B5 Bistró er skemmtilega innréttaður veitingasalur í yfirstærðarformum, allt frá risavöxnum loftlömpum og bókahillum, um langa barborðið, yfir í dimmgráan diskinn og brúna viðarvegginn að baki hans. Staðurinn er að öðru leyti hvítur og dimmgrár. Hann lætur lítið yfir sér að utan, en sagði “bistró”, um leið og ég kom inn. Húsbúnaður er nútímalegur og einfaldur í sönnum bistró-stíl. Þá tegund veitingahúsa hefur sárlega vantað hér á landi. Ég man í flýti ekki eftir fleiri ekta stöðum af því tagi öðrum en 101, handan við hornið í Ingólfsstræti.
