Ríkisstjórnin hefur ekki gert ráðstafanir í kjölfar mikils innflutnings útlendinga. Hún hefur enga nothæfa áætlun um íslenzkukennslu og tímir ekki einu sinni að styðja við bakið á Alþjóðahúsi. Hún lætur sér nægja að sofa á öldufaldi hagvaxtar, sem stafar af nýbúum. Hún flýtur sofandi að feigðarósi. Ríkisstjórn með viti mundi veita stórfé til að reyna að laga fólk að íslenzkum staðháttum, tungumáli, siðum og venjum. Hún mundi reyna að hindra aðstæður, sem við höfum séð hvarvetna erlendis að leiða til spennu milli innfæddra og innfluttra.
