Aðalbólsleið

Frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal um Eyvindarfjöll til Egilsstaða í Fljótsdal.

Aðalbólsleið er þurrari en aðrar leiðir um Fljótsdalsheiði. Kann að vera Hallfreðargata sú, sem sagt er frá í Hrafnkels sögu Freysgoða. Eftir landnám var Hrafnkelsdalur þéttbyggð sveit með sextán bæjum, Bakkastöðum, Skál, Mógilshálsi, Vaðbrekku, Þrándarstöðum, Þórisstöðum, Hústóft, Tobbhóli, Aðalbóli, Smjörtungufelli, Laugarhúsum, Faxahúsum, Blesatanga, Faxagili, Þuríðarstaðaseli og Glúmsstaðaseli. Þessi mikla byggð í afskekktum fjalladal 90 km frá sjó eyddi landkostum fljótlega og býlum fækkaði. Síðan lagðist dalurinn í eyði í Veiðivatnagosinu á síðari hluta 15. aldar. Á Aðalbóli bjó Hrafnkell Freysgoði, landnámsmaður og vígamaður.

Förum frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal yfir Hrafnkelu og austsuðaustur á fjallið. Síðan til suðausturs sunnan við Eyvindarfjöll, þar sem við förum yfir þverleið um Fljótsdalsheiði. Við förum áfram suðaustur og yfir veg 910 sunnan við Langavatn, yfir Svartöldu og á brún Fljótsdals ofan við Kleif. Þar förum við niður hlíðina og áfram austur að Egilsstöðum í Norðurdal í Fljótsdal.

23,1 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Búðarháls, Buskutjörn, Sænautasel, Hvannstóðsfjöll, Brattifjallgarður, Vegkvíslar, Kárahnjúkar, Hölkná, Fljótsdalsheiði, Geldingafell, Byttuskarð, Eyvindarkofaver.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins