D. Downtown

Borgarrölt, New York

World Trade Center

World Trade Center er ekki lengur til. En þar byrjar bókin, sem kom út 1988, fyrstu gönguferðina og ég læt þann kafla standa, þótt hann vísi ekki lengur veginn. Hann segir þó frá nýliðinni fortíð:

World Trade Center, New York

Svona leit World Trade Center út, séð frá jörð

Við hefjum fyrstu gönguferðina við World Trade Center. Í suðurturninum, WTC nr. 2, tökum við örskjóta lyftuna upp á 107. hæð og virðum fyrir okkur nálægt útsýni yfir bankaturnana í Downtown og fjarlægara útsýni suður til frelsisstyttu og Verrazano-brúar og norður til skýjakljúfanna í Midtown. Frá 107. hæð er farið í rennistiga upp á sjálft turnþakið, 110 hæð. Svipað útsýni er að hafa úr veitingasölunum á 107. hæð  í WTC nr. 1.

Byggingu turnanna var lokið árið 1974 og voru þeir þá um skeið hinir hæstu í heimi, átta hæðum hærri en Empire State. Þeir eru frekar einfaldir að útliti og skekkja raunar heildarmyndina af skýjakljúfaþyrpingu bankahverfisins. En þeir sjást alls staðar að og eru auðþekkjanlegir.

Byggingarnar í World Trade Center mynda hring umhverfis stórt torg. Undir torginu er stórt verzlunarsvæði, sem tengir húsin saman. Þar eru um 60 verzlanir, auk veitingahúsa, banka og annarrar þjónustu. Þar á meðal er útibú frá TKTS, stofnuninni, sem selur leikhúsmiða á hálfvirði á sýningardegi. Á torginu sjálfu eru frægar styttur eftir Koenig, Rosati og Nagare.

Battery Park City

Vestan við World Trade Center, þar sem áður voru bryggjur, hefur verið búið til nokkurra ferkílómetra land út í Hudson River. Þar er verið að reisa Battery Park City, stórborg íbúða með görðum í kring. Þessu hverfi er ætlað að veita mannlífi í syðsta hluta Manhattan, bankahverfið, sem hingað til hefur verið dautt um kvöld og helgar.

Næstu skref