Nýja íhaldið í Bandaríkjunum lauk því, sem Víetnamstríðið hóf. Bandaríska öldin byrjaði að hníga í Víetnam-stríðinu og hrundi endanlega í stríði Nýja íhaldsins gegn Írak. Síðari ósigurinn er verri en hinn fyrri, því að honum fylgir hrun bandarískra áhrifa erlendis. Martin Jacques segir í Guardian, að nú sé almennt viðurkennt í Bandaríkjunum, að George W. Bush sé versti forseti sögunnar. Hann hefur nú misst völdin í hendur ráðgjafa föður síns, sem reyna að sættast við demókrata. Týnst hafa tréhausar Nýja íhaldsins, er knúðu fram arfavitlaust stríð, sem saug merginn úr heimsveldi Bandaríkjanna.
