Varla stendur steinn yfir steini í þeim kafla tæplega 20 ára leiðsögubókar minnar um London, sem fjallar um veitingahús. Aðeins Gavroche í Mayfair er enn í blóma, enn bezta hús borgarinnar. Að öðru leyti er allt horfið, meira að segja Grillið í Connaught-hóteli, sem nú heitir Angela Hartnett og er raunar sagt vera eitt hið bezta þar í borg. Fyrir tveim áratugum báru veitingastaðir fyrrverandi nýlendna og franskir staðir höfuð og herðar yfir aðra. Nú er kominn herskari nútímahúsa, sem flest blanda saman frönsku og austrænu, “fusion”-hús. Handbókin mín um London er því orðin úrelt.
