Ríkisstjórn okkar virðist ekki hafa mikið svigrúm til samninga um undanþágur fyrir erlenda togara í íslenzkri landhelgi. Þjóðin sem heild hefur mjög harða afstöðu í landhelgisdeilunum og virðist fremur vilja þorskastríð en eftirgjafir.
Annað mál er, hvort rétt er að þrengja jafnmikið að ríkisstjórninni og gert hefur verið víða í ræðu og riti að undanförnu. Ríkisstjórnin þarf að sjálfsögðu að geta komið fram af sómasamlegri sáttfýsi út á við. Og hún þarf til dæmis að hafa í huga hagsmuni okkar af tollalækkunum á íslenzkum útflutningsafurðum í ýmsum Evrópulöndum.
Við verðum að treysta ríkisstjórninni til að vega og meta rækilega alla þætti, sem snerta afstöðuna í landhelgisdeilunum og til að halda á þessum málum í senn af einurð og skynsemi. Sérstaklega ber að vara fólk við gagnrýnendum, sem eru að reyna að afla sér pólitísks uppsláttar á kokhreysti í landhelgismálinu.
Það hefur vafalaust ekki farið fram hjá rikisstjórninni, að undanþágur innan fimmtíu mílna verða mjög illa séðar hér heima fyrir, þegar tvö hundruð mílna landhelgin er komin til framkvæmda. Andstaðan gegn slíkum undanþágum er rótgróin í huga mikils fjölda fólks.
Ennfremur er það útbreidd skoðun, að þýðingarlaust sé að semja um nokkrar undanþágur við Belga og Breta. Sú skoðun byggist á trú manna á, að Vestur-Þjóðverjar hyggist ekki semja, heldur sitja eftir með vopn refsitolla Efnahagsbandalagsins á lofti.
Refsitollar bandalagsins á íslenzkum sjávarafurðum fara hækkandi með hverju árinu. Þar með gætum við í vaxandi mæli freistazt til að vera eftirgefanlegir í samningum við Vestur-Þjóðverja, þegar þeir eru orðnir eina hindrunin í vegi afnáms refsitollanna. Dagblaðið tekur undir þá skoðun, að ekki megi koma Vestur-Þjóðverjum í slíka aðstöðu.
Ríkisstjórnin verður að taka fullt tillit til þeirra sjónarmiða, að sérsamningar við Belga eða Breta eða báðar þessar þjóðir komi ekki til greina, heldur verði slíkir samningar að vera hluti af heildarsamningi, er tryggi afnám refsitolla Efnahagsbandalagsins. Sumir vilja láta fylgja afnám löndunarbannsins í Vestur-Þýzkalandi, en það er of litilvægt mál til að hafa áhyggjur af.
Um leið og ríkisstjórnin er vöruð við undanþágum innan fimmtíu mílnanna og við sérsamningum víð Belga og Breta, er ótilhlýðilegt að binda hendur hennar svo rækilega, að hún hafi enga möguleika á að ná samningum um viðurkenningu Evrópuríkja á tvö hundruð mílna fiskveiðilögsögunni.
Málstað okkar hefur þegar verið spillt nokkuð með því að hunza kvótaskiptinguna á síldveiðum í Norðursjó. Menn hafa litla trú á friðunarást okkar, þegar við hyggjumst veiða í Norðursjó eins og okkur þóknast. Eins mundi það spilla málstað okkar að vera svo einstrengingslegir í landhelgisdeilunni, að við tækjum einungis gilda skilyrðislausa uppgjöf viðsemjenda okkar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
