Sértæk haturslög

Greinar

Forsætisráðherra hefur ekkert á móti samþjöppun og einokun í fjölmiðlun. Hann vill bara ákveða sjálfur, hver hafi. Fyrir tveimur árum leit út fyrir, að Morgunblað flokksins yrði eina dagblaðið í landinu og ríkissjónvarp flokksins yrði eina sjónvarpsfréttastofan í landinu. Þá var hann ánægður.

Síðan gerðist það, að kaupsýslumaður, sem hefur lengi farið í taugar forsætisráðherrans, bjargaði lífi tveggja dagblaða og er að vinna að því að bjarga einni sjónvarpsfréttastofu. Þetta hefur magnað fræga heift ráðherrans, sem nú er að láta þjóna sína á þingi setja lög til höfuðs sjónvarpsstöðinni.

Forsætisráðherra, nokkrir aðrir ráðherrar og þingmenn veifa fjölmiðlum í ræðustól og segja efnislega, að gagnrýni þeirra á forsætisráðherra og dómsmálaráðherra og grín þeirra um sömu ráðherra sýni, að setja þurfi lög um fjölmiðla. Þeir telja, að fjölmiðlar eigi hvorki að gagnrýna né grínast.

Um leið eru þessir ræðumenn að segja, að lögin séu sértæk. Þeir telja þau vera nauðsynleg, af því að fjölmiðlar Norðurljósa séu hortugir. Sama viðhorf hefur raunar komið fram hjá formanni nefndar, sem skipuð var til að leita uppi rök fyrir lagafrumvarpi gegn fyrirtækinu Norðurljósum.

Mistekist hafa tilraunir þessara aðila og málgagna þeirra til að halda fram, að lagafrumvarpið sé samið að erlendri fyrirmynd. Þar gilda allt önnur og vægari lög og hvergi gilda afturvirk lög. Evrópusambandið mælir með allt öðrum aðferðum til varnar gegn hugsanlegri samþjöppun fjölmiðla.

Enginn efast um, að fjölmiðlavald getur þjappazt saman og að miður kræsilegir eigendur geta komið til skjalanna. Rupert Murdoch hefur einkum verið nefndur. Þessi vandi hefur til dæmis verið á borði Evrópusambandsins og Evrópuráðsins. Þar hefur engum dottið í hug neitt, sem líkist frumvarpinu hér.

Erlendis horfa menn mest á gegnsæi fjölmiðla, fremur en boð og bönn. Alveg eins og alvörumenn í útlöndum vilja gegnsæ fjármál stjórnmála vilja þeir gegnsæ fjármál fjölmiðla. Það þýðir, að vitað sé um eignarhald fjölmiðla, auglýstar og skýrar reglur gildi um samskipti fjármagns og ritstjórna.

Það er dæmigert fyrir áhugaleysi forsætisráðherrans á raunverulegum aðgerðum gegn samþjöppun valds, að hann hefur hvorki ljáð máls á lögum um gegnsæi fjölmiðla né lögum um gegnsæi stjórnmála, enda hefur flokkur hans lengi haft yfirburða aðgang að fjármagni, sem ekki segir til nafns.

Alþingi er í þann mund að setja lög með afbrigðilegum hraða til að þjónusta sértækt hatur forsætisráðherra, sem hefur verið svo lengi við völd, að hann telur sig guðdómlegan.

Jónas Kristjánsson

DV