Liðin er sú tíð, er London var ein hagstæðasta verzlunarborg Evrópu. En hún er enn ein hin skemmtilegasta. Einkum eru það sérverzlanirnar, sem gera garðinn frægan, sumar frá fyrri öld eða öldum. Ef við tökum forngripaverzlanirnar sem dæmi, þá eru á því sviði ótölulega margir flokkar sérverzlana í ákveðnum tímabilum ákveðinna tegunda og ákveðinna landa.
Leiðsögnin um verzlanir í London verður í höfuðdráttum í formi gönguferðar um St James´s hverfi og austurhluta Mayfair hverfis. Í leiðinni verður bent á ýmsar sögufrægar verzlanir, þótt fleira megi skoða en þær einar.
Ef sumum lesendum finnst karlmönnum gert hærra undir höfði en konum, er það til afsökunar, að karlmannabúðir í London eru sumar gamlar og rótgrónar, en kvennabúðir hins vegar nýlegar og innfluttar frá París eða Róm.
Óþarfi er að leiðbeina lesendum sérstaklega til vöruhúsanna miklu við Oxford Street og Regent Street, þar sem menn reyna að finna hið fáa, sem ekki fæst heima á Íslandi. Hins vegar er gaman að glugga í frægar og dýrar búðir, ekki beinlínis til að verzla, heldur til að skoða þær eins og aðra merkisstaði borgarinnar. Og kaupsýslan í London er ekki síður merkileg en gamlar kirkjur, söfn og myndastyttur.
1. gönguferð:
Við hefjum gönguferðina við St James´s höll, á horni Pall Mall og St James´s Street (D3).
Hardy
Pall Mall megin við hornið, á nr. 61, er Hardy, ein frægasta sportveiðiverzlun heims. Þar fást dýrustu veiðihjól í heimi, auðvitað sérsmíðuð fyrir verzlunina eins og annað, er þar fæst, svo sem stengur úr trefjagleri og kolefnisþráðum.
Nálægt hinum enda Pall Mall, rétt við Haymarket, er hin fræga sportveiðibúðin, Farlow, á nr. 56, sem hefur það fram yfir að vera konungleg hirðverzlun á þessu sviði.
Berry Brothers
Handan hornsins, á St James´s Street nr. 3, er Berry Brothers & Rudd, elzta vínbúð í London, frá átjándu öld. Innréttingar eru forgamlar og gólfinu hallar til allra átta.
Fræg er vogin, sem mælir þyngd þekktra viðskiptavina. Tvennt annað er merkilegt við verzlunina, að vínið er allt á lager í kjallaranum og að það er ódýrara en í flestum vínbúðum borgarinnar. Síðast kostaði Chateau Langloa-Barton 1971 ekki nema GBP 15 og Kiedricher Sandgrub 1976 ekki nema GBP 9.
James Lock
Nánast við hliðina, á nr. 6, er hattabúðin James Lock, frá 1765. Þar er frammi forgamalt áhald, sem minnir á gamla ritvél, notað til að máta höfuðlag og -stærð viðskiptavina. Eftir mælingu er hæfilegur hattur hitaður og síðan mótaður í form, sem fellur að viðskiptavininum. Á þessum stað var hannaður fyrsti harðkúluhattur í heimi. En nútildags eru einnig seldir sixpensarar. Í búðinni er fágætt safn gamalla höfuðfata.
John Lobb
Nokkrum skrefum ofar við St James´s Street, á nr. 9, er John Lobb, sem hefur áratugum saman skóað brezku konungsfjölskylduna. Í búðarholunni er indæl leðurlykt og skóarar eru sýnilegir við vinnuna. Gert er trémót af fótum viðskiptavina og síðan eru skórnir auðvitað handunnir. Það kostar minnst GBP 150 á parið og tekur sex mánuði. En skórnir eiga líka að endast í áratug með réttu viðhaldi.
Christie´s
Hér beygjum við til hægri inn King Street. Þar á nr. 8 er annað af tveimur heimsþekktum uppboðsfyrirtækjum í London, Christie´s. Á mánudögum eru yfirleitt seldir leirmunir og postulín, á þriðjudögum teikningar, mynt, gler og forngripir, á miðvikudögum skartgripir, bækur og vopn, á fimmtudögum húsmunir og vín og á föstudögum málverk. Uppboðin byrja yfirleitt kl. 11. Munirnir eru oftast til sýnis í tvo daga á undan.
Turnbull & Asser
Við snúum til baka og förum til hægri Bury Street upp að Jermyn Street, sem er aðalgata karlabúða í borginni. Þar á horninu er vinstra megin Turnbull & Asser á nr. 71 og hægra megin Hilditch & Key, báðar skyrtubúðir, hin síðarnefnda einnig fyrir konur. Turnbull & Asser selur bæði tilbúnar og sérskornar skyrtur, sem þá þarf að bíða eftir í sex vikur. Búðin tollir vel í tízkunni, þótt hún sé síðan 1885. Bæði þjónusta og verð er uppi í skýjunum.
Floris
Við göngum austur Jermyn Street og komum fljótlega að Floris á nr. 89, hægra megin götunnar. Það er meira en 250 ára gömul ilmvatnabúð frá 1730. Allir hafa efni á að kaupa hér baðsalt til að nota tækifærið til að svipast um í einni frægustu ilmvatnabúð heims. Mundu, að Chanel og aðrir frá París eru bara nýgræðingar frá 19. og 20. öld. Þetta er notaleg og auðvitað sérstaklega ilmþrungin verzlun.
Paxton & Whitfield
Aðeins fjær og sömu megin götunnar, á nr. 93, er Paxton & Whitfield, frægasta og skemmtilegasta ostabúð borgarinnar, starfrækt frá lokum átjándu aldar. Hér fást beztu brezku ostarnir, bæði stilton og cheddar, auk 300 annarra tegunda úr öllum heimshornum. Þeir selja ostinn bæði í stórum skömmtum og litlum sneiðum. Viðskiptavinir eru hvattir til að smakka. Ef þeir eiga ekki umbeðinn ost, útvega þeir hann innan tíu daga.
Hatchards
Við förum nú yfir götuna og göngum stuttan spöl til baka, unz við komum að sundinu Princess Arcade, sem liggur út á Piccadilly. Þetta er eitt af mörgum göngusundum smáverzlana í borginni. Úti á Piccadilly beygjum við til vinstri og komum strax, á nr. 187, að Hatchards, elztu bókabúð borgarinnar, á þessum stað frá 1767. Hér eru yfir 350 þúsund bókatitlar á fjórum hæðum. Andrúmsloftið er einkar notalegt fyrir bókaorma, sem hafa nógan tíma.
Fortnum & Mason
Við höldum áfram nokkur skref suðvestur Piccadilly og staðnæmumst við Fortnum & Mason á nr. 181. Það er hin hefðbundna sælkerabúð borgarinnar og matvöruverzlun drottningarinnar. Sérgrein staðarins er alls konar niðurlagður og -soðinn matur í krukkum og dósum, þar á meðal ótal sultur. Í rauninni stenzt verzlunin engan samjöfnuð við Harrods, en er heimsóknar virði, af því að andrúmsloftið er óviðjafnanlegt í þessari verzlun frá átjándu öld, þar sem afgreiðslumenn klæðast enn kjólfötum. Á efri hæð er annar varningur en matur.
Burlington Arcade
Áfram liggur leiðin eftir Piccadilly. Við lítum aðeins inn í Piccadilly Arcade, fallegt verzlanasund, sem liggur eins og Princess Arcade yfir til Jermyn Street. Síðan förum við yfir Piccadilly, þar sem nokkurn veginn andspænis er Burlington Arcade, fegursta og frægasta búðasund borgarinnar, frá 1815-19. Hugsaðu þér bara, ef Laugavegurinn liti svona út. Hér er mikill fjöldi þekktra smáverzlana í einstaklega notalegu og furðanlega rólegu umhverfi. Ekki dugir okkur minna en að ganga sundið fram og til baka.
Charbonnel et Walker
Komin úr Burlington Arcade göngum við enn nokkur skref suðvestur Piccadilly. Þar komum við að Old Bond Street og beygjum til hægri. Hérna megin götunnar á nr. 7 er diskó-klúbburinn Embassy (bls. 55). Aðeins lengra hinum megin, á nr. 28, er ein þekktasta konfektbúðin í borginni, Charbonnel et Walker, þar sem viðskiptavinir geta látið setja fangamark sitt á konfektmolana. Við verzlunina er enn eitt búðasundið, Royal Arcade.
Truefitt & Hill
Næstum því andspænis, handan götunnar, á nr. 23, er frægasti hárskeri borgarinnar, Truefitt & Hill. Meðal viðskiptavina er hertoginn af Edinborg og prinsinn af Wales, auk hálfrar lávarðadeildarinnar. Um leið er þetta elzti hárskerinn. Hér fæst góð klipping á verði, sem er eins og gerist og gengur.
Asprey
Nú skiptir gatan um nafn og heitir hér eftir New Bond Street. Hinum megin hennar komum við brátt, á nr. 167, að Asprey, einum þekktasta gullsmið borgarinnar, með mörgum vænum gluggum út að götu. Og auðvitað er hann konunglegur hirðgullsmiður.
Holland & Holland
Áfram höldum við norður New Bond Street og tökum smákrók inn í Bruton Street, þar sem byssusmiðirnir Holland & Holland eru á nr. 33. Þar getum við, eins og hertoginn af Edinborg, fengið afar dýrar veiðibyssur með hálfs fjórða árs afgreiðslufresti. Um leið getum við litið yfir götuna og virt fyrir okkur, hversu mjög hin gamla krá Coach & Horses stingur í stúf við sviplaus nútímahúsin.
Wildenstein
Aftur förum við til New Bond Street og göngum hana áfram til norðurs. Hérna megin götunnar, rétt við hornið, á nr. 147, er einn allra frægasti fornmálverkasali heimsins, Wildenstein, sem veltir frægum nöfnum fyrir háar summur. Andspænis, á nr. 26, er Tessiers, ein elzta og þekktasta verzlun fornra gull- og silfurmuna.
Áhugafólki um forngripi skal bent á, að heila bók af þessari stærð mætti skrifa um einar sér hinar frægu forngripasölur í London.
Sotheby´s
Hér aðeins ofar, hægra megin götunnar, á nr. 35, er Sotheby´s, annar af tveimur heimsfrægum uppboðshöldurum borgarinnar. Þessi er raunar eldri og stærri, heldur yfir 500 uppboð á ári og hélt uppboð á geirfuglinum og Flateyjarbók. Munirnir eru til sýnis í eina viku fyrir uppboð og sýningarskrár eru til mánuði fyrir þau. Mánudaga eru boðnar upp bækur, smávörur og gler, þriðjudaga bækur og postulín, miðvikudaga málverk, fimmtudaga silfur og skartgripir, föstudaga húsgögn og listmunir.
Smythson
Nú fer að fækka hinum gamalgrónu bezku verzlunum við götuna og að fjölga hinum alþjóðlegu, sem eru útibú frá París og Róm. Við erum senn komin að Grosvenor Street, þvergötu til vinstri, þar sem hundrað metrar eru að skrifstofu Flugleiða á nr. 73. Ef við hins vegar höldum New Bond Street áfram til norðurs, komum við strax að pappírsvörubúðinni Smythson hægra megin götunnar, á nr. 54. Þessi verzlun drottningarinnar sérhæfir sig í furðulegu og hugmyndaríku bréfsefni og jólakortum. Þar má finna marga skemmtilega gjafavöru.
Molton Brown
Við beygjum næst til vinstri vestur Brook Street og síðan til hægri norður South Molton Street, fjörlega göngugötu með smáverzlunum og útikaffihúsum. Á nr. 58, hægra megin götunnar, verður fyrir okkur hárgreiðslustofan Molton Brown, ein mesta tízkustofa borgarinnar, innréttuð í aldamótastíl.
Higgins
Aðeins lengra, sömu megin, á nr. 42, er Higgins, ein fremsta kaffibúðin í borginni, geislandi af kopar og angandi af baunum frá öllum heimshornum, þar á meðal frá eigin ökrum í hlíðum Kilimanjaro. Hér fást yfirleitt um 30 tegundir í andrúmslofti fyrri tíma. Gaman er að skoða vogirnar miklu.
Prestat
Nokkurn veginn við hliðina, á nr. 40, er kunnasta konfektgerð borgarinnar, Prestat. Þar á staðnum er konfekt handunnið og selt ferskt yfir fornlegan diskinn. Upprunalega var búðin í París, en flutti hingað upp úr aldamótum. Án efa er þetta borgarinnar bezta konfekt, einkum “truffles”-kúlur og kirsuberjabrandí.
Marks & Spencer
Nú erum við komin út að Oxford Street og gætum sagt amen eftir efninu, því að allur þorri skemmtilegu búðanna er að baki, en alvara stóru vöruhúsanna tekur við. Hinir áhugasömustu geta þó fylgt okkur seinni hluta búðarápsins og munað að skoða fleira en hér er skýrt frá.
Fyrst förum við vestur Oxford Street sunnanvert, unz við komum að fjarlægari enda stórhýsis Selfridges, sem er handan götunnar. Þar förum við yfir götuna og inn í Marks & Spencer, á nr. 458. Þetta er höfuðverzlun keðjunnar, eitt bezta vöruhúsið vegna góðs samhengis vandaðrar vöru og lágs verðs. Hér eru sagðir gripnir 30 þjófar að meðaltali á dag.
Selfridges
Við göngum nú nyrðri gangstétt Oxford Street til baka. Fyrst lítum við inn í Selfridges, hið risastóra og trausta vöruhús, sem oft reynist hafa betra úrval á boðstólum en hið fræga Harrods. En það er dagsverk að skoða verzlunina, svo að við verðum eiginlega að gera okkur sérstaka ferð til þess.
Top Shop
Meðan við röltum austur að Oxford Circus, lítum við í gluggana. Á horninu hinum megin Oxford Circus norðanverðs, er Top Shop í kjallara vöruhúss Peter Robinson. Þar er eitt stærsta tízkugólf Evrópu. Fjölmörg kunn tízkuhús hafa þar skot út af fyrir sig. Hér er gott að máta nýjustu tízkuna, sem fæst á viðráðanlegu verði.
Liberty
Nú höldum við suður austurhlið Regent Street og höldum áfram að líta í glugga. Brátt komum við að Liberty, frábæru vöruhúsi í dýrari verðflokki en þau, sem við sáum við Oxford Street. Liberty er á nr. 210 við Regent Street, en snýr fallegu bindingsverki út að Great Marlborough Street. Sá hluti er smíðaður úr viðum tveggja síðustu tréherskipa flotans árið 1924. Hér inni fást afar fræg, áprentuð baðmullarefni og austurlandateppi, fínt silki og húsbúnaður. Allt er til frá forngripum til hátízku.
Galt
Bak við Liberty, á horni Great Marlborough Street og Carnaby Street, er Galt, sérhæfð verzlun í uppeldisleikföngum, sem mörg eru beinlínis framleidd fyrir búðina. Tré er mikið notað í aðlaðandi leikföngin. Þetta er kjörin gjafabúð foreldra, sem vilja vanda til leikfanga barna sinna.
Hamley´s
Við látum Carnaby Street og túristana þar eiga sig, því tími þeirrar götu er löngu liðinn, sællar minningar. Þess í stað hverfum við til baka til Regent Street og beygjum þar til suðurs framhjá Liberty að Hamley´s á nr. 200. Það er hrikalegasta leikfangaverzlun heims.
Huntsman
Hér förum við beint yfir Regent Street og inn Conduit Street og beygjum svo til vinstri í Savile Row, aðsetur flestra frægustu klæðskera Bretaveldis. Hátindurinn er Huntsman á nr. 11, klæðskeri konunga og lávarða. Um 1800 var búðinni breytt úr hanzkabúð í reiðfatabúð, sem síðan þróaðist yfir í almennan klæðaskurð. Sérgrein Huntsman er þó enn sportklæðnaður. Þarna er saumað hvað sem er á karla og konur, meira að segja úr denim. En við megum búast við tólf vikna afgreiðslufresti og GBP 400 lágmarksgreiðslu fyrir föt, sem eiga að endast í aldarfjórðung, ef línurnar eru passaðar.
Slater & Cooke, Bisney & Jones
Við enda Savile Row beygjum við til vinstri Vigo Street, förum yfir Regent Street og beint inn í Brewer Street. Þar á nr. 67 er kjötbúðin með þessu langa nafni. Hún er frá 1860 og er enn ein fallegasta kjötverzlun borgarinnar. Sérhver kjöttegund er út af fyrir sig og uppstillingar eru einkar hvetjandi fyrir bragðlaukana. Því er gott að ljúka hér búðarápinu í Soho og bregða okkur inn í eitthvert veitingahúsið í nágrenninu (Bls. 32-33) (D2).
Foyle
Nokkrar verzlanir í viðbót eru skoðunar virði, þótt þær hafi ekki rúmast á undangenginni gönguferð okkar um St James´s og austanvert Mayfair hverfi. Ein er Foyle, 119-125 Charing Cross Road, stærsta bókabúð í London, með fjórar milljónir binda. Hún hefur reynzt okkur öruggari en margar sérhæfðu bókabúðirnar. Bezt er að spyrja strax til vegar á jarðhæðinni, svo að síður sé hætta á að ráfa í villu á efri hæðum. (E1)
Í hliðargötum Charing Cross Road austanverðs eru margar góðar fornbókaverzlanir, þar sem dveljast má löngum stundum.
Purdey
Í South Audley Street í Mayfair, á nr. 57, er byssusali drottningarinnar, Purdey. Þar er rétti staðurinn til að kaupa skotvopn til refaveiða, ef við höfum GBP 30.000 aflögu og megum vera að því að bíða í tvö ár. Ef við förum á hausinn af þessu, er hægt að selja byssuna aftur með gróða, því að eftirspurnin er svo mikil. Hver byssa er gerð eftir málum kaupandans og aðeins eru smíðaðar um hundrað á ári. (C2)
Whittard
Hin hefðbundna teverzlun heimsborgarinnar er Whittard við 11 Fulham Road í nágrenni South Kensington stöðvar. Þar fást rúmlega fimmtíu tegundir af te, fyrir utan ýmsar blöndur og fjölmörg jurtaseyði. Hér er siðmenningin varðveitt eftir innreið tes í pokum. (A5)
General Trading
Við Sloane Street nr. 144 er bezta gjafavörubúð borgarinnar, General Trading. Þessi verzlun sérhæfir sig í vörum, sem hægt er að gefa þeim, er eiga allt fyrir. (B5)
Harrods
Hér er rúsínan í pylsuendanum, hin sögufræga Harrods við Brompton Road. Ekki samt vegna þess, að allt fáist þar, jafnvel lifandi fílar, svo sem logið er að ykkur í öðrum leiðsögubókum, er éta upp hver eftir annarri. Úrvalið hér er minna en í Selfridges. Og þrisvar í röð höfum við orðið að snúa okkur annað, af því að varan fékkst ekki í Harrods.
En það sem er stórkostlegt hér, er matardeildin á jarðhæðinni. Hún er miklu betri en Fortnum & Mason og slagar upp í beztu sælkerabúðir Parísar. Ekki skaðar, að kjötdeildin lítur út eins og dómkirkja. Þar er m.a. hægt að fá margar tegundir af ekta kavíar og ferska gæsalifur til að hafa eitthvað með kampavíninu í morgunmatinn! (B4)
Önnur verzlun
Í nágrenni Harrods er gott verzlanahverfi (B4) við Brompton Road, Knightsbridge, nyrðri enda Sloane Street og Beauchamp Place, sem er skemmtileg hliðargata frá Brompton Road. Annað gott verzlanahverfi er við King´s Road (B5), frá Sloane Square til suðvesturs, en það hefur ekki lengur sama stíl og á sjöunda áratugnum, þegar King´s Road var bezta tízkuverzlanagata borgarinnar. Hverfið, sem nú er helzt á uppleið, er Covent Garden (F2), af því að endurreisn markaðarins hefur dælt nýju blóði í alla verzlun hverfisins í kring. Þar leitum við að spennandi búðum.
1983 og 1988
© Jónas Kristjánsson
