Gengislækkun – ekki uppbætur

Greinar

Fjármagnstilfærslurnar milli fiskiðnaðar og útgerðar framhjá fiskverðinu eru orðnar að flóknu og rotnu kerfi, sem jafngildir hálfum ríkisrekstri á útgerðinni. Hugmyndir um að magna ríkisreksturinn enn með upphótum á fiskverð eru hættulegar og fráleitar.

Þar sem útgerðarmenn greiða nú aðeins þriðjung verðs olíunnar, sem bátar þeirra nota, skortir sparnað í notkun olíu. Menn keyra bátana of hratt, þótt síðasta hraðamílan kosti margfalt meiri olíu en hinar fyrri.

Þar sem útgerðarmenn greiða ekki lengur tryggingar skipanna, hefur myndazt grundvöllur fyrir misnotkun í skjóli þess, að mörk viðhalds og tjóns á skipum geta verið óljós.

Þetta flókna og rotna kerfi á að leggja niður og alls ekki magna það. Nóg er að hafa landbúnaðinn á herðum ríkisins, þótt ekki verði farið að greiða uppbætur á fiskverð. Yfirbygging ríkiskerfisins er þegar orðin of mikil, þótt ekki sé nú lagt út í hrikalegri skattheimtu en nokkru sinni fyrr.

Afleitt er, að svona skuli vera komið fyrir lífsuppsprettu þjóðarinnar, útgerðinni. Við vitum, að íslenzkir sjómenn eru þrisvar-tíu sinnum fisknari en sjómenn annarra þjóða, bæði vegna meiri kunnáttu og betri tækjabúnaðar. Íslenzki sjávarútvegurinn er í eðli sínu mjög samkeppnishæfur, þótt röng gengisskráning hafi nú gert hann að bónbjargamanni.

Hin ranga og of háa gengisskráning hefur flutt milljarða frá sjávarútveginum til að halda uppi gervilífskjörum í landi, til að halda uppi landbúnaði í landinu og til að halda uppi óhæfilegri yfirbyggingu þjóðfélagsins. Í slíkum kringumstæðum er engin furða, þótt sjómenn hafi minni tekjur afgangs fyrir sig en þeir eiga skilið.

Nú er kominn tími til að skera á meinsemdina. Við þurfum að losna við hálfgildings ríkisrekstur á útgerðinni. Við þurfum að losna við hið rotna millifærslukerfi. Við þurfum að láta útgerðina og fiskvinnsluna geta staðið á eigin fótum. Til þess er aðeins ein fær leið og hún er fólgin í því að skrá gengið rétt, það er að segja lækka það.

Sjávarútvegurinn er sérgrein Íslendinga, sú grein, sem örugglega er samkeppnishæf í alþjóðlegum samanburði. Gengi krónunnar verður að fylgja gengi sjávarútvegsins, annars riðlast allt efnahagskerfið. Við getum ekki eytt meiru en sjávarútvegurinn aflar með nokkrum stuðningi útflutningsiðnaðar, sem einnig mundi eflast, ef gengið væri rétt skráð.

Þar við bætist sú staðreynd, að gjaldeyrisvarasjóðurinn er upp urinn og Seðlabankinn kominn í mínus gagnvart útlöndum. Efling útflutningsatvinnuveganna í kjölfar gengislækkunar mundi fljótlega stöðva þetta hrun og leiða á ný til myndunar gjaldeyrisvarasjóðs og tryggja atvinnuöryggið fremur en nokkur önnur aðgerð.

Gengislækkun er alltaf jafn-sársaukafullur uppskurður. En hún er skárri en að ganga áfram með meinið og leyfa því að breiðast út .Ört versnandi viðskiptakjör á undanförnum mánuðum hafa þegar skekkt gengið verulega. Ný og lægri skráning á gengi krónunnar er aðeins viðurkenning á þegar orðnum hlut. Við skulum því taka hana fram yfir rándýrt uppbótakerfi á fiskverðinu.

Jónas Kristjánsson

Vísir