Borgarstjórinn hefur tekið til varna á sjónvarpsstöðvum og reynt að gera lítið úr hlutdeild sinni í stórfelldu samsæri olíurisanna gegn þjóðinni, fyrirtækjum hennar og stofnunum. Hann kemur vel fyrir, en getur ekki talað framhjá þeirri staðreynd, að hann var sjálfur á bólakafi í þessu samsæri. … Borgarstjórinn hefur ekki gefið Reykjavíkurlistanum réttar upplýsingar á sínum tíma, þegar málið var tekið þar fyrst fyrir. Eins og í sjónvarpsviðtölum fimmtudagsins hefur hann skautað yfir óþægilegu kaflana um aðild sína, enda virðist hann ekki enn gera sér grein fyrir pólitískri stærð málsins. …
