Kanna þarf, hvort lagalega ábyrg sé sú stofnun, sem heitir hinu virðulega nafni Matvælasvið Umhverfissviðs Reykjavíkur. Hún heldur leyndu fyrir okkur, hvar kólígerlar og saurkólígerlar fundust í ís. Hún eyðir fé okkar í tilgangslausar rannsóknir á 106 íssýnum á 55 sölustöðum í borginni, án þess að geta þess, hvaða búðir eru ítrekað mengaðar. Hin virðulega stofnun segir, að þeim búðum hafi fjölgað, sem ekki uppfylla kröfur. Að hvaða gagni koma slíkar upplýsingar, þegar ég heimsæki ísbúð? Alls engu. Ef einhver verður veikur, á að krefja stofnunina um skaðabætur fyrir leynimakkið.
