Á réttri leið

Greinar

Franska byltingin er enn að gerast. Þótt slagorð hennar hafi reynzt hræsnisfull á stundum, er staðreyndin þó sú, að efnahagslegt og félagslegt jafnrétti er að eflast, að menningarlegt og persónulegt frelsi er að magnast, og að þátttaka almennings í stjórnmálaákvörðunum er að aukast.

Valdið í þjóðfélaginu er nú almennt talið upprunnið hjá almenningi, en ekki hjá þjóðhöfðingjanum eða hinum sterka. Vald laganna hefur tekið við af persónulegu valdi. Jafnréttisþjóðfélag hefur tekið við af stéttaþjóðfélagi.

Við vitum, að lýðræðiskerfi okkar skortir í sumum tilvikum innihald. En aðstaða okkar sem borgara lýðræðisríkis er gerólík aðstöðu þegnanna í Chile, Sovét og Spáni. Hægri menn geta því rólegir yppt öxlum, þegar spámaður vinstrimanna, Herbert Marcuse, segir,að frjálslyndur kapítalismi sé verri en fasismi. Hann gleymdi nefnilega að ráðfæra sig við þá Ítali, sem muna eftir Mussolini.

Reynslan hefur sýnt, að sovézka byltingin, kínverska byltingin og kúbanska byltingin voru aðeins hliðarspor. Samþjöppun alls valds í höndum fámennisstjórnar vísar ekki veginn fram á leið heldur aftur til miðalda.

Þar sem pólitískt, efnahagslegt, hernaðarlegt, tæknilegt, lagalegt, menningarlegt og upplýsingalegt vald er á einni hendi, er ekki til nein gagnrýni. Hún er hins vegar til á Vesturlöndum, þar sem einstaklingurinn er borgari en ekki þegn.

Menn greinir á um, hvort gamla, franska byltingin sé að ná meiri árangri á Norðurlöndum, í Vestur-Þýzkalandi eða í Bandaríkjunum. Norðurlandabúar hafa lengi talið sig hafa vinninginn, en ýmis teikn eru um, að Bandaríkjamenn séu að fara fram úr þeim.

Í Bandaríkjunum er suðupottur framfaranna, meðan Norðurlandabúar eru að flækjast inn á hliðarspor ríkisdýrkunar, ekki einungis í efnahagsmálum, heldur einnig í fjölmiðlun.

Ekkert þjóðfélag býr við jafn skarpa innri gagnrýni og bandarískt þjóðfélag. Um þetta geta menn sannfærzt með því að bera bandaríska fjölmiðla saman við fjölmiðla annarra Vesturlanda. Hinir fyrrnefndu bera af eins og gull af eiri.

Í tækniheimi nútímans getur ekkert hagkerfi staðizt, ef borgararnir hafa ekki aðstöðu til og vilja til að gagnrýna kerfið og endurnýja það. Þess vegna er sovézka hagkerfið sérhæft hernaðarkerfi, sem lifir á vestrænum uppgötvunum og getur ekki staðið á eigin fótum.

Við sjáum umhverfis okkur á Vesturlöndum, að stjórnmálalegt lýðræði er smám saman að leiða til efnahagslegs lýðræðis. Þessi þróun gerist ekki í ríkjum alræðis og fámennisstjórna. Þessi þróun gerist ekki heldur í ríkjum þriðja heimsins, sem eru flest brennd marki einræðis, þjóðernishroka, sósíalisma, spillingar og skorts á sjálfsgagnrýni.

Borgaraleg hugsun kann að vera á undanhaldi í heiminum. Samt blómstrar hún á Vesturlöndum Þar er franska byltingin enn að gerast. Við skul um njóta hennar, meðan hún endist.

Jónas Kristjánsson

Vísir