Á fullri orkuferð

Greinar

Íslendingar eru komnir á fulla ferð í þróun orkubúskapar síns. Á þessu ári verður varið hvorki meira né minna en sjö milljörðum króna til fjárfestingar í orkumálum.

Við sjáum líka fram á, að við getum komið orkuvinnslu og orkuöryggi okkar í sæmilegt lag á næstu fimm árum, ef við slökum ekki á og höldum áfram að fjárfesta sjö til níu milljarða á ári í þessari mikilvægu undirstöðu efnahagslífsins.

Lagarfoss er þegar kominn í gagnið að nokkru leyti og vonandi að fullu fyrir veturinn. Síðan tekur orkuverið við Sigöldu til starfa síðari hluta næsta árs og við Kröflu í árslok 1977 eða byrjun árs 1978.

Með þessum viðbótum ætti í bili að vera til nægileg orka fyrir almenna markaðinn og fyrir málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði, svo og til rafhitunar á ýmsum stöðum, þar sem aðstæður til hitaveitu eru ekki góðar.

Þessi fimm ár framundir árið 1981 verður jafnframt unnið af krafti við að auka orkuöryggið, einkum með því að samtengja orkuveitusvæðin. Sú samtenging gerir kleift að flytja orku milli landshluta eftir aðstæðum hverju sinni.

Fyrsta skrefið, samtenging Suðurlands og Norðurlands um Vesturland, er þegar hafið. Það er feikilega dýrt verkefni, sem verður umtalsverður hluti fjárfestingarkostnaðar í orkumálum næstu árin. Síðan tekur við samtenging Norðurlands og Austurlands um orkuverið við Kröflu og loks lína til Vestfjarða.

Að þessum áfanga í virkjunum og tengingum loknum ætti feikilega mikil olía að hafa sparazt. Dísilstöðvarnar víðs vegar um landið yrðu þá einungis notaðar sem toppstöðvar og varastöðvar. Þessi fimm ára áfangi er því eitt mikilvægasta skrefið í orkuþróun Íslands.

En við þurfum líka að hugsa lengra fram í tímann, því að það tekur um átta ár að koma orkuveri í gang frá því að frumhönnun þess hefst. Þess vegna eru stjórnendur orkumála önnum kafnir við að undirbúa verkefnin, sem eiga að taka við, þegar núverandi áfanga lýkur.

Ákveðið hefur verið að taka fyrst ákvörðun um virkjun á Norðurlandi, sem væntanlega yrði tengd stóriðju við Eyjafjörð. Hingað til hafa menn helzt hallazt að virkjun Blöndu, en ýmis vandamál þar valda því, að aðrir staðir eru nú taldir koma til greina.

Næst kemur svo ákvörðun um virkjun Hrauneyjarfoss milli Sigöldu og Búrfells. Landsvirkjun er svo langt komin með undirbúning þeirrar virkjunar, að útboð á framkvæmdum getur raunar hafizt hvenær sem er. Ef á þarf að halda, getur það orkuver hafið vinnslu þegar í byrjun þess orkuuppbyggingaráfanga, sem hefst um áramótin 1980-1981.

Hrauneyjarfossvirkjun ætti að nægja aukinni almennri orkunotkun fram til ársins 1985. En vitanlega þurfum við á fleiri orkuverum að halda fyrir þann tíma, ef við viljum áfram leggja áherzlu á stóriðju.

Landsvirkjun er vel á vegi í undirbúningi jarðgufustöðvar í Hengli og vatnsorkuvers við Sultartanga neðan Hrauneyjarfoss. En að sjálfsögðu dreymir marga um stóra Austurlandsvirkjun tengda stóriðju á Reyðarfirði.

Við megum því hvergi slaka á næsta áratuginn

Jónas Kristjánsson

Vísir