Ríkisstjórnarblöðin þrjú, Morgunblaðið, Tímínn og Vísir, hafa að undanförnu sagt frá því með augljósu stolti, að gjaldeyrisstaða Íslands hefði batnað um nokkur hundruð milljónir króna í marz. Áttu lesendur að skilja þetta á þann hátt, að stjórn fjármála ríkisins og efnahagsmála þjóðarinnar væri farin að lagast.
Það er gamall siður stjórnmálamanna og hirðskálda þeirra á flokksblöðunum að fara óvarlega með tölur og finna jafnan ráð til að sýna þær í þægilegu ljósi. En sjaldan hafa þeir verið jafndrjúgir af jafnlitlu tilefni og batanum á gjaldeyrisstöðunni í marz.
Núverandi ríkisstjórn hefur mánuðum saman varið gjaldeyrisstöðuna með þeim einum hætti að taka milljarða að láni erlendis. Þessir milljarðar hafa ekki farið til neinna gjaldeyrisöflunarframkvæmda, heldur eingöngu til að borga daglegan rekstur ríkisbúsins og þjóðarbúsins.
Í marz brá ríkisstjórnin ekki út af venju sinni og tók nokkra milljarða króna aó láni. Þetta var meira en tíu sinnum hærri upphæð en bati gjaldeyrisstöðunnar nam. Af hverjum tíu krónum, sem fengnar voru að láni í marz, sat aðeins tæplega ein króna eftir í kassanum, þegar hinu hafði verið eytt í sama mánuói.
Þetta var allur batinn á gjaldeyrisstöðunni. Hirðskáld ríkisstjórnarinnar hefðu betur látið ógert að hælast um af honum. Raunveruleikinn var nefnilega allt annar. Hann var sá, að ríkisstjórnin hélt í marz áfram að sigla þjóðarskútunni í átt til gjaldþrots.
Hinn l. janúar 1975 voru gamlar og nýjar ríkisstjórnir búnar að hnýta hverjum Íslendingi skuldabagga upp á 200.000 krónur í erlendum lánum. Núverandi ríkisstjórn magnaði þennan skuldabagga um 130.000 krónur á aðeins einu ári. Hinn l. janúar 1976 var skuldabagginn á hvert mannsbarn kominn upp Í 330.000 krónur. Núna er hann kominn yfir :350.000 krónur.
Krónan hefur að vísu lækkað töluvert að verðgildi á þessum tíma. En sú lækkun er langt frá því að vega upp á móti þessari skuldaaukningu. Trúlega hefur engin ríkisstjórn bundið þjóðinni þyngri skuldabagga en þessi ríkisstjórn, sem er jafnvel verri en vinstri stjórnin og er þá mikið sagt.
Það er full ástæða til að kenna ríkisstjórninni um þetta ástand. Verðlag á útflutningsafurðum Íslendinga hefur verið sæmilegt og jafnvel gott á valdatíma hennar. Það er fyrst og fremst óstjórnin á efnahagsmálum þjóðarinnar, sem veldur því ástandi, er lýsir sér í söfnun skulda í útlöndum.
Þessi svokallaða hægri stjórn hefur belgt út ríkisbáknið til jafns við hverja vinstri stjórn, þar sem hún hefur ekki haft neinn raunverulegan fjármálaráðherra. Hún hefur ekkert mark tekið á góðum ráðum samtaka launþega og vinnuveitenda um björgunaraðgerðir í efnahagsmálum, heldur haldið að sér höndum að frumkvæði forsætisráðherra, sem getur sjaldan ákveðið sig, fyrr en allt er orðið um seinan.
Svo gamna þessir menn sér við, að gjaldeyrisstaðan hafi batnað í marz. Sér eru nú hverjar hetjurnar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
