illa árar verður útþensla opinberrar þjónustu að víkja fyrir vörninni fyrir lífskjörum þjóðarinnar og getu atvinnuveganna til að halda uppi fullri atvinnu í landinu.
Ef aðilar vinnumarkaðsins líta af fullri sanngirni á viðleitnina, sem felst í frumvarpi ríkisstjórnarinnar, ætti þeim að takast að ná án verkfalla samkomulagi um láglaunabætur, er tryggi vinnufriðinn í náinni framtíð.
Jónas Kristjánsson
Vísir
