London gisting

Ferðir

Í hverjum áningarstað er gisting frumþörf ferðamannsins. Ef við búum ekki hjá vinum, eru hótelin hið fyrsta, sem við þurfum á að halda í ókunnri borg. Við byrjum því leiðsögnina um London á hótelunum.

Ensk hótel eru yfirleitt hreinleg og hafa allan búnað í lagi. Sjálfsagt þykir orðið, að baðherbergi fylgi hverju herbergi. Hér verður aðeins vikið að gistingu, þar sem rykugur ferðamaður getur þvegið sér í eigin baði.
Við setjum einnig það skilyrði, að sjónvarpstæki sé í herberginu, því að fjögurra rása brezka sjónvarpið er gott. Í öllum tilvikum, nema tveim, setjum við líka það skilyrði, að sími sé í herberginu.

Ennfremur viljum við, að þreyttir ferðamenn hafi um nætur sæmilegan svefnfrið í herbergjum sínum. Síðast en ekki sízt finnst okkur nauðsynlegt, að hótelið sé í miðborginni, svo að ekki þurfi að verja miklum tíma í hótelferðir.

Hér verður sagt frá nokkrum völdum hótelum, sem hafa reynzt okkur vel á undanförnum árum. Þau eru í ýmsum verðflokkum, allt frá GBP 25 fyrir tvo með morgunverði, upp í GBP 220 fyrir tvo án morgunverðar. Öll prófuðum við vorið 1987 til öryggis, því að allt er í heiminum hverfult.

Við prófuðum líka önnur hótel, sem við getum ekki mælt með, af því að okkur fannst þau ekki standast samkeppni við hin, hvert í sínum gæðaflokki.

Royal Trafalgar

Hótelið “okkar” í London er Royal Trafalgar, einkum af því að það er nákvæmlega í hjarta borgarinnar, milli torganna Trafalgar og Leicester. Hér mætast leikhús- , bíó- og veitingahverfin Covent Garden í austri og Soho í norðri, svo og verzlanahverfin St. James´s og Mayfair í vestri og loks stjórnmálahverfið Westminster í suðri.

Héðan er gott að skreppa stytztar leiðir til allra átta, til skoðunar eða í búðir á daginn og í leikhús, bíó eða veitingastofur á kvöldin. Öll borgin liggur að fótum okkar. Ekkert mál er að skreppa hingað oft á dag til að hvíla lúin bein í rólegri hliðargötu, þangað sem hávaði umferðarinnar nær lítt.

Hótelið hefur 108 herbergi á nokkrum hæðum í nýlegu húsi við hlið Þjóðlistasafnsins. Anddyri, móttaka og setustofa eru afar viðkunnanleg, svo og ölstofa í hefðbundnum stíl. Starfsliðið er alúðlegt, svo sem hæfir litlu hóteli. Það veitir þjónustu allan sólarhringinn og man nöfn ýmissa íslenzkra vildargesta.

Herbergi nr. 409 snýr út að safninu. Það er snyrtilega búið samræmdum húsbúnaði, sem var örlítið byrjaður að þreytast, þykku teppi og aðlaðandi veggfóðri. Þetta hlýlega herbergi er þögul vin í skarkala heimsborgarinnar. Baðherbergið er fullnægjandi, en ekki flísalagt að fullu og hafði helzt til kraftlitla sturtu.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 85 án morgunverðar.

(Royal Trafalgar, Whitcomb Street, sími 930 4477, telex 298564, E2)

Drury Lane

Annað uppáhaldshótel okkar er Drury Lane, í norðurenda Covent Garden hverfis. Það liggur jafn vel og Royal Trafalgar við leikhúsum og veitingastofum, en heldur lakar við verzlunum. Það er glæsilegra og dýrara, en veitir Flugleiðafarþegum sérstök vildarkjör.

Þetta er nýtízkulegt háhýsi í götuþröngum hluta Covent Garden, aðeins hundrað metra frá höllinni, þar sem söngleikurinn Cats hefur verið sýndur. Það er innréttað hátt og lágt af sérstökum myndarbrag og er vel við haldið.

Setustofan með reyrhúsgögnum í anddyri er óvenju notaleg af hótelstofu að vera. Aðlaðandi gróður og grænir litir einkenna hana. Vingjarnlegt starfslið er til reiðu 24 stundir á dag.

Herbergi nr. 618 er dæmigerður fulltrúi hinna 130 herbergja hótelsins. Þar er sami reyrinn og grænleiti blærinn og í setustofunni. Allur búnaður í herbergi og á baði var í fullkomnu lagi, raunar eins og ónotaður væri. Og vandaðri verða herbergin ekki á dýrustu hótelum. Lítið heyrist af stórborgarhávaða, en útsýni er líka lítið. Hægt er að panta herbergi með góðu útsýni til City.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 84.

(Drury Lane, 10 Drury Lane, sími 836 6666, telex 8811359, E1)

Ladbroke Park Lane

Þriðja óskahótelið okkar er hið litla 71 herbergis Ladbroke Park Lane, sem kúrir yfirlætislaust en virðulega í húsasundi að baki Hilton-turnsins í suðurhorni Mayfair-hverfis. Það er vel í sveit sett til verzlunar, en heldur síður til skemmtanalífs í samanburði við fyrri hótelin tvö. Gamla vinin Shepherd Market er rétt á bak við hótelið.

Marmaragólf og þægilegir hægindastólar í anddyri gefa strax tóninn, ásamt alúðlegu starfsliði, sem veitir herbergisþjónustu allan sólarhringinn. Auðvelt er að fá leigubíl með því að ganga 200 metra að anddyri Hiltons.

Innréttingar á fremur litlu herbergi nr. 202 eru nýlegar og einkar heimilislegar, þótt ekki sé smíðin úr massífri furu beinlínis vönduð á íslenzkan mælikvarða. Fullflísað baðherbergi með marmaragólfi var einkar vel búið, nema hvað handklæðin voru ekki af nægilegri Ameríkustærð og reykglerið í speglinum var ekki nógu gott. Lítil truflun er af strjálli umferð um götusundið, sem liggur að hótelinu.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 120 að meginlands-morgunverði inniföldum.

(Ladbroke Park Lane, Stanhope Row, sími 493 7222, telex 291855, C3)

Berkeley

Bezta hótel heimsborgarinnar og hugsanlega Vesturlanda er Berkeley, þótt það sé tæpast eins dýrt og Dorchester og Claridges. Það er eina fína hótelið í borginni, sem er nýlega reist, árið 1972, raunar eitt síðasta lúxushótel Evrópu.

Strax á marmaragólfi anddyrisins fundum við, að þetta er annar heimur en úti fyrir. Það líkist raunar tæpast hóteli, því að mjúkmálir ungherrar í einkennisbúningi bankastjóra buðu okkur til sætis við forngripa-skrifborð, meðan gengið var frá formsatriðum.

Hér er síðasta vígi brezka aðalsins. Engir olíufurstar voru sjáanlegir og mjög fáir Bandaríkjamenn. Allir gestir gengu um í klæðskerasaumuðu og töluðu Oxford-ensku. Frábærlega háttprúðir starfsmenn mundu hafa lyft annarri augabrúninni, ef þeir hefðu séð bindislausan kraga eða myndavél á maga.

Anddyri og myndarleg setustofa eru klædd viðarþiljum og bera gulbrúna, stílhreina litatóna, svo og kristalskrónur í lofti. Barinn er á tveimur hæðum. Veitingasalirnir tveir eru í hópi sárafárra hótelsala í London, sem bjóða frambærilegan mat. Og uppi á þaki er snotur innisundlaug með gufubaði.

Herbergi nr. 329 hefur útsýni yfir í Hyde Park. Það er afar gott, stílhreint, stórt og notalegt. Þarna ríkir kyrrð, þótt þung umferð á Knightsbridge sé beint fyrir neðan. Baðherbergið er stórt, hlaðið flísum og marmara og gnægð stórhandklæða.

Berkeley er fremur lítið hótel, 152 herbergja. Það er nyrzt í Belgravia hverfi, þar sem það mætir hverfunum Knightsbridge og Mayfair, vel í sveit sett til innkaupa í fínum og dýrum búðum.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 220 án morgunverðar og er hið dýrasta í borginni.

(Berkeley, Wilton Place, sími 235 6000, telex 919252, B3)

Connaught

Virðulegasta hótel borgarinnar og sennilega hið næstbezta á eftir Berkeley er Connaught. Svo fínt er það, að meðmæli þarf til að komast inn, eins og raunar á Claridges. Munurinn er, að þar sjást Bandaríkjamennirnir í skræpufötum með myndavélar, en hér eru þeir í siðmenntuðum búningi.

Lúxusinn er yfirlætislaus, hæglátur og dálítið stirðlegur, en fullkomlega virkur. Aldrað og kurteist starfslið kann starf sitt út í fingurgómana. De Gaulle bjó hér á stríðsárunum, enda er dvölin hér eins og að vera gestur á vel reknum herragarði.

Setustofan skartar viktoríönskum gyllingum og gifsflúri yfir fornlegum húsbúnaði, sem ekki myndar samræmda heild. Notalegastur er barinn með eikarinnréttingu og veiðiminjagripum. Auk lyftanna liggur fallega massífur eikarstigi upp til herbergisganganna, sem njóta ferskra blómaskreytinga.

Herbergi nr. 223 er stórt og innréttað í gulum litum. Allur húsbúnaður er gamall og smekklegur. Speglar eru úti um allt. Baðherbergið er ekki nýtízkulegt, en fullkomlega búið tækjum og hlaðið risastórum handklæðum.

Með því að þrýsta á hnapp, fékkst þvegið og pressað af manni á skammri stund, svo ekki sé talað um hámark brezks unaðar, að fá í morgunmat í rúmið Kedgeree, bezta plokkfisk heimsins.

Ekki spillir fyrir Connaught, að það státar af einu af allra beztu veitingahúsum borgarinnar. Er þess sérstaklega getið í viðeigandi kafla þessarar bókar (bls. 28).

Hið litla, 90 herbergja hótel, er nokkurn veginn í miðju Mayfair, hverfi virðulegra verzlana, dýrra íbúða og lokaðra spilavíta. Og það tekur ekki einu sinni gild amerísk krítarkort.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 117 án morgunverðar, sem er gjafverð á svona virðulegu hóteli. Plokkfiskurinn kostaði GBP 4,50 á mann að auki.

(Connaught, Carlos Place, sími 499 7070, án telex, C2)

Stafford

Berkeley og Connaught eru betri en Dorchester og Claridges, sem eru betri en Ritz og Savoy. En bezta herbergið höfum við fengið á Stafford, sem er dálítið lægra í verði en fyrrgreind frægðarhótel, önnur en Connaught.

Herbergi nr. 605 er stórt og ríkulega búið húsgögnum, þar á meðal verðmætum forngripum. Þægilegt veggfóður fer notalega saman við innanstokksmuni. Skápar og töskupláss eru úr augsýn til trufla ekki þá stemmningu, að betra sé að liggja hér í leti en fara að gera eitthvað úti í bæ. Jafnvel baðherbergið er svo aðlaðandi, að það kallar á langdvalir.

Stafford er við enda mjórrar blindgötu í fína klúbbahverfinu St James´s. Þar er alger friður, aðeins steinsnar frá ys og þys St James´s Street og Piccadilly. Í sömu götu er jafn friðsælt og lítið Dukes-hótel, sem er heldur síðra, af því að herbergin þar eru minni.

Stafford rúmar 60 herbergi á sex hæðum ofan við jarðhæðina, sem hefur þægilega setustofu og notalegan bar, er opnast út í steinlagt blómaport. Hótelið er svo lítið, að það minnir á sveitasetur, þar sem þjónusta er á hverju strái.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 133 án morgunverðar.

(Stafford, St James´s Place, sími 493 0111, telex 28602, D3)

May Fair

Þeir, sem búa á May Fair, þurfa ekki nauðsynlega að fara úr húsi til að hafa ofan af fyrir sér, því að leikhús, bíó og næturklúbbur eru undir sama þaki. Enda er hótelið vinsælt meðal leikara og skemmtikrafta, sem stundum sitja hér á viktoríönskum barnum innan um fjólublátt pluss og skemmtilegar stungur frá þriðja tug aldarinnar. Anddyrið rúmar þægilega setustofu, marmarasúlur, áhrifamikinn krómhringstiga og glæsta kristalskrónu í lofti.

Eins manns herbergið nr. 664 á þessu 391 herbergis hóteli er notalegt og hlýlegt. Dökkur harðviður er í snyrtilegu samræmi við flauelsklæddan hægindastól í Regency-stíl, myndastyttulampa og tvo kringlótta snyrtispegla. Þessu fylgir fullkomlega búið og flísalagt baðherbergi.

May Fair er í sunnanverðu Mayfair hverfi, tæplega 200 metra frá Piccadilly og í aðeins 100 metra fjarlægð frá Langan´s Brasserie (bls. 28), þar sem fræga fólkið snæðir.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 150 án morgunverðar, hefur hækkað mjög að undanförnu.

(May Fair, Stratton Street, sími 629 7777, telex 262526, D2)

Selfridge

Í næsta verðflokki fyrir neðan koma helzt fjögur hótel til greina. Eitt er Selfridge, sem er aftan samnefndrar stórverzlunar við Oxford Street, svo að kaupaglaðir þurfa ekki að fara úr húsi í heimsborginni. Hótelið veitir velþegna hvíld eftir amstur búðaferða.

Ofan við skemmtilegt anddyrið eru almennir salir, svo sem sérdeilis notaleg setustofa með leðurstólum, sedrusvið og marmara, ennfremur bar með steypujárnsarni og loftbitum, sem minnir á fyrri tíma. Herbergin eru 298 talsins.

Hávaðinn frá Oxford Street heyrist ekki inn í herbergi nr. 509. Það er smekklega búið húsgögnum í hefðbundnum stíl, þar sem öllu er haganlega fyrir komið. Baðherbergið er nýtízkulegt og flísalagt í hólf og gólf.
Tveggja manna herbergi kostaði GBP 125 án morgunverðar.

(Selfridge, Orchard Street, sími 408 2080, telex 22361, C1)

Holiday Inn

Annað meðmælahótelið í þessum verðflokki er eitt Holiday Inn hótelanna, 217 herbergja turn, rétt að baki stórverzlunar Harrods í Knightsbridge. Það er mun betra en önnur hótel sömu keðju í London og eitt af sjaldgæfum dæmum um, að hótel alþjóðlegra hringja hafi hagstætt hlutfall verðs og gæða.

Þetta er eitt sárafárra hótela í miðborginni, sem býður upp á sundlaug. Hún er bæði undir þaki og beru lofti, eftir veðri hverju sinni. Með húsbúnaði og regnskógaplöntum er búið til suðurhafseyja-andrúmsloft við laugina og í veitingasalnum yfir henni.

Herbergi nr. 705 er rúmgott og bjart, með góðu útsýni. Húsbúnaður er hinn vandaðasti, svo og búnaður í baðherbergi, sem er þó í þrengsta lagi. Hér er kælibar, mun þægilegra fyrirbæri en misjafnlega hraðvirk herbergisþjónusta hinna dýrari hótela. Þetta eru Evrópumenn að byrja að læra af bandarísku hótelkeðjunum.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 135 án morgunverðar.

(Holiday Inn, Sloane Street, sími 235 4377, telex 919 111, B4)

Goring

Milli Buckingham Palace og Viktoríustöðvar er enn eitt lúxushótelið, en mun ódýrara en þau, sem nefnd voru fyrr í þessum kafla. Það er Goring, lítið og rólegt 100 herbergja hótel, sem státar af að hafa verið fyrst í heimi til að taka upp bað og miðstöðvarofn í hverju herbergi. Allt er hér tandurhreint og öllu vel við haldið.

Hótelið ber gamaldags virðuleikabrag, sem endurspeglast í kurteisu og þægilegu starfsliði. Rúmgóðar setustofur snúa út að friðsælum bakgarði. Rétt er að panta herbergi, sem snýr að garðinum, því að þar er kyrrð meiri en að framanverðu.

Herbergi nr. 116 er stórt og gott, með vönduðum húsbúnaði og stóru baðherbergi. Við héldum fyrst, að handlaugina vantaði, unz við tókum eftir, að hún sneri öfugt, inn í herbergið, og var þar í eins konar skáp. Stílhreinir pastellitir mynduðu gott samræmi í herberginu, a.m.k. meðan handlaugarskápurinn var lokaður.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 105 án morgunverðar.

(Goring, 15 Beeston Place, sími 834 8211, telex 919166, C4)

Rembrandt

Við ljúkum ferðinni milli dýru lúxushótelanna á Rembrandt, 190 herbergja viktoríönsku hóteli, andspænis Victoria & Albert Museum og vísindasöfnunum í South Kensington, svo og aðeins 500 metra frá Harrods og öðrum búðum Knightsbridge hverfis.

Hótelið hefur verið endurnýjað og ljómar á nýjan leik. Rúmgóðir salirnir niðri eru í hefðbundnum stíl, en stóru gestaherbergin hafa fengið á sig nútímasvip. Ráðlegt er að panta herbergi að aftanverðu, því að umferð á aðalgötu er þung að framanverðu.

Herbergi nr. 531 er rúmgott, stílhreint og notalegt, með stóru, fullflísuðu og snyrtilegu baðherbergi.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 110 án morgunverðar.

(Rembrandt, 11 Thurloe Place, sími 589 8100, telex 295828, A4)

Durrants

Beint að baki safnsins Wallace Collection, um 500 metrum norðan við Oxford Street, er Durrants í gömlu og fallegu húsi í Regency stíl. Það er hlaðið eikarþiljum, forngripum og gömlum málverkum, — lítur út eins og brezkur karlaklúbbur, svo sem maður ímyndar sér, að hann eigi að vera.

Hótelið er lítið, 104 herbergja, og býður hinar beztu móttökur. Það liggur vel við stórverzlunum Oxford Street, en síður við skemmtanalífi Soho og Covent Garden.

Herbergi nr. 311 er fremur lítið, en vel búið í nútímalegum stíl og hefur gott baðherbergi. Það er í hinum gamla hluta hótelsins. Herbergin í yngri hlutanum eru einfaldari og lakari.

Tveggja manna herbergi með baði kostaði GBP 95, að brezkum morgunverði inniföldum.

(Durrants, 26 George Street, sími 935 8131, telex 894919, C1)

Clifton-Ford

Örlitlu austar, einnig rétt norðan við Oxford Street, jafn vel sett og Durrants gagnvart verzlunum og heldur betur gagnvart kvöldlífinu, er Clifton-Ford, ágætt nútímahótel. Það býður farþegum Flugleiða sérstök vildarkjör, sem eiginlega er alls ekki hægt að hafna.

Þetta er 228 herbergja millistærðarhótel með rúmgóðu anddyri og aðlaðandi skjaldarmerkjabar. Eins og Durrants er það friðsælt, þótt það sé nálægt verzlunargötunum. Starfsliðið er einkar vingjarnlegt og hjálpsamt.

Herbergi nr. 525 er rúmgott og þægilega útbúið, með snyrtilega flísalögðu baðherbergi. Þetta er einkar viðkunnanlegur dvalarstaður ferðalanga í London, nútímalegt og stílhreint herbergi.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 125 að meginlandsmorgunverði inniföldum og aðeins GBP 90 fyrir Flugleiðafarþega, sem hljóta að setja hótelið á toppinn í samanburði verðs og gæða.

(Clifton-Ford, 47 Welbeck Street, sími 486 6600, telex 22569, C1)

Royal Angus

Næstum því við hliðina á óskahóteli okkar, Royal Trafalgar, sem getið var fremst í hótelkaflanum, eru tvö hótel, sem unnt er að mæla með. Það stafar einkum af, að þau deila hinni frábæru staðsetningu í þungamiðju þess, sem London hefur upp á að bjóða.

Annað er Royal Angus, rétt við Leicester Square. Það er virðulegt, lítið, 92 herbergja hótel, með aðlaðandi anddyri. Herbergin eru einföld og notaleg, búin síma og sjónvarpi, eins og önnur hótel, sem hér er getið, og sómasamlegu, en ekki aðlaðandi baðherbergi.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 80 án morgunverðar.

(Royal Angus, 39 Coventry Street, sími 930 4033, án telex, E2)

Pastoria

Hitt hótelið, einnig næstum því við Leicester Square, er Pastoria, enn minna og einfaldara, aðeins 54 herbergja. Þar er friðsælt, af því að bílaumferð í kring er lítil sem engin.

Herbergin eru lítil og einföld, en hafa þó sjónvarp og síma. Baðherbergin eru fullnægjandi, en ekki skemmtileg. Verðið er eitt hið lægsta, sem hægt er að hugsa sér á frambærilegu hóteli í sjálfu hjarta London.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 80, að meginlands-morgunverði inniföldum.

(Pastoria, St Martin´s Street, sími 930 8641, telex 25538, E2)

Lamb´s

Ef fólk vill dveljast viku eða lengri tíma í London og elda meira eða minna sjálft ofan í sig, er kjörið að taka á leigu svonefnt “service flat”, sem býður lítið eldhús til viðbótar við svefnherbergi og bað.

Einna skemmtilegustu smáíbúðirnar af því tagi eru Lamb´s við rólegt gróðurtorg í næsta nágrenni Rembrandt-hótels og Victoria & Albert Museum. Það er afar fallegt hús frá Viktoríutíma, enda svo verndað af húsfriðunarreglum, að þar má ekki setja upp skilti með nafni hótelsins.

Í anddyrinu og víða í herbergjum er Lúðvíks 15. húsbúnaður. Allt er í gömlum stíl, en ákaflega vel við haldið. Eldhús og baðherbergi hafa fullnægjandi búnað. Lyfta og gufubað eru á staðnum. Herbergisþjónusta er alla daga vikunnar.

Tveggja manna, eins herbergis smáíbúð kostaði GBP 40 á dag, að meginlands-morgunverði inniföldum, en lágmarks leigutími er ein vika.

(Lamb´s, 21 Egerton Gardens, sími 589 6297, telex 24224, A4)

64 Buckingham Gate

Annað skemmtilegt smáíbúðahótel, en gerólíkt hinu, er 64 Buckingham Gate í tignarlegum turni mitt á milli hallanna Buckingham og Westminster. Þar er allt sem nýtízkulegast, en frábærast er þó útsýnið yfir heimsborgina úr heljarstórum gluggum.

Niðri er mjög aðlaðandi anddyri með blómaskrúði. Snögg lyfta flutti okkur á svipstundu upp í dýrðina, þar sem meira að segja mátti finna uppþvottavélar og þurrkara í eldhúsum. Rétt er að geta þess við pöntun, í hvaða átt eða til hvaða staða maður vill hafa útsýni. Glæsilegastar og dýrastar eru fimm herbergja toppíbúðirnar með þriggja átta útsýni.

Tveggja manna, eins herbergis smáíbúð kostaði GBP 31 á dag án morgunverðar, en lágmarks leigutími er ein vika.

(64 Buckingham Gate, 64 Buckingham Gate, sími 222 6677, telex 8954926, D4)

Grosvenor

Brezku járnbrautirnar reka sæmileg og tiltölulega ódýr hótel á járnbrautarstöðvunum Victoria og Charing Cross, bæði virðuleg að utanverðu og nægilega nútímaleg inni í herbergjunum.

Hótelið á Viktoríustöð er Grosvenor, 356 herbergja kastali frá viktoríönskum tíma. Salirnir niðri eru mikilúðlegir eins og hótelið sjálft, með hvelfingum, gifsflúri, skrautlegum súlum og glæstum stiga.

Herbergi nr. 608 er tæpast nógu stórt, enda undir súð. Það hefur voldugt blómamynztur í ábreiðum og veggfóðri. Öll þægindi í herbergi og á baði eru í góðu lagi.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 67 án morgunverðar.

(Grosvenor, 101 Buckingham Palace Road, sími 834 9494, telex 916006, C/D4)

Charing Cross

Hitt járnbrautarhótelið er Charing Cross, nokkru dýrara og þægilegra, en þó einkum mun betur í sveit sett, næstum því við Trafalgar Square. Í sölunum niðri ríkir sama viktoríanska skartið og á Grosvenor, en herbergin uppi eru í mildum nútímastíl. Í hliðarbyggingu eru lélegri herbergi.

Herbergi nr. 348 er sæmilega stórt, vel búið og með fremur stóru baðherbergi og góðu skáparými. En það er fremur kuldalegt, a.m.k. fyrir þá, sem hyggja á nokkurra daga dvöl. Herbergisþjónusta hefur verið lögð niður.
Tveggja manna herbergi kostaði GBP 67 án morgunverðar.

(Charing Cross, Strand, sími 839 7282, telex 261101, E/F2)

Y

Nútímakastalinn Y kom okkur þægilega á óvart. Þetta KFUM-hótel var opnað 1976 og hefur að geyma meira en 600 herbergi, auk glæsilegrar sundlaugar og margra annarra íþróttakosta. Andrúmsloftið niðri er eins og í æskulýðsklúbbi, enda hæfir hótelið fremur ungu fólki en rosknu. Það er aðeins um 100 metrum norðan við Oxford Street, andspænis Soho og Covent Garden hverfum.

Herbergin hafa sömu þægindi og hótelin, sem getið hefur verið hér að framan, nema síma og herbergisþjónustu. Þau reyndust vera nútímaleg og afar hreinleg. Þetta er mjög frambærileg gisting fyrir lítið fé.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 65 án morgunverðar og aðeins GBP 47 fyrir Flugleiðafarþega.

(Y, 112 Great Russell Street, sími 637 1333, telex 261101, E1)

Willett House

Í hjarta Chelsea á rólegum stað í rúmlega 100 metra fjarlægð frá Sloane Square er lítið, 17 herbergja hótel í viktoríönsku húsi, þar sem Nunez-hjónin ráða ríkjum, afar vingjarnlegt fólk. Sum herbergin eru með baðherbergi og öll með sjónvarpi, en ekki síma. Þau eru sæmilega innréttuð og mjög hreinleg.

Tveggja manna herbergi með baði kostaði GBP 50, að enskum morgunverði inniföldum.

(Willett House, 32 Sloane Gardens, sími 730 0634, án telex, B5)

Culford House

Annað vingjarnlegt, 21 herbergis smáhótel í nágrenninu, einnig aðeins rúmlega 100 metra frá Sloane Square, er Culford House, í næstu hliðargötu við tízkubrautina King´s Road. Það er líka í húsi frá viktoríönskum tíma, en húsbúnaður í herbergjum er nýtízkulegur. Herbergin eru rúmgóð og sum með baðherbergi. Öll eru þau með sjónvarpi og síma. Lítil umferð er um götuna fyrir framan.

Tveggja manna herbergi með baði kostaði GBP 25, að morgunverði inniföldum, eða jafnvel minna, “ef um semst” og hótelið er ekki fullt.

(Culford House, 9 Culford Gardens, sími 581 3255, án telex, B5)

Merryfield

Við erum nú komin niður i GBP 25 botninn á framboði miðborgarinnar á snyrtilegum smáhótelum, sem bjóða einkabaðherbergi og sjónvarp. Við megum þó til með að bæta einu við, þótt það hafi ekki sjónvarp í herbergjunum, en það má fá lánað.

Þetta er átta herbergja hótelið Merryfield í tíu mínútna göngufjarlægð norður frá Marble Arch, vesturenda Oxford Street. Þar ræður ríkjum hin indæla frú O´Brien, sem lætur sér annt um gesti sína. Herbergin eru lítil, en notaleg. Og baðherbergin, sem líka eru lítil, eru í fullkomnu lagi.

Þetta er sérlega hreinlegt hótel. Og munið að panta tímanlega.
Tveggja manna herbergi með baði kostaði GBP 25 með morgunverði.

(Merryfield, 42 York Street, sími 935 8326, án telex, B1)

1983 og 1988

© Jónas Kristjánsson