Tvo af alvarlegustu annmörkum skattalaganna ætti að vera unnt að leiðrétta, ef ráðamenn þjóðarinnar og þingmenn þeirra hefðu raunverulegan áhuga á að verða við kröfum þjóðarinnar um aukið réttlæti í skattamálum.
Ranglæti skattakerfisins vex með aukinni skattheimtu. Í ár hefur álagningin verið langt umfram verðbólgu, sem hefur aukizt um 30% milli ára en skattheimtan um 43%. Þegar ríkisstjórn kyndir verðbölgubálið með þessum hætti, er augljöst, að verulega aukast byrðar þeirra, sem sýna réttar tölur á skattskýrslum.
Það eru ekki auðmennirnir, sem hafa breiðu bökin, að mati þeirra, sem skattakerfinu ráða. Það eru ekki heldur hinir allra tekjulægstu, sem hafa breiðu bökin, því að þeir sleppa sæmilega vel. Dráttarklárar þjóðfélagsins eru meðaltekjufólkið, sem ekki getur hagrætt skattskýrslum sínum.
Létta mætti byrðar þessa fólks, ef unnt væri að ná eðlilegum sköttum af þeim, sem eru hátekjumenn alls staðar annars staðar en á skattskýrslunni.
Einn alvarlegasti galli kerfisins felst í möguleikum manna til aó blanda saman rekstri og einkaneyzlu. Einkum á þetta við um rekstur einyrkja og lítilla fyrirtækja, en má einnig sjá af álagningu skatta á ráðamenn stórfyrirtækja.
Skattalögin gera ráð fyrir því, að menn, sem sýna á skattskýrslu tap af starfsemi, er þeir reka í eigin nafni, geti orðið nærri tekjulausir sjálfir. Um þetta eru ótal dæmi í nýútkomnum skattskrám. Þetta má lagfæra með lagabreytingu í þá átt, að allur rekstur verði skattlagður sérstaklega, einnig hjá þeim, sem ekki hafa talið ástæðu til að stofna sérstök fyrirtæki um reksturinn.
Eftir slíka breytingu á ekki að vera unnt að nota bókhaldslegt tap af rekstri til að hliðra sér hjá persónulegum tekjusköttum. Tap á rekstri annars vegar og einkatekjur hins vegar verða þá tiltölulega aðskilin mál.
Annar alvarlegasti galli kerfisins felst í möguleikum manna til að sýna tekjur, sem eru í augljósu misræmi við lífsstíl þeira. Þetta á einkum við um einyrkja og minni háttar atvinnurekstur, þar sem alltaf er unnt að gefa upp of lágar tekjur, hvernig sem bókhaldseftirlit er hert.
Viðmiðunartölur skattstjóra um lágmarkstekjur atvinnustétta eru allt of lágar til að laga þennan galla. Í myndina vantar heimild handa skattstofum til að kynna sér lífsgæðaaðstöðu þeirra, sem hafa undarlega lágar tekjur á skattskýrslum. Skattstofur þurfa lagaheimild til að kynna sér, hvernig þessir menn lifa, hvernig þeir búa og hvernig þeir ferðast.
Skattalögin þurfa að heimila skattstofum að áætla mönnum tekjur í samræmi við lífsstíl þeirra, ef hann er ekki Í samræmi við skattskýrslur þeirra.
Þessar tvær breytingartillögur afnema ekki allt ranglæti skattakerfisins. En þær eru mikilvæg spor í rétta átt og gætu stuðlað að endurnýjun þeirrar stöðu, er viðreisnarstjórnin kom á um tíma, að almennar verkamannatekjur gætu orðið skattfrjálsar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið