Lítið er um veizlumat í Skagafirði, þar sem veitingahúsum hefur farið aftur síðustu ár og eldhúsið í Ólafshúsi á Sauðárkróki er komið í hreina steik, gráa og seiga. Til ráða er að skreppa heiðina að Halastjörnunni, sjávarréttastað, sem er efst í Öxnadal. Þar fékk ég fyrst fiskisúpu með kræklingi og humar, síðan reyktar svartfuglsræmur með blóðbergi úr hólunum, sem hálfan dalinn fylla við Hraundranga. Aðalrétturinn var steikt lúða með mauki rótarávaxta og að lokum kom rabarbaratrifli úr garðinum. Þetta var eins og í heimsborgum, hrein og tær vin í eyðimörk hringvegarins.
