Gagnkvæmt traust er á hverfanda hveli í þjóófélagi okkar. Þetta er ekki ný bóla, heldur hafa menn síðustu mánuði tekið betur eftir því, er áhrifamenn bregðast trausti. Hin frjálsari fjölmiðlun hefur opnað augu margra fyrir því, hvernig þjóðfélagið starfar stundum á annan hátt en hugsjónir þess gera ráð fyrir.
Stjórnmálamenn og embættismenn eru fjölmennir í hópi þeirra, sem ekki eru trausts verðir. Margir þeirra telja orð sín lítils virði. Voru nokkur dæmi um slíkt rakin í leiðurum Dagblaðsins á föstudaginn og mánudaginn. Þessir áhrifamenn vilja gjarnan blekkja almenning og gefa því fjölmiðlum rangar upplýsingar um gerðir sínar og markmið þeirra.
Þessu er samfara sú útbreidda skoðun áhrifamanna, að almenningur hafi skammvinnt minni. Þeir segja því ósatt, þótt þeir viti, að hið sanna komi í ljós fyrr eóa síðar. Dæmi Dagblaðsins fjölluðu einmitt um slíka hegðun.
Þegar fjölmiðlar upplýsa þessi atriði, eru þeir ekkl að grafa undan samskiptum almennings og áhrifamanna. Traust getur ekki byggzt á vanþekkingu. Áhrifamenn eiga að njóta þess trausts, sem þeir eiga skilið, og einskis fram yfir það. Og þeir, sem ekki ná nægri einkunn á þessu sviði, eiga ekkert erindi í áhrifastöður. Þeir eiga að víkja fyrir öðrum, sem almenningur hefur fremur ástæðu til að bera traust til.
Nauðsynlegt er, að frjálsir fjölmíðlar veiti enn meira aðhald en þeir hafa hingað til gert. Þeir þurfa að skrásetja ósannindi stjórnmálamanna og embættismanna og minna almenning á þau, þegar tækifæri gefast til.
Lítilsvirðing áhrifamanna fyrlr eigin orðum er ekki hið eina, sem stendur í vegi fyrir, að þeir séu trausts verðir. Undanfarna mánuði hefur almenningur fengið lítillega að skyggnast inn í þá furðulega spilltu veröld, sem stjórnmálaflokkar rækta undir fölsku yfirborði hugsjóna og hindurvitna.
Í þessum undirheimum er mikið braskað, einkum með aóstöðu stjörnmálaflokka í sjóðum og bönkum. Pólitískir bankastjórar úthluta fé almennings á pólitískan hátt. Þeir lána flokksgæðingum meira fé til lengri tíma og á lægri vöxtum en almenningur fær. Jafnframt er verðbólgan höfð nægilega mikil til þess, að unnt sé að hagnast verulega á skuldasöfnun.ð
Yfir þessa ormaveitu er breitt gatslitið klæði hugsjónar bankaleyndar. Þessu klæði þarf að svipta frá og skylda bankana til að gefa daglega út skrár yfir fyrirgreiðslur dagsins. Bankarnir eru ekki nógu traustvekjandi til að vera bankaleyndar verðir.
Með markvissri opnun þjóðfélagsins er smám saman unnt að sauma að skuggaböldum þess og hrekja þá úr einu virkinu í annað. Fjölmiðlar verða þá eftir mætti að efla aðhald sitt með almennu siðferði í stjórnmálum, viðskiptum, bankamálum og á öðrum þeim sviðum, þar sem grundvallarhugsjónir þjóðfélagsins hafa beðið hnekki.
Fjölmiðlar stunda aðhald sitt í umboði lesenda sinna. Fjölmiðlar mega ekki frekar en aðrir bregðast trausti umbjóðenda sinna, jafnvel þótt það kunni að kosta fjármálalegar ofsóknir af hálfu bankavalds og annarra, sem telja, að sinn sé mátturinn og dýrðin.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið