Heimsókn Gundelachs, framkvæmdastjóra hjá Efnahagsbandalaginu, til Íslands fyrir helgina sýndi okkur fram á, að við getum hreinsað erlend veiðiskip úr fiskveiðilögsögu okkar, ef við höfnum óskhyggju um aflamagn og gróða af veiðum á miðum annarra þjóða.
Gundelach gætti sín á að flækja sig ekki inn í hið sér-brezka böl þorskastríðanna. Hann margítrekaði, að hann væri ekki fulltrúi neins ríkis innan Efnahagsbandalagsins, heldur heils ríkjahóps með mismunandi fiskveiðihagsmuni.
Mönnum létti líka mjög, þegar Gundelach sagðist ekki vera kominn til að semja um framhald veiðiheimilda Breta eftir 1. desember. Hans verksvið væri allt annað, að hefja viðræður um framtíðarskipan fiskveiði á hafsvæðum Vestur-Evrópu.
Það virðist því ljóst, að 200 mílurnar verði að raunveruleika 1. desember gagnvart Bretum. Í því felst mikill sigur og ánægjulegur. Bretar virðast ekkert geta gert gegn afnámi veiðiheimildanna, því að þeir hafa framselt Efnahagsbandalaginu hagsmuni sína.
Þrátt fyrir þetta megum við ekki halda, að samskiptin við Efnahagsbandalagið verði dans á rósum. Bandalagið er einmitt frægt fyrir efnahagslegar þvinganir og kalda valdastefnu. Það er ekki auðvelt að trúa orðum Gundelachs um, að bandalagið hafni efnahagslegum þvingunum gegn Íslandi. Við skulum að minnsta kosti vera slíku viðbúin.
Ef við sjáum síðar glitta í efnahagslegar þvinganir, megum við ekki láta þær á okkur fá. Hugsanlegt er, að Efnahagsbandalagið vilji venja okkur betur við tollfríðindin, sem við höfum notið síðan í sumar, og gera okkur háðari þeim, áður en það lætur til skarar skríða.
En um sinn er ljóst, að viðræður um gagnkvæm fiskveiðiréttindi hljóta að beinast í farveginn: Króna fyrir krónu. Efnahagsbandalagið mun bjóða fiskveiðiréttindi fyrir Íslendinga við Grænland og í Norðursjó gegn fiskveiðiréttindum fyrir sín ríki á Íslandsmiðum.
Í þeim viðræðum skiptir okkur mestu að ofmeta ekki hagsmuni okkar af veiðimöguleikum á miðum annarra þjóða. Þeir skipta okkur sáralitlu, næstum engu, í samanburði við hagsmuni okkar af að losna við útlendinga af okkar eigin miðum.
Það er raunar lítt skiljanlegt, hversu mikla áherzlu Morgunblaðið og sjávarútvegsráðherra leggja á þessa fjarlægu og langsóttu hagsmuni. Vandi okkar felst aftur á móti í ofveiði erlendra skipa á Íslandsmiðum.
Við megum ekki framselja sigurinn í fiskveiðideilunni, því að ofveiðin á Íslandsmiðum er alvarlegasta málið.
Bezt er, að hver búi að sínu. Bezt er, að við látum aðrar þjóðir í friði á þeirra miðum og að við gerum um leið sömu kröfur til þeirra. Eftir hálfan mánuð eigum við að vera lausir við Breta af Íslandsmiðum. Og þá er næsta málið að losna við Vestur-Þjóðverja. Við skulum ekki víkja af þeirri leið, sem við erum nú á.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
