Sjaldan hefur heyrzt meiri frekja á opinberum vettvangi en yfirlýsing framkvæmdastjórnar Sambands málm- og skipasmiðja um, að hún telji “það aðildarfyrirtækjum sínum vítalaust að hafa samþykkt verðlagsnefndar frá 8. júlí 1977 að engu, þar sem hún er bein valdníðsla, sem hvorki á stoð í lögum né almennum siðvenjum”.
Verðlagsnefnd hefur þó ekki gert annað en að fara eftir nýgerðum heildarsamningum um kjör í landinu, sem Samband málm- og skipasmiðja skrifaði undir. Þar er gert ráð fyrir 18.000 króna hækkun á alla taxta og 2,5% hækkun til afgreiðslu á ýmsum sérkröfum.
Nú virðist svo sem Samband málm- og skipasmiðja hafi í rauninni samið um meiri hækkun til starfsmanna sinna og vilji nú velta þeirri umframhækkun yfir á viðskiptamenn sína. Sá sem sprengir þannig kjarasamningana, hlýtur að gera það á eigin ábyrgð og eigin kostnað.
Samtök sveina og meistara í byggingaiðnaði hafa löngum beitt þeirri aðferð, sem Samband málm- og skipasmiðja vill nú beita. Meistarar hafa samþykkt meiri hækkanir en aðrir og velt þeim jafnóðum yfir á húsbyggjendur. Í nýjustu kjarasamningunum var gerð fyrsta raunhæfa tilraunin til að stöðva þetta svindl.
Auðvitað kemur ekki til mála, að Samband málm- og skipasmiðja hafi sitt rangláta mál fram með frekjunni. Ekki kemur heldur til mála, að opinberar stofnanir leiki þennan sama leik.
Forsvarsmenn opinberra stofnana hafa lengi haft ástæðu til að ætla, að lög um verðstöðvun gildi aðeins um einkafyrirtæki, en ekki um opinber fyrirtæki. Árum saman hafa opinber fyrirtæki komizt upp með að hækka sína þjónustu hratt og örugglega, meðan einkafyrirtækin hafa lent í vandræðum.
Nú hyggst verðlagsstjóri koma á bættum siðum í þessu efni. Ríkisverksmiðjurnar hafa nýlega gert kjarasamninga, sem sprengja ramma hinna almennu kjarasamninga. Starfsmenn þeirra fá ekki aðeins 18.000 króna hækkun, heldur hlutfallslega meiri, ef þeir eru ofar en í lægstu launaflokkum. Þær hafa síðan gert tilraun til að fá að velta þessu léttlyndi yfir á viðskiptamenn sina. En verðlagsstjóri hyggst standa fast gegn slíkum kröfum.
Fleiri eru á ferðinni í samkeppninni um mögnun verðbólgunnar. Landsvirkjun hefur heimtað mikla hækkun til þess að koma hagnaði sínum upp í alþjóðlega staðla. Vissulega væri ágætt, ef innlend fyrirtæki gætu almennt haft hagnað í stíl við alþjóðlega staðla. En ástandið hefur ekki gert þeim það kleift. Og nú er allra sízt ástæða til að magna hagnað fyrirtækja.
Landsvirkjun verður að sæta því að sitja við sama borð og önnur íslenzk fyrirtæki. Sá tími er vonandi liðinn, að hún geti hagað sér eins og lénsherra, er verðleggur einokunarvöru sína næstum því að vild.
Sérstök bremsunefnd Georgs Ólafssonar verðlagsstjóra, og þingmannanna Ólafs G. Einarssonar og Halldórs Ásgrímssonar, hafnaði kröfu Landsvirkjunar og hafa þeir vaxið að virðingu fyrir bragðið. Vonandi stendur ríkisstjórnin fast við bak þeirra. Á þessu sviði sem öðrum verða stjórnvöld að berjast hatrammlega gegn verðbólgunni.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
