Kaupmannahöfn inngangur

Ferðir

LEIÐSÖGURIT

FJÖLVA

JÓNAS KRISTJÁNSSON

ritstjóri

KÓNGSINS

KAUPMANNAHÖFN

Leiðsögurit fyrir

íslenzka ferðamenn

Ljósmyndir:

KRISTÍN HALLDÓRSDÓTTIR

Fjölvaútgáfa

Bókarstefna

Við höfum lesið mikinn fjölda leiðsögubóka fyrir ferðamenn og okkur fundizt þær að ýmsu leyti takmarkaðar.

Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver nokkrum hluta tímans á hóteli og í veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók.

Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verzlanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur. Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda muni koma heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.

Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundizt myndirnar falsaðar. Innanhúss eru þær stúdíoteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins.

Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinga.

Jónas Kristjánsson og Kristín Halldórsdóttir

Litla heimsborgin

Ferðamenn úr öllum heimshornum hafa borið Kaupmannahöfn þá sögu, að hvergi sé betra að vera gestur en einmitt þar. Hin lífsglaða borg er ein hin vingjarnlegasta í heimi, opinská og alþjóðleg, án þess að hafa glatað dönskum siðum, hefðum og menningu.

Danir hafa tamið sér áhyggjulausa framkomu heimsmanna, stríðnislega gamansemi prakkara og listræna dirfsku handverksmanna. Þeir hafa opnað upp á gátt glugga sína til umheimsins og eru þó engum líkir.

Auðlindir eiga þeir fáar, aðrar en hugvitið, sem bezt kemur fram í heimsfrægum listmunum. Allt verður að gersemi í höndum þeirra, gler, leir og viður, silfur, stál og skinn. Og hvergi er betra að sjá þetta en einmitt í Kaupmannahöfn.

Ekkert er þar stærra eða í sjálfu sér merkilegra en í hvaða annarri heimsborg. Til eru stærri kastalar, söfn og fornminjar, garðar og verzlanir. En slíkir áningastaðir ferðamanna hafa sérstakt, danskt aðdráttarafl í Kaupmannahöfn.

Og svo er það lífið sjálft, sem dregur ferðamenn til borgarinnar, er endurspeglar nútímann, blíðan og stríðan í senn, allt frá vonleysi fíkniefnaneytandans upp í hófsama lífslyst. Í þessari bók munum við einkum staðnæmast við hið síðarnefnda.

Hér flýtur bjór og vín með góðum mat. Hér er samvera og einvera á kaffihúsum og krám, í göngugötum og görðum. Hér er notalegt að vera, því að gestir að utan eru yfirleitt fljótir að finna hinn danska takt.

Almennar upplýsingar

Bankar

Bankar eru opnir 9:30-16 mánudaga-föstudaga, -18 fimmtudaga. Laugardaga og sunnudaga er opið á aðaljárnbrautarstöðinni.

Barnagæzla

Hringdu í (02) 45 90 45 virka daga 7-12 og 15-20, laugardaga 12-19 og sunnudaga 17-19 til að fá barnagæzlu hjá samtökum stúdenta, Minerva.

Copenhagen Card

Copenhagen Card fæst á járnbrautarstöðvum, hótelum og ferðaskrifstofum. Það veitir aðgang að strætisvögnum, ótal söfnum og Tivoli. Eins dags kort kostar DKK 70, þriggja daga DKK 150. Börn greiða hálft gjald.

Ferðir

Upplýsingastofa danska ferðamálaráðsins er við H.C.Andersens Boulevard 22a, sími 11 13 25, opin mánudaga-föstudaga 9-18 á sumrin og 9-17 á veturna, laugardaga 9-12.

Fíkniefni

Ólöglegt er að bera fíkniefni á sér.

Flug

Flugvallarrútan fer frá aðaljárnbrautarstöðinni á 15-20 mín. fresti og er hálftíma á leiðinni til Kastrup. Í síma 58 58 11 eru gefnar upplýsingar um komu- og brottfarartíma flugvéla.

Flugleiðir

Söluskrifstofa Flugleiða er við Vester Farimagsgade 1, sími 12 33 88.

Framköllun

Víða í miðbænum er unnt að fá framkallað og kóperað á hálftíma.

Gisting

Kiosk P á aðaljárnbrautarstöðinni er opinn 9-24 alla daga á sumrin, -17 á veturna og útvegar húsnæðislausu ferðafólki gistingu.

Leigubíll

Leigubíla má panta í símum 35 35 35, 35 14 20 og 34 32 32, en venjulega er kallað í þá af gangstéttinni. Ljós logar á þakmerki lausra leigubíla.

Lyfjabúð

Steno Apotek við Vesterbrogade 6c, sími 14 82 66, er opin allan sólarhringinn.

Læknir

Hringdu í 0041 til að kalla í lækni á kvöldin, um nætur og helgar.

Löggæzla

Hringdu í neyðarsímann 000.

Peningar

Plastkort eru almennt notuð í ferðamannaþjónustu.

Póstur

Aðalpósthúsið við Tietgensgade 37 er opið 9-19 mánudaga-föstudaga og 9-13 laugardaga.

Reiðhjól

Reiðhjól eru til leigu í Köbenhavn Cyklebørs & Velonia, Gothersgade 157-159, sími 14 07 17.

Samgöngur

Strætisvagnar og neðanjarðarlestir ganga 5-24:30 mánudaga-laugardaga, 6-24:30 sunnudaga. Nokkrir vagnar ganga til 2:30.

Sendiráð

Sendiráð Íslands er við Dantes Plads 3, opið 9:30-16 mánudaga-föstudaga, símar 15 96 04 og 15 96 75.

Sími

Almenningssímar eru víða. Svæðisnúmer miðborgarinnar er 1. Til Íslands er númerið 009 354. Athugaðu, að mun ódýrara er að hringja úr almenningssímum en frá hótelherbergjum. Notaðu alltaf tvo 25-eyringa fyrst, þótt þú hringir til útlanda, því að fyrstu tvær myntirnar fást ekki til baka, ef númerið er á tali. Láttu síðan krónurnar í, þegar þú ert búinn að fá samband.

Sjúkrabíll

Hringdu í neyðarsímann 000.

Sjúkrahús

Sjúkrahús miðborgarinnar er Kommunehospitalet i Øster Farimagsgade, sími 15 85 00.

Skemmtun

Upplýsingar um skemmtana- og menningarlífið fást í mánaðarritinu Copenhagen This Week

Slökkvilið

Hringdu í neyðarsímann 000.

Tannlæknir

Mættu í eigin persónu á Oslo Plads 14 alla daga 20-22, einnig 10-12 laugardaga og sunnudaga.

Vatn

Kranavatn er fullkomlega drykkjarhæft, en margir nota vatn af flöskum til öryggis.

Verðlag

Verðlag hér í bókinni er frá vori 1987. Þeir, sem síðar nota bókina, ættu að reikna með um 7% verðbólgu á ári í Danmörku.

Verzlun

Verzlanir eru yfirleitt opnar mánudaga-fimmtudaga 9-17:30, föstudaga 9-19/20 og laugardaga 9-12/14. Vörumarkaðurinn á aðaljárnbrautarstöðinni er opinn daglega 8-24. Útlendingar geta oft fengið 22% virðisaukaskattinn endurgreiddan.

Þjórfé

Þjórfé er innifalið í reikningum hótela og veitingahúsa og á gjaldmælum leigubíla, en sumir viðskiptavinir slétta tölurnar upp á við.

1981, 1989

© Jónas Kristjánsson