Skeið og tölt og mýkt

Punktar

Ný umræða um stöðu hrossaræktar á Íslandi hófst með tveimur samhliða atburðum. Greinaflokkur síðasta heftis Eiðfaxa um mýkt ferðahrossa og hast hoss sumra sýningarhrossa var önnur rótin.

Hin var umsögn Ágústs Sigurðssonar hrossaræktarráðunauts á stóðhestasýningunni í Gunnarsholti í vor, þar sem hann vakti athygli á, að helmingur stóðhestanna þar sýndi ekki skeið og taldi það vera áhyggjuefni.

Þriðja skrefið í umræðunni var málþingið um tölt á Hólum, þar sem Ágúst ítrekaði, að áherzlan á mýkt hefði látið undan síga fyrir áherzlu á fálmandi hreyfingar og taldi, að minna ætti að einblína á framfótahreyfingar en gert hefur verið að undanförnu. Eyjólfur Ísólfsson tók undir skoðun Ágústs og spáði því, að það, sem hann kallaði “fótaburðarsótt” mundi minnka á næstunni. Í þessu hefti Eiðfaxa er sagt frá málþinginu á Hólum.

Fjórða skrefið er greinaflokkur þessa tölublaðs um stöðu skeiðs í hrossaræktinni í beinu framhaldi af orðum ráðunautarins í Gunnarsholti. Hinn þekkti hrossadómari, Jón Finnur Hansson, hefur gengið til liðs við Eiðfaxa og skilgreinir vandamálið í grein í þessu hefti Eiðfaxa. Ennfremur talar hann þar við marga fagmenn, sem segja álit sitt á stöðu skeiðs. Sitt sýnist hverjum í þeirri umræðu eins og vera ber á góðum málfundi, enda hefur stóri sannleikurinn ekki fundizt enn.

Í grein Ágústs um skeið í þessu hefti stingur hann upp á, að kynbótahross verði á sýningum ekki aðeins flokkuð eftir aldri, heldur einnig eftir því, hvort þau sýna skeið eða ekki. Hann sér fyrir sér yfirlitssýningar, þar sem teflt sé saman annars vegar beztu tölturunum og hins vegar mestu vekringunum.

Á sýningunni í Gunnarsholti vék Ágúst einnig að framförum í danskri ræktun íslenzkra hesta í kjölfar kynbótasýningarinnar í Herning, þar sem hann var dómari. Í þessu hefti Eiðfaxa er rætt við ýmsa ræktunarmenn í Danmörku, þar sem þeir rekja ýmsar breytingar, sem orðið hafa til bóta í starfi þeirra. Athyglisvert er, að þeir hafa tengzt íslenzkri ræktun betur en áður.

Eiðfaxi leggur um þessar mundir áherzlu á að vera virkur í málefnalegri umræðu, fræðslu og skoðanaskiptum um margvísleg atriði, sem skipta máli í hrossarækt. Þetta kom skýrt fram í síðasta hefti Eiðfaxa og kemur enn sterkar fram í þessu hefti.

Af mörgu er að taka. Áhugi er vaxandi á ræktun íslenzkra hesta erlendis, ekki aðeins í Danmörku, þar sem dæmt var í Herning eftir íslenzka dómskalanum. Þjóðverjar eru farnir að halda kynbótasýningar eftir íslenzka dómskalanum í bland við hefðbundnar sýningar eftir þýzka dómskalanum. Þannig dreifast áherzlurnar frá Íslandi um allan heim ræktunar íslenzkra hrossa.

Með alþjóðavæðingu íslenzka dómkerfisins vex þrýstingur á kerfið. Fleiri aðilar og fleiri sjónarmið koma til sögunnar. Til dæmis vilja vafalaust sumir Þjóðverjar verja klárhestana gegn tilfærslum í áherzlu dóma í átt til mýktar og skeiðs, sem sumir Íslendingar telja samkvæmt ofangreindu vera tímabærar.

Umræðan í Eiðfaxa birtist í þremur gerðum tímaritsins, á íslenzku, ensku og þýzku og nær þannig mikilli dreifingu um allan heim íslenzka hestsins. Vafalaust munu birtast hér í blaðinu síðar í sumar viðbrögð frá ýmsum löndum við þessari umræðu og innlegg í hana.

Allt er þetta af hinu góða. Heimur íslenzka hestsins er einn, þótt hann sé dreifður. Allir málsaðilar hafa þeirra hagsmuna að gæta, að þróun íslenzka hestsins verði sem glæsilegust. Eiðfaxi þjónar hlutverki meðalgöngumanns í þessari málefnalegu umræðu.

Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 5.tbl. 2003