Kaupmannahöfn skemmtun

Ferðir

Tivoli

Vorið er talið komið til Kaupmannahafnar, þegar hlið Tivoli eru opnuð 1. maí ár hvert. Þá flykkjast Danir og ferðamenn til að skemmta sér í þessum garði, sem tæpast á sinn líka í heiminum að fjölbreytni og hinu sérstaka danska fyrirbæri, sem kallast “hygge”.

Ekkert er líklegra til að dreifa streittu og eyða döpru geði en einmitt Tivoli. Staðurinn er svo magnaður áreynslulausri, danskri glaðværð, að hann ber höfuð og herðar yfir nafna sína og Disneylönd í öðrum löndum. Og hann er enn danskur, þótt ferðamenn setji líka svip á hann.

Frá 1843 hefur þessi merki skemmtigarður verið í hjartastað Kaupmannahafnar, ánægjulegur staður hvíldar og tilbreytingar, aðeins steinsnar frá umferðarþunga miðborgarinnar. Hér göngum við úr raunveruleikanum inn í furðulegan og fallegan ævintýraheim.

Við sjáum ímynd fjarlægra landa í hvolfþökum, minarettum og kínaþökum. Við verðum börn í annað sinn í þessum fáránlega samsetningi ólíklegustu hluta. Við skreppum inn í sjálft ímyndunaraflið.

Tivoli er líka eins konar lýðræði, þar sem háir og lágir, ungir og gamlir skemmta sér hver við annars hlið. Þeir eru allir jafnir, allir kumpánlegir, jafnt sendiherrann sem öskukarlinn.

Tónlistin er mikilvægur þáttur Tivolis. Miðpunktur hennar er konserthöllin, þar sem sinfóníuhljómsveit staðarins leikur. Þar koma líka fram heimsfrægir söngvarar og hljóðfæraleikarar til að gleðja gesti. Og svo leika hljómsveitir á palli á tveimur öðrum stöðum í garðinum.

Páfuglsleikhúsið hefur verið sérgrein Tivolis í heila öld. Þar er leikið án tals eftir feneyskum reglum frá endurreisnartímanum. Við sjáum Harlekin, Kólumbínu, Kassandra og Pjerrot sýna hinn hefðbundna látbragðsleik, sem yfirleitt er ekki hægt að sjá annars staðar.

Í Tivolisveitinni eru 109 drengir, 9-16 ára. Þessi sveit, sem er jafngömul garðinum, kemur fram ýmist marsérandi eða á sviði á laugardögum, sunnudögum og helgidögum, leikandi á alls kyns hljóðfæri. Út um heim er þessi sveit frægasti þáttur Tivolis.

Í vaxmyndasafninu sjáum við Karl Bretaprins og Karl Gústaf Svíakonung í boði hjá Margréti drottningu, Gorbatsjov og Reagan á fundi, Hemingway og Shakespeare í bókasafninu og margs konar persónur úr ævintýrum Grimmsbræðra og H. C. Andersen.

Tivoli hefur margar hliðar. Við getum setið í kyrrð og ró að morgni við lygnan vatnsbakkann. Við getum prófað hin fjölmörgu leiktæki síðdegis. Og að kvöldi getum við iðkað fimleika á diskóteki eða horft á flugeldasýningu.
Tivoli er opnað 10 á morgnana. Þá koma barnapíurnar og skilja börnin eftir á gæzluvellinum. Þá koma líka rosknu eftirlaunakonurnar, sem hafa keypt sér ársmiða að garðinum, til að skoða blómin og hvíla sig á bekkjunum. Í hádeginu koma jafnvel kaupsýslumenn til að gera út um viðskipti undir borðum.

Straumþunginn eykst, þegar líður á daginn og fólk losnar úr vinnu. Barnatækin eru sett í gang upp úr 11:30. Eftir 14:30 eru skemmtitækin stanzlaust í gangi, rússíbani, parísarhjól, speglasalur, draugagöng, spilavélar og allt, sem mönnum hefur dottið í hug að smíða af slíku tagi.

Barnaleikhúsið Valmúinn hefur sýningar 12:30, 13:30 og 14:30 laugardaga og sunnudaga, og 2. júlí-15. október einnig aðra daga, nema þriðjudaga.

Tivolisveitin leikur á útisviðinu laugardaga 15:15 og marsérar um garðinn fimmtudaga 16:45 og laugardaga og sunnudaga 18:30 og 20:30.

Útitónleikar hefjast í Promenade-Pavilionen um 16 og eru með hléum fram til miðnættis. Fjöllistamenn sýna á Plænen 19:15 alla daga nema mánudaga, og einnig 17 laugardaga og sunnudaga. Leiksýningar i Tivoli-Revue eru yfirleitt 19:45 og 21:45.

Fyrsti konsert kvöldsins hjá sinfóníuhljómsveitinni í Konserthöllinni er venjulega 19:30 og hinn síðasti 21. Inn á milli koma þar fram þekktir listamenn úr öllum heimshornum, kannski Ashkenazy, Oscar Peterson, The Mills Brothers eða Victor Borge.

Látbragðsleiksýning er í Páfuglsleikhúsinu virka daga 19:45. Á sama sviði er balletsýning virka daga 22.

Um 19 fara veitingahúsin, sem eru 25 að tölu, að fyllast. Og 20 hefst dansinn á Dansette og jazzinn á Slukefter.

Fjörið magnast í Tivoli á kvöldin, þegar skyggja fer. 110.000 marglitir lampar og ljós í gosbrunnum og skrúði 160.000 blóma setja svip á garðinn. Og þegar 40.000. gestur dagsins er kominn, lýkur hátíðinni með flugeldasýningu 23:45 miðvikudaga og laugardaga, svo og föstudaga eftir 20. júní, og sunnudaga 23:15.

Aðgangur að Tivoli kostaði 6 krónur. 5-12 ára börn greiða hálft gjald. Verulegur hluti skemmtiatriðanna eru ókeypis og önnur við vægu verði. Hins vegar er selt í leiktækin og kostaði það 6 eða 12 krónur. Sérstakur Tur-Pas, sem veitir ótakmarkaðan aðgang, hversu oft sem vill, að öllum helztu 25 leiktækjunum, kostaði 88 krónur.

Ástæðulaust er að skipuleggja nákvæmlega gönguferð um Tivoli. Miklu skemmtilegra er að villast þar um, tapa áttum og láta sig berast með glaðværum straumnum, hvert sem verða vill. Hér verður þó bent á hringferð um garðinn til að ná yfirsýn.

Við göngum inn um aðaldyrnar, sem snúa út að Vesterbrogade. Okkur á hægri hönd er fyrst upplýsingastofa og póstkortasala og síðan barnaleiksviðið Valmuen. Við göngum beint af augum fram hjá Promenade-útihljómpallinum á hægri hönd og útisviðinu Plænen til vinstri.

Andspænis Plænen er veitingastofan Balkonen. Þar er tilvalið að fá sér langdreginn kvöldverð og geta um leið fylgzt með því, sem fram fer á Plænen, látum fjöllistamanna og flugeldasýningu, svo og þrammi tónlistardrengja Tivolisveitarinnar.

Við förum hægra megin við gosbrunnasvæðið og nálgumst leiktækin, þar sem frægastur og vinsælastur er rússíbaninn og nýstárleg Óðins-hraðlestin. Hér er líka parísarhjól og rúmlega 20 önnur leiktæki.

Við göngum milli leiktækja og spilakassa framhjá danshúsinu Dansette og förum bak við Konserthöllina, framhjá Kínverska turninum og speglasalnum. Við göngum rangsælis eftir vatnsbakkanum, þar sem er miðja vega hin vinsæla Færgekro með rómantísku útsýni að kvöldlagi.

Við göngum áfram kringum vatnið, framhjá gæzluvelli litlu barnanna að höll H. C. Andersen, sem er ein nýjasta viðbótin við garðinn. Þar inni er vaxmyndasafnið.

Við höldum svo áfram kringum vatnið gegnum blómagarðinn alla leið að Harmonia-Pavilionen, þar sem við beygjum til hægri og förum framhjá Tivolileikhúsinu að veitingahúsinu Gröften, sem er líklega glaðlegasta matstofa garðsins og sú danskasta.

Að lokum höldum við framhjá Páfuglsleikhúsinu og erum aftur komin að innganginum við Vesterbrogade. Við höfum kynnzt andliti Kaupmannahafnar og erum reiðubúin að kynnast öðrum hliðum hinnar hugnæmu borgar við sundið. En fyrst og fremst erum við reiðubúin að koma aftur í Tivoli, draumagarð barna á öllum aldri, þar á meðal okkar.

Circus Benneweis

Circus Benneweis er mikilvægur þáttur aðdráttarafls Kaupmannahafnar. Sirkushúsið frá 1887, hundrað ára gamalt, er í hjarta borgarinnar, í næsta nágrenni Tivoli. Þar sér um fjörið fimmta kynslóð elztu sirkusfjölskyldu Evrópu, Benneweis fjölskyldan.

Frá 1. apríl til októberloka ár hvert er boðið upp á hálfs þriðja tíma dagskrá á degi hverjum og tvisvar á laugardögum og sunnudögum. Yfir vetrarmánuðina bregður sirkusinn svo undir sig betri fætinum og heimsækir nálæg lönd.

Fasta uppistaðan í sýningum sirkusins eru dýrin, sem Benneweis fjölskyldan hefur þjálfað. Diana Benneweis sýnir hvíta, arabiska gæðinga, sem kunna ýmsar listir. Miller Benneweis sýnir fíla, sem ganga yfir og leggjast á konu hans, Bettinu, án þess að gera henni mein.

Til viðbótar eru svo á vori hverju fengnir nýir fjöllistamenn, svo sem trúðar, línudansarar, loftfimleikafólk, kraftakarlar, töframenn og jonglarar. Þegar við síðast heimsóttum Benneweis, voru gestalistamennirnir allir frá rússneska ríkissirkusnum í Moskvu.

Fyrst skal frægan telja trúð trúðanna, sólskinstrúðinn Oleg Popov. Hann kom jafnan fram milli atriða og lét okkur veltast um af hlátri, svo sem er hann lék sér við sólargeisla og endaði með því að pakka honum saman og stinga niður í körfu.

Annar ótrúlegur listamaður var jonglarinn Evgeni Biljauer, sem hafði fleiri kúlur á lofti en við höfum haft spurnir af annars staðar. Ennfremur kraftakarlinn Valeri Gurjev, sem greip þung fallstykki með hálsinum. Og Schemschur hópurinn, sem sýndi allt öðru vísi fimleika en sirkusgestir eru vanir að sjá.

Margt fleira var að sjá á þessari óvinjafnanlegu kvöldstund hjá Benneweis, konu rokkandi á línu, hund skjögrandi af ölvun, sæljón dansandi á línu og hunda stökkvandi tvöföld heljarstökk. Allt fór þetta fram við örugga kynningu Nelly Jane Benneweis.

Í Circus Benneweis veinuðu allir af hlátri og tóku andköf af skelfingu, börn og gamalmenni -og við sjálf. (Circus Benneweis, Jernbanegade 8, sími 14 59 92, A4)

Dýragarðurinn

Með góðri samvizku eyðum við hálfum degi í dýragarði Kaupmannahafnar og helzt heilum, ef börnin eru með í för. Hann var stofnaður 1859 og er einn af elztu dýragörðum heims. Engin ellimörk eru þó á honum, enda er hann í stöðugri endurnýjun.

Í þessum dýragarði hefur tekizt betur en víðast annars staðar að láta dýrunum líða vel við aðstæður, sem þeim eru ekki náttúrulegar. Þetta er líklega eini dýragarðurinn, þar sem tekizt hefur að fá indverska fíla, hvíta nashyrninga og Congo-páfugla til að eignast afkvæmi.

Þetta er þeim mun athyglisverðara fyrir þá sök, að garðurinn er inni í borginni og hefur takmarkað rými. En ráðamenn og náttúrufræðingar staðarins hafa um langan aldur lagt sérstaka áherzlu á að reyna að láta dýrunum líða vel, þrátt fyrir aðstæður.

Þegar við komum síðast í dýragarðinn, hafði fílskálfurinn Maja mesta aðdráttaraflið fyrir gesti, sem voru furðumargir á köldum, en björtum vordegi. Garðurinn er opinn allt árið, en skemmtilegast er að heimsækja hann, þegar gróðurinn er í blóma.

Garðurinn státar af 500 tegundum dýra, sem sum hver eru sjaldséð í dýragörðum. Má þar nefna bengalska tígrisdýrið, moskusuxann og Congo-páfuglinn. Svo eru þar auðvitað ljón og pardusdýr, úlfaldar og zebrahestar, nashyrningar og flóðhestar, gíraffar og strútar, birnir og antílópur, svo sitthvað vinsælt sé nefnt.

Bezt er að haga göngunni um garðinn eftir fóðrunartíma dýranna, því að þá eru þau líflegust. Séu börnin með, verður að ætla þeim góðan tíma í barnagarðinum, þar sem þau fá að komast í snertingu við dýrin og leika sér meðal þeirra.

(Zoologisk Have, Roskildevej/Söndre Fasanvej, strætisvagnar nr. 28 og 41, í átt frá A5)

Strikið

Mesta fjörið í Kaupmannahöfn er ef til vill á Strikinu, hinum eina og sanna ás Kaupmannahafnar, milli höfuðtorganna Kóngsins Nýjatorgs og Ráðhústorgs. Þessi mannmarga göngugata er ein hin lengsta í heimi af slíku tagi og hefur orðið fyrirmynd margra annarra.

Í straumþunga mannlífsins á Strikinu ægir saman hraðstígum kaupsýslumönnum, virðulegum fyrirstríðsfrúm með hatta, öldruðum hippum með grátt í vöngum, bláhærðum ræflarokkurum og venjulegu fólki á öllum aldri. Og allt virðist þetta eiga vel saman.

Við gengum fram á fjörugan jazz hljómsveitar á horni Brimarhólms, gítarsöng útlendra hippa í dyrum lokaðs banka í Austurgötu, miðadreifingu kjarnorkuvina við Kjötmangarann, mótmælagöngu grunnskólabarna á Hábrú, trúarbragðafræðslu mormóna á Amákurtorgi, söng kennaranema á Vimmelskaftet gegn niðurskurði skólafjár og skopleik félaga þeirra á Nýjatorgi af sama tilefni.

Strikið er í rauninni margar götur, sem liggja misbreiðar í sveigjum milli torganna stóru. Austast er Östergade, síðan kemur Amagertorv, Vimmelskaftet, Nygade, Gammeltorv og vestast Frederiksberggade. Öll leiðin er um stundarfjórðungs rölt, ef uppákomur og verzlun tefja ekki.

Þungamiðja Striksins er Amákurtorg. Þar og við Austurgötu eru vöruhúsin og fínustu búðirnar, enda er aðeins steinsnar til Kóngsins Nýjatorgs, sem er miklu fínna en Ráðhústorgið. Þarna er í búðum yfirleitt ekki boðið upp á ódýrustu hlutina, en hins vegar margt af hinum beztu.

Lítið er um gangstéttarkaffihús á Strikinu. Helzt er sætis von á Gamlatorgi eða Amákurtorgi til að fá sér kaffibolla og líta yfir fjölbreytilegt mannhafið. En látið ekki glepjast inn í pizzeríur og börgera Striksins, heldur leitið inn í hliðargöturnar, þar sem almennilegan mat er að fá.

Sem betur fer er klámið horfið af Strikinu. Aðeins eina einstæðingslega sjoppu sáum við í hliðargötu. Að þessari breytingu er veruleg landhreinsun. Gerir þá minna til, þótt einstaka skyndifæðustaðir komi í staðinn. Að öllu samanlögðu gegnir Strikið hlutverki sínu af engu minna fjöri en áður. Þar er sem fyrr slagæð Kaupmannahafnar.

Kóngsins Nýjatorg

Hvítur (Hviids Vinstue) er elzti, en ekki að sama skapi virðulegasti fulltrúi gamla kráarlífsins við Kóngsins Nýjatorg. Þar er allt við þau ummerki, sem við ímyndum okkur, að hafi verið á síðustu öld, hvert smáherbergið og holan inn af annarri í heilan hring.

Lágt er til lofts og skuggsýnt og gestir þaulsætnir við bjór og tóbaksreyk. En hér er líka hægt að fá gott og ódýrt vín hússins, sem fáir notfæra sér. Upp úr hádeginu var strjált setið af kófdrukknum iðjuleysingjum, en við vinnulok fylltist allt af glaðværu fólki, sem hér mælir sér mót, áður en farið er heim eða út á lífið.

Aðeins innar í Litlu Kóngsinsgötu er smáholan Skinnbrókin (Skindbuksen), þar sem sumir störðu nokkuð stjarfir ofan í ölglasið sitt, þegar leið á kvöldið. Þar er botn virðingarstigans í kráarlífi torgsins.

Efsta þrep þess virðingarstiga er auðvitað langa gangstéttarkaffihúsið á Angleterre hóteli, þar sem fína fólkið virti fyrir sér pupulinn, sem gekk hjá með hendur í vösum. Þar hugsuðu margir, að heimur versnandi færi.

Hér til hliðar við Angleterre er veitingastofan Egoisten, hreinleg og falleg stofa með miðlungs verðlagi og stílar meira á matargesti en öldrykkjumenn. Öllu frægari og um leið ódýrari og ekki síður þægilegur er hinn ítalski Mjóni, sem lengi hefur heitið Stephan á Porta, andspænis Hvíti við Litlu Kóngsinsgötu.

Handan torgsins er svo Brönnum, milli Konunglega leikhússins og Listaakademíunnar, hin fína listamannakrá Kaupmannahafnar með ölstofu úti við dyr og veitingasal hið innra. Þjónustan er léleg og maturinn vondur, en gott er að mæla sér mót á barnum.

Eftir að hafa rölt hringinn, var greinilegt, að segulmagnið kom frá hinu gamla og trausta Hviids Vinstue. Þar stungum við okkur inn á nýjan leik til að ljúka kvöldinu.

Grábræðratorg

Grábræðratorg er griðastaður menntamanna í Latínuhverfi Kaupmannahafnar. Þar kemur unga fólkið saman, laust við umferðarhávaða bílagatna og straumþunga gangandi fólks á Strikinu. Þar eru margar krár og veitingahús með borðum og sólhlífum úti á stétt.

Torgið er heimur út af fyrir sig, ekki sízt þegar þar eru haldnir hljómleikar undir beru lofti. Við sitjum við gosbrunninn, á bekkjum, við eitthvert borðið eða stöndum í hnapp úti á miðju torgi. Hér þekkjast menn og kasta kveðju hver á annan.

Hér eru hávaðasamar holur á borð við bjórkrána Frimands Quarteer á númer 12 og vínkrána Oxe´s Vinkælder á númer 11, þar sem er hver rangalinn inn af öðrum, með skotum og hornum hér og þar. Eða þá tiltölulega friðsamur Sporvejen á númer 17, sem er innréttaður eins og sporvagn.

Hér er líka matstofan Bøf og Ost í kjallaranum á Grábræðratorgi 13. Þar fengum við fremur ódýran mat og sæmilegasta ost í skemmtilegum kjallara, sem einu sinni var hluti af klaustri. Sumt af gripunum, sem fundizt hafa við fornleifagröft á þessum stað, eru til sýnis í skotum í veggjum. Húsið sjálft er frá 1735, en hluti kjallarans er frá sextándu öld.

Gråbrødretorv 14 er snyrtilegt veitingahús við hlið Frimands Quarteer. Þar er verðlagið komið upp í milliverð og kjósa þá fleiri námsmenn að fara fyrir svipað í salatborðið á Peder Oxe, sem er uppi yfir kránum Oxe´s Vinkælder og Bøf og Ost á númer 11 og 13. Þetta var góður matstaður, sem hefur sett niður á síðustu árum.

Í Kaupmannahöfn látum við aldrei hjá líða að skreppa steinsnar frá Strikinu og fá okkur glas af víni eða öli við þetta notalega torg brattra húsa frá 18. öld. Það er góð hvíld frá niði umferðar gangandi og akandi fólks.

Vin & Ølgod

Mikið og fjörugt húllumhæ er jafnan á Vin & Ølgod, ódýrri 400 gesta knæpu, þar sem menn standa á bekkjum og borðum og syngja gamalkunn ljúflingslög á borð við “Í Hlíðarendakoti”. Þar sáum við aðeins einn gest, sem ekki ljómaði af ánægju. En hann var ekkert sérstaklega fýlulegur heldur.

Þarna skemmta sér bæði Danir og ferðamenn með aðstoð hljómsveitar og skemmtistjóra. Staðurinn er of gamaldags fyrir táninga, en þar fyrir utan eru gestir á öllum aldri. Ölið er kneifað ótæpilega úr lítrakrúsum og sumir fá sér smørrebrød með.

Vin & Ølgod minnir dálítið á bjórhallir Bæjaralands. Hér er þó ekki lúðraþytur eða stapp, hí og hopp, heldur mildari tónlist og söngvar, sem allir þekkja eða geta fylgzt með í söngbókum, sem eru við hvers manns disk.

Viljum við beint í fjörið, hafandi borgað lágan aðgangseyri fyrir karlmanninn og 0 krónur fyrir konuna, er ráð að fara í aðalsalinn, setjast þar við langborðin og deila geði við nágrannann, veifa fánum, dansa vals og rúmbu og taka saman höndum og róa.

Viljum við láta fara minna fyrir okkur, getum við pantað borð uppi á English Pub, þar sem útsýni er ágætt yfir gleðskapinn. Einnig má nota hina portúgölsku Bistro, þaðan sem líka er hægt að horfa yfir salinn
Viljum við kneyfa ölið sem fastast, eru langborð niðri í Rådhuskælderen, þar sem menn skemmta sér undir sjö alda gömlum steinbogum og fangahringjum., svona nánast sem í helli væri. Hér er semsagt eitthvað fyrir alla og það í ekta dönskum stíl.

(Vin & Ølgod, Skindergade 45, sími 13 26 25, opið 20-02, lokað sunnudaga, B3)

Önnur skemmtun

Leikhús, ópera og ballet eru háu stigi í Kaupmannahöfn. Þeim, sem vilja líta inn á slíkum stöðum, bendum við á bæklinginn Copenhagen This Week, sem kemur út mánaðarlega, eða dönsku dagblöðin. Í blöðunum er líka sagt frá bíómyndum, sem koma og fara.

Diskótek og næturklúbbar eru hverful fyrirbæri. Ef við vildum hér mæla með einum umfram aðra, væri eins víst, að hann yrði horfinn, þegar lesandinn vildi notfæra sér ráðgjöfina. Slíka staði verður áhugafólk að þefa uppi, þegar það kemur til Kaupmannahafnar. Jazz er sennilegra stöðuglyndari á Montmartre í Nørregade 41 og á De Tre Musketerer á Nikolaj Plads 25.

Skemmtigarður í stíl við Tivoli, en eldri, er Bakken í Klampenborg, sem er úthverfi borgarinnar. Margir Danir taka hann fram yfir Tivoli, enda er rýmið meira. En Tivoli hentar betur ferðamönnum, sem hafa knappan tíma. Hafi menn tímann, er Bakken til reiðu frá 1. apríl ár hvert.

1981, 1989
© Jónas Kristjánsson