Á pillum og blóðmjólkaðar.

Greinar

Meðferð ráðamanna þjóðarinnar á sjávarútveginum hefur verið sorgleg áratugum saman. Þessi mjólkurkýr velmegunarinnar á Íslandi er daglega blóðmjólkuð og látin lifa á pillum.

Útgerð og fiskiðnaður eru þær greinar, sem afla okkur gjaldeyris til kaupa á ótal nauðsynjum og öðru, sem þjóðin telur sig þurfa á að halda. Þetta eru einu heilu atvinnuvegirnir, sem eru samkeppnishæfir á alþjóðlegum markaði.

Fyrir aðeins hálfum öðrum áratug var framleiðni sjávarútvegsins miklu meiri en í nokkru öðru nálægu landi. Síðan hefur sigið töluvert á ógæfuhliðina og má ætla, að bæði Færeyingar og Norðmenn séu komnir upp fyrir okkur.

Vandi sjávarútvegsins er sá, að hann hefur aldrei fengið að njóta afraksturs erfiðis síns. Ríkið hefur haft af honum tekjurnar og dreift þeim um þjóðfélagið. Það hefur ríkið gert með of lágri gengisskráningu.

Ríkisvaldið hefur á sínum snærum reiknistofnanir, sem reikna út mörgum sinnum á ári, hvað sjávarútvegurinn þurfi til að vera rekinn án taps eða hagnaðar. Á þessum útreikningum er síðan byggt, þegar ákveðið er, hvenær þurfi að lækka gengið og hve mikið.

Núna er til dæmis búið að reikna út, að olíuhækkunin leiði til, að útgerðin þurfi 12% fiskverðshækkun. Til að greiða þá hækkun þurfi fiskvinnslan 6% gengislækkun. Til að greiða þá gengislækkun þurfi útgerðin … og svo framvegis. Útkoman á eins og áður að verða núll.

Á móti þessari blóðmjólkun kemur svo pillugjöfin, sem aðallega felst í sjálfvirkum roknalánum, einkum til útgerðar, en minna til fiskvinnslu. Menn fá upp undir 100% lán til kaupa á skipum, ef þeir geta flaggað einhverjum byggðasjónarmiðum.

Pillugjöfin leiðir til þess, að flotinn er endurnýjaður og stækkaður, þótt blóðmjólkunin gefi rekstri útgerðarinnar ekkert tilefni til slíks. Við höfum því of stóran flota, þrátt fyrir of lága gengisskráningu.

Óhófslán hafa leitt til óhófsflota, sem hefur leitt til óhófsveiði. Ofveiðin er orðin svo gegndarlaus, að lífsafkomu þjóðarinnar er stefnt í voða. Og hagsmunaaðilar reka upp ramakvein, þegar ríkisstjórnin reynir af veikum mætti að ganga örlítið til móts við friðunarkröfur fiskifræðinga.

Reikningskúnstirnar umhverfis sjávarútveginn eru orðnar svo hrikalegar, að fólk er hætt að gera greinarmun á þessum framleiðna atvinnuvegi og á einskis nýtum atvinnuvegi á borð við landbúnað. Nýlega var rituð hér í blaðið kjallaragrein til að sýna fram á, að útflutningsuppbætur væru í sjávarútvegi!

Þjóðin er orðin allt of fjölmenn til að lifa á sjávarútvegi og hún er ekki nógu fjölmenn til að borga vitleysu landbúnaðar. Hún þarf að koma sér upp auknum iðnaði til að lifa á í framtíðinni. En það tekur langan tíma að koma framleiðni iðnaðar upp í það, sem hún getur verið í sjávarútvegi.

Eitt brýnasta verkefni okkar er að endurheimta framleiðnina í sjávarútvegi um leið og við höldum veiðunum í nægilegum skefjum til að byggja aftur upp myndarlegan hrygningarstofn.

Eina leiðin til að gera hvort tveggja í senn er að gefa gengi krónunnar frjálst og hefja útboð veiðileyfa, sem byggi á, að takmörkuðum fjölda brúttótonna í skipum sé hleypt á fiskistofnana. Þannig fullnýtum við beztu skipin og getum selt hin.

Við þurfum nefnilega ekki stóran sjávarútveg á framfæri ríkisins, heldur passlega lítinn og auðugan sjávarútveg.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið