Félagsleg rétttrú biblíunnar

Punktar

Félagslegur rétttrúnaður hvers ríkis og hvers tíma stjórnar biblíunni. Fyrr á öldum rifust kirkjuþing um, hvað skyldi vera og hverju skyldi sleppa. Út á þetta klofnaði kristnin í nokkra meginstrauma og svo ótal kirkjudeildir. Lúter orðaði biblíuna öðru vísi en páfinn. Þjóðkirkjan orðar hana á annan hátt árið 2007 en hún gerði árið 1981 og 1584. Biblíuþýðingar eru auðvitað skáldskapur. Biblían er ekki heilagt rit, orð guðs. Hún er samtíningur og skáldskapur munka, sums staðar studdur af sagnfræði. Hún er handbók, sem reynir að endurspegla félagslegan rétttrúnað hvers ríkis og hvers tíma.