Auðvitað á að setja Miklubraut í stokk frá Miklatorgi fram yfir Grensásveg. Viðstöðulaus akstur á að vera í miðbæinn alla leið frá Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi, Reykjanesbraut og Hafnarfjarðarvegi, svo og frá Sæbraut. Það sparar benzín og minnkar mengun af bílum í kyrrstöðu við ljós. Við enda þessara viðstöðulausu brauta þarf að vera góður aðgangur að bílastæðahúsum, til dæmis um göng undir Skólavörðuholti. Umferð mun aukast í bænum um 30% á fáum árum, til viðbótar við þá aukningu, sem stafar af troðslu nýrra húsa í gömul hverfi og af byggingum úti í sjó. Gera þarf ráð fyrir öllu þessu.
