Fyrir sjö árum var reiknað út á vegum borgarlæknisembættisins, að hvert 18 ára ungmenni hefði kostað þjóðfélagið nálægt þremur milljónum króna að meðaltali og var þá aðallega reiknað með skólagöngukostnaði. Miðað við verðbólgu síðustu ára er þessi upphæð varla undir tíu milljónum króna á verðlagi ársins 1975.
Þessi útreikningur var á sínum tíma gerður til að sýna fram á, hve miklu það skiptir þjóðfélagið, að sem flestir séu við góða heilsu og geti lagt sitt af mörkum við að efla þjóðarhag. Þegar þjóðfélagið leggur miklar fjárhæðir í heilbrigðismál, er það í rauninni að vernda mikla fjárfestingu í uppvexti og menntun einstaklinganna.
Þessa verða menn að minnast, þegar þeim vex í augum hinn mikli kostnaður við sjúkrahús og læknaþjónustu hér á landi. Síðasta hálfa annan áratuginn hefur óhemju miklu fé verið varið til bygginga og útbúnaðar sjúkrahúsa og til að bæta aðstöðu heilbrigðisstétta. Þessi þróun mun vafalaust halda áfram á næstu árum, eftir því sem fjárhagsgeta þjóðarinnar leyfir. Líta má á allt þetta sem hagkvæma fjárfestingu.
En hinn mikli kostnaður við lagfæringar á heilsu manna beinir athyglinni að því, hve nauðsynlegt er að gæta heilsu manna, áður en hún bilar, og verjast slysum á fólki, áður en þau gerast. Í samanburði við dýra og viðamikla viðgerðarþjónustu heilbrigðisstéttanna er sáralitlu fé varið til að kenna fólki að lifa rétt, temja sér hollar lífsvenjur.
Sáralítið er gert til að benda fólki á að forðast margvíslegt rusl, sem selt er sem matur. Sérstaklega er hættulegt hve börn og unglingar sækja mikið í ýmsan verksmiðjumat, sem er lítt uppbyggilegur og jafnvel óhollur, en er gerður bragðgóður með því að blanda í hann ýmsum efnum.
Dálítið meira er gert til að hvetja fólk til útivistar og líkamlegrar áreynslu. Vitað er, að margir hættulegustu sjúkdómar nútímans stafa beint eða óbeint af kyrrsetum og sællífi. Starfið á þessu sviði mætti samt vera miklu meira, eins og sést hefur á mælingum á þreki Íslendinga. Þær benda til þess, að þrek Íslendinga sé minna en nágrannaþjóðanna.
Nokkru meira er gert að því að mæla heilsufar fólks. Fyrst og fremst er það gert til að leita að krabbameini og hjartasjúkdómum á frumstigi, en í leiðinni koma fram ýmis önnur heilsufarsvandamál, sem þá er tiltölulega auðvelt að lagfæra.
Fyrst og fremst eru það félög áhugamanna, sem hafa verið í fararbroddi í fyrirbyggjandi aðgerðum í heilsugæzlu. Hið opinbera og mikill meirihluti heilbrigðisstéttanna tekur lítinn þátt í þessu starfi. Hér má nefna íþróttafélögin, heilsuverndarfélögin, krabbameinsfélögin, náttúrulækningafélögin og berklavarnafélögin, svo að dæmi séu nefnd. Frá heilsufræðilegu sjónarmiði er starf þessara félaga að sumu leyti árangursríkara en starf hinnar opinberu heilsugæzlu og sjúkrahúsanna.
“Öll læknisfræðin stefnir og hlýtur að stefna í auknum mæli inn á fyrirbyggjandi lækningar, þ.e. að koma í veg fyrir sjúkdóminn eða stöðva hann á frumstigi”, sagði landlæknir fyrir nokkrum árum.
Jónas Kristjánsson
Vísir