Á brott í tæka tíð.

Greinar

Hinn mikli hávaði, sem orðinn er vegna meints tillitsleysis Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra í garð vísitölunefndar, verður ekki skilinn, nema menn átti sig á nýjustu fyrirætlun Lúðvíks Jósepssonar, sem ekki hefur verið haft hátt um.

Eins og Dagblaðið sagði í leiðara í gær hefur Alþýðubandalagið beint kastljósinu að vísitölunefnd. Það eyðir miklu minna púðri og rúmi í atvinnusamdrátt og verðbótafrestun launa í efnahagsfrumvarpi Ólafs Jóhannessonar.

Alltaf er óbragð að ágreiningi, sem leggur meira upp úr formsatriðum en efnisinnihaldi. Og það er einkar athyglisvert að sjá hvern verkalýðsrekanda Alþýðubandalagsins á fætur öðrum ólmast út af því, að Ólafur skuli halda framhjá vísitölunefnd.

Forsætisráðherra hefur svarað þessum ásökunum á einfaldan hátt. Hann segir, að verði í vísitölunefnd samkomulag um eitthvað annað, muni sú niðurstaða koma inn í frumvarpið í stað núverandi kafla um breytingar á verðbótum launa. Svona einfalt er málið og ekkert tilefni moldviðris.

Miklu trúlegra væri moldviðri, sem þyrlað væri upp vegna atvinnusamdráttar og verðbótafrestunar. Samdráttarkaflar frumvarpsins gætu magnað þau teikn, sem nú eru á lofti um atvinnuleysi. Og frestun verðbóta stríðir gegn kjörorðinu: “samningana í gildi”.

Um þessi atriði má deila. Ólafur hefur ekki hróflað við eðlilegum verðbótum 1. marz. Og enn er óvíst, að verðbólgan verði svo mikil í vor og sumar, að frestun verðbóta umfram 5% komi til framkvæmda.

Ennfremur er ekki enn neitt atvinnuleysi í landinu, þótt slæmar blikur séu á lofti í ofvöxnum byggingariðnaðinum. Ríkisstjórnin getur hvenær sem er snúið þvert af samdráttarbrautinni, ef atvinnuleysi ætlar að verða vandamál.

Kjarni málsins er sá, að leiðtogar Alþýðubandalagsins sjá eins og aðrir menn, að allar forsendur efnahagsmála hafa gerbreytzt á síðustu vikum. Þeir atburðir hafa gerzt, að sultarólin herðist, hvort sem við viljum eða ekki.

Hrun keisaradæmisins og bylting múhameðstrúarmanna í Persíu hefur þegar valdið mikilli verðhækkun á olíu og á eftir að valda meiri hækkun. Hinn vandinn er sá, að minnkun þorskafla úr 330 þúsund tonnum í 250 þúsund tonn virðist óumflýjanleg.

Ríkið og olíufélögin geta neitað sér um aðild að gróðanum af olíuhækkuninni og tekið óbreyttar krónutölur í sinn hlut. Þar með mundu olíuvörur til neytenda hækka um jafnmargar krónur og þær hækka um í innflutningi, en ekki um margfaldar krónur. Samt má búast við 25% hækkun á verði olíu. Sú hækkun yrði atvinnuvegunum geigvænlegt áfall.

Að því er varðar þorskveiðarnar hefur enn ekki komið fram nein skynsamleg hugmynd um, hvernig draga megi úr þorskafla sem svarar afla 20 skuttogara, án þess að hagkvæmni veiðanna minnki verulega. Þarna er um gífurlegan, óleystan vanda að ræða.

Spurningar um, hvort samningar verði í gildi, eru úreltar í ljósi þessara tveggja vandamála. Kringumstæðurnar taka bara völdin, hvað sem stjórnmálamennirnir segja. Þess vegna er Lúðvík Jósepsson nú að hugsa um að láta Alþýðubandalagið hlaupast úr ríkisstjórn í tæka tíð.

Það er vegna þessa, að Alþýðubandalagið gerir úlfalda úr mýflugu meints tillitsleysis gagnvart vísitölunefnd.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið