Amsterdam útrásir

Ferðir

Við erum nú orðin svo kunnug Amsterdam, að við höfum einn eða tvo daga aflögu til að kynnast nálægum plássum. Auðvitað getum við tekið þátt í hópferðum frá borginni og séð flest það, sem hér verður lýst. En bílaleigubíll getur líka verið þægilegur, því að þá erum við ekki bundin sérstakri tímaáætlun og getum hagað ferðum okkar að eigin vild.

Hér verður lýst tveimur slíkum dagsferðum. Önnur ferðin er til norðurs með viðkomu í Alkmaar, Zaanse Schans, Marken og Volendam. Hin er til suðurs með viðkomu í Aalsmeer, Keukenhof, Delft, Haag og Madurodam.

Þeir, sem vilja hafa hæga yfirferð, geta skipt þessum ferðum. Ekkert mál er að skreppa í náttstað til Amsterdam, því að staðirnir eru aðeins í eins til þriggja stundarfjórðunga fjarlægð.

Aalsmeer

Við tökum A4 suður úr borginni, förum framhjá flugvellinum Schiphol og beygjum skömmu síðar afleggjara til Aalsmeer. Það var fyrrum fiskibær, en er nú aðsetur stærsta blómamarkaðar í heimi. Við erum snemma á ferð, því að fjörið er mest á markaðinum kl. 8-10, þótt honum sé ekki lokað fyrr en 11:30. Hann er lokaður laugardaga og sunnudaga.

Af svölum sjáum við niður í uppboðssalina þrjá, þar sem kaupendur úr öllum heimshornum sitja á stigapöllum með góðu útsýni til leiksviðsins, þar sem blómin eru sýnd. Þeir hafa hljóðnema til að spyrja í og hnapp til að gera tilboð með. Öllu er þessu tölvustýrt.

Blómunum er ekið í vögnum inn á sviðið. Risastór klukka ofan við sviðið fer í gang og skráir verðið í einingum frá 100 niður í 0 á nokkrum tugum sekúndna. Sá kaupandi, sem er fyrstur til að ýta á sinn hnapp, fær blómin á því verði, sem klukkan sýnir. Sá, sem er of bráður, kaupir of dýrt. Og hinn, sem er of varfærinn, fær ekki neitt.

Þannig er verzlað fyrir sjö milljónir gyllina á hverju ári. Merkilegt nokk er það ekki túlipaninn, sem hefur forustuna, heldur rósin. Af henni er seldur hér yfir hálfur milljarður eintaka á ári hverju.

Með hinu sérstæða uppboðskerfi er þetta selt með hvínandi hraða og til mikillar skemmtunar fyrir áhorfendur. Síðan eru blómin flutt til Schiphol, þaðan sem flogið er með þau, meðal annars til Íslands. Fyrir Hollendinga er þetta rosalegur bissness.

Keukenhof

Við förum aftur út á veginn A4 og síðan A44, þaðan sem við tökum fljótlega afleggjara til Lisse. Þar er Keukenhof, 28 hektara blómasýning og blómasala í fallegum skógi. Hún er opin frá marzlokum til maíloka kl. 8-20. Athugaðu, að hún er aðeins opin tvo mánuði á ári, og mundu, að haga einni Hollandsferð í samræmi við það.

Öllum, sem hingað koma, er blómahafið ógleymanlegt úti á garðflötunum í skóginum sem inni í gróðurskálunum. Breiðurnar af blómum í öllum regnbogans litum virðast endalausar. Alls eru blómin sex milljón talsins. Engin blómasýning í heiminum er stærri en þessi. Flestir öflugustu blómaræktendurnir í Hollandi eiga hér skika.

Delft

Nú er komið hádegi og við skellum okkur suður A44 til Haag og þaðan A13 til Delft. Við ökum inn að markaði og finnum bílastæði þar í nágrenninu. Við göngum að gömlu kirkjunni Oudekerk og finnum veitingasalinn Prinsenkelder í kjallara safnsins Prinsenhof, sem er andspænis kirkjunni handan síkisins Oude Delft.

Eftir hádegisverð skoðum við safnið, sem er í höll Vilhjálms þögla af Oranje. Þar bjó hann, þegar hann var að koma á fót hollenzka lýðveldinu og þar var hann myrtur árið 1584.

Kirkjan andspænis, Oudekerk, er frá fyrri hluta 13. aldar, tíma Snorra Sturlusonar. Við göngum spölkorn suður eftir Oude Delfl og njótum útsýnis eftir síkinu.

Síðan beygjum við til vinstri inn á markaðinn fyrir framan Nieuwe Kerk. Þessi fjörmikli markaður nær alveg frá kirkju að ráðhúsi. Þar eru enn Boterhuis, smjörhúsið, og Waag, vigtarhúsið.

Nieuwe Kerk er gotnesk kirkja frá 1430 og hafði þá verið í smíðum í hálfa öld eins og Hallgrímskirkja. Hún er grafarkirkja konungsættarinnar í Hollandi, Oranje Nassau. Þar er Vilhjálmur þögli grafinn og þar verður Beatrix drottning lögð til hvíldar í fyllingu tímans.

Miðbærinn í Delft er einn fellegasti bær í Hollandi. Við ljúkum dvölinni með því að fara í bátsferð um síkin, virðum fyrir okkur trén á síkisbökkunum og fallega sveigðar vindubrýrnar.

Porceleyne Fles

Við finnum bílinn og förum aftur út á A13 og fylgjum skiltum til De Porceleyne Fles til að sjá, hvernig hið fræga Delft postulín er búið til.

Þetta postulín hóf frægðarferil sinn í lok 16. aldar, í þann mund er gullöld Hollendinga var að hefjast. Það varð til fyrir áhrif frá Rínarlöndum og Ítalíu, en á heimsveldistíma 17. aldar komu til sögunnar austræn áhrif frá Kína. Þá varð postulínið frá Delft heimsfeægt.

Blátt og hvítt eru einkennislitir þessa postulíns, sem hefur áreiðanlega orðið tilefni nöturyrða nútímans um postulínshunda. Upp á síðkastið hefur hönnuðum postulíns í Delft gengið erfiðlega að fylgjast með breyttri tízku og þykja þeir fremur gamaldags.

Margir hafa meira álit á annarri postulínshefð hollenzkri, þeirri frá Makkum í norðausturhluta landsins. En hún hefur ekki fengið þá alþjóðakynningu, sem hefðin í Delft hefur notið. Porceleyne Fles fyrirtækið er mikilvægasta postulínsgerðin í Delft og borgarheimsóknin er kjörið tækifæriðtil að sjá þessa tækni í framkvæmd.

Haag

Við snúum við á A13 og höldum tíl baka beint til borgarmiðju í Haag. Þar reynum við að finna bílastæði við Binnenhof eða við Groenmarkt. Síðan byrjum við á að skoða Binnenhof, húsakynni hollenzka þingsins.

Utan við austurport Binnenhof er Mauritshuis, opið 10-17 og sunnu daga 11-17. Það var reist 1644 í síð-endurreisnarstíl eða svokölluðum fægistíl og hafði mikil áhrif á þróun byggingarlistar í Hollandi og á Norðurlöndum. Það var upprunalega setur aðalsmanns, en hýsir nú listaverkasafn konungsættarinnar. Þar eru meðal annars málverk enir Rembrandt, Frans Hals, Breughel og Rubens. Vonandi verður lokið viðamiklum lagfæringum á húsinu, þegar þessi bók kemur út.

Í miðju porti Binnenhof rís Ridderzaal, opinn 10-16, í júlí-ágúst 9-16. Það hús var reist af Floris V greifa árið 1280 og er því meira en 700 ára gamalt. Þar setur Hollandsdrottning þing landsins og kemur þangað akandi í gullslegnum vagni frá höll sinni í úthverfi Haag, Huis ten Bosch, Húsinu í skóginum.

Í Ridderzaal er voldugur salur með miklum bitum og steindum gluggum. Þetta er talin ein fegursta bygging Norður-Evrópu í gotneskum stíl. Að baki er annar salur, Rolzaal. Á torginu fyrir utan var frelsishetjan Oldenbarnevelt tekinn af lífi.

Að lokum förum við um vesturport Binnenhof út að Groenmarkt, sem er fyrir utan höfuðkirkjuna Grotekerk. Þar getum við fengið okkur kvöldmat á ‘t Goude Hooft í gamalhollenzku umhverfi.

Madurodam

Úr miðborginni fylgjum við skiltum til Madurodam, sem er miðja vega milli Haag og baðstrandarbæjarins Scheveningen. Best er að fylgja fyrst Koningskade og síðan Ramweg í beinu framhaldi á síkisbakkanum.

Við höfum af ásettu ráði gefið okkur tíma til kvöldverðar í Haag, af því að Madurodam er opið til 21:30, í apríl-júní til 22:3O og í júlí-ágúst til 23, og af því að það er skemmtilegast í ljósaskiptunum. MadurodOam er lokað frá októberlokum til marzloka.

Þetta er eins konar dúkkuhúsabær, stofnaður af Maduro til minningar um lát sonar hans í fangabúðum nazista árið 1945. Þarna eru eftirlíkingar margra frægra húsa í Hollandi og allt haft í stærðarhlutföllunum l:25. Við sjáum járnbrautararlestir ganga um garðinn, höfnina í Rotterdam, flugvöllinn Schiphol, síkishverfi frá Amsterdam og smáþorp umhverfis markaðstorg, svo að dæmi séu nefnd.

Á kvöldin er kveikt á ljósum í húsunum og götustaurunum og þá er Madurodam fallegast. En satt að segja vantar þar afþreyingu fyrir börn í stíl við það, sem er í Legoland í Billund í Danmörku.

Nú er orðið áliðið kvölds og við bregðum okkur þriggja kortéra leið heim á hótel í Amsterdam.

Ef við hefðum skipt ferðinni í tvennt og værum ekki í tímáraki, mundum við hafa ráðrúm til að líta á Vredespaleis, Friðarhöllina, sem er handan Scheveningen-skógar. Þar er til húsa Alþjóðadómstóllinn í Haag, sem Íslendingum hefur stundum þótt íhaldssamur í úrskurðum í málum fiskveiðilögsögu.

Og Scheveningen kemur víðar við í fiskinum, því að þar er ein stærsta fiskihöfn Evrópu, skemmtilegt heimsóknarefni fyrir áhugamenn um sjávarútveg og fiskiðnað.

Alkmaar

Seinni ferðina förum við aðeins á föstudegi, því að þá er ostamarkaðsdagur í Alkmaar. Við tökum vegina A1O, A8 og síðan A9 norður úr Amsterdam. I Alkmaar finnum við bílnum stæði við kirkjuna og göngum markaðsgötuna Langestraat til Kaasmarkt, ostamarkaðarins á Waagplein, vigtartorginu.

Markaðurinn er haldinn föstudaga 10-12 frá apríllokum fram í miðjan september. Hann er stórkostlegt sjónarspil. Við verðum að vera mætt snemma til að ná útsýnisstöðu við kaðalinn, sem girðir torgið af.

Ostar frá Edam og Gouda liggja í skipulegum röðum á torginu. Kaupandinn og seljandinn þrátta um verðið með því að slá lófum saman. Að samkomulagi fengnu koma Kaasdragers, burðarmenn með eins konar gondólabörur og hlaða hinum selda osti á börurnar, oft 160 kílóum í senn. Síðan hlaupa þeir sérkennilegum skrefum með ostinn að vigtinni, þar sem osturinn er veginn. Burðarmennirnir eru hvítklæddir og bera rauðar, bláar, gular og grænar húfur eftir því, úr hvaða deild burðarmannagildisins þeir eru.

Í rauninni eru menn hættir að selja ost með þessum hætti. Sjónarspilinu er hins vegar haldið áfram, meðal annars og einkum til að fá ferðamenn til bæjarins. Og ferðamennirnir virðast kunna þessu hið bezta, enda má líta á þetta sem skemmtilega leiksýningu á gömlum sið.

Að markaðstíma loknum getum við skoðað miðbæinn lítillega. Alkmaar er gamall bær með mörgum skemmtilegum húsum. Vogarhúsið, Waag, er gömul kirkja frá 14. öld. Og við fáum okkur loks hádegisverð á Bistrot de Paris á Waagplein nr. 1.

Zaanse schans

Við förum sömu leið til baka í átt til Amsterdam, en komum við í Zaanstad, nánar tiltekið í Zaandijk, þar sem er Árbær þeirra Hollendinga, Zaanse Schans. Þar hefur síðan 1950 verið safnað saman fornum húsum og vindmyllum til að sýna líflð í gamla daga. Húsin eru raunverulega notuð til íbúðar og vindmyllurnar eru í daglegum rekstri.

Þorpið er umhverfis síkið Kalveringdijk og nokkur hliðarsíki þess. Flest eru húsin úr timbri, máluð græn og svört og hvít. Myllurnar eru til ýmiss brúks, svo sem til viðarsögunar, málningargerðar, framleiðslu á grænmetisolíu og sinnepi. Þá eru þar krambúðir í gömlum stíl, bakarí og tréskógerð. Hægt er að fá bátsferð á ánni Zaan. Þetta er rómantískur staður og við gefum okkur tíma til síðdegiskaffis á síkisbakkanum í Zum Walfisch

Volendam

Frá Zaanstad förum við fyrst í átt til Amsterdam,en beyalum svo á E1O til að komast til þorpanna Marken og Volendam á bökkum IJsselmeer. Sama er, hvort þorpið við tökum fyrst fyrir, en hér byrjum við á Volendam.

Við breytingu flóans Zuiderzee í stöðuvatnið Ijsselmeer urðu sjómennirnir í þessum tveimur fiskiþorpum atvinnulausir. Í staðinn er kominn túrisminn. Íbúarnir lifa á að ganga í þjóðbúningi og selja ferðamönnum minjagripi. Í rauninni er þetta hálfgert plat, en ferðamaðurinn getur vel lokað augunum fyrir því.

Volendam er á fastalandinu og þar eru íbúarnir kaþólskir. Höfnin er mjög falleg, svo og litlu, sætu húsin að baki aðalgötunnar meðfram ströndinni. En við látum ekki hina grófari kaupsýslumenn staðarins plata okkur.

Marken

Marken er úti á eyju, andspænis Volendam, tengd meginlandinu með brú. Þar eru íbúarnir kalvínstrúar og bera aðra þjóðbúninga en kaþólikkarnir í Volendam. Ekki kæmi mér á óvart, að þeir notuðu aðra mállýzku þarna í nokkurra kílómetra fjarlægð frá hinu þorpinu.

Í framhjáhlaupi má geta þess, að hollenzka er ekki síðbúin lágþýzka, heldur gamalt mál, sem á þjóðflutningatímanum í lok fornaldar var orðið að sérstakri grein á germanska málameiðinum, náskyld máli Engla og Saxa, er námu Bretlandseyjar. Því má staðsetja hollenzku á milli þýzku og ensku.

Við skulum ekki láta okkur liggja neitt á. Þegar líður á síðdegið hverfa rúturnar með ferðamannaflauminn og við fáum tækifæri til að rölta um í friði, skoða litlu höfnina, húsin grænu og svörtu og fallega útsauminn í gluggatjöldunum.

Harderwijk

Um klukkustundar leið til austurs úr Amsterdam, eflir vegunum A1 og A28, er litli strandbærinn Harderwijk með gömlum húsum frá Hansatíma. Þar er líka helzta sædýrasafn Hollendinga. Stjarna þess er háhyrningurinn Guðrún, sem var veidd við Ísland haustið 1976 og sýnir hún fimleika.

Utrecht

Vegur A2 liggur hálftíma leið suður frá Amsterdam til Utrecht, hinnar gömlu háskólaborgar, þar sem hollenzka lýðveldið var stofnað árið 1579 sem varnarbandalag gegn Spánarveldi. Í háskólabókasafninu er hin fræga Trektarbók með íslenzkum Eddukvæðum.

En notalegasti staðurinn í Utrecht er síkisbakki Oude Gracht, sem er á tveimur hæðum, með gangstéttarkaffihúsum og veitingahúsum í friði fyrir umferð bíla.

Schiphol

Holland kveðjum við yfirleitt á Schiphol, flugvellinum við Amsterdam. Hann er eitt stolt Hollands, sem við megum ekki gleyma. Fríhöfnin þar er viðurkennd sem hin bezta í heimi. Vín, áfengi og tóbak er mun ódýrara þar en á Keflavíkurflugvelli, svo að það borgar sig að bera það um borð. Ekki má heldur gleyma breytilegu tilboði mánaðarins hjá flestum verslunum fríhafnarinnar, þar sem hægt er að fá ýmislegt með verulegum afslætti frá fríhafnarverði.

Á Schiphol er hægt að kaupa reyktan ál og vindþurrkaða skinku í handhægum umbúðum, ferskar kæfur og hollenzka osta, svo og ýmislegt fleira handa matgæðingum. Þar fást og ekta Havanavindlar, sem ekki fást hér, ekki einu sinni í fríhöfninni, svo sem Davidoff og Montechristo. Þeir eru geymdir þar við góð skilyrði og fást á ljúfu verði. Fjöldinn af raftækjum er mikill, til dæmis smátölvum. Og svo auðvitað ilmvötnin og blómin.

Við skulum kveðja Amsterdam með blómvönd í fanginu.

Góða ferð til Amsterdam!

1984 og 1992

© Jónas Kristjánsson