Því miður hefur enn ekki orðið veruleg breyting á leyndarmálastefnu stjórnvalda, þrátt fyrir tilkomu nýrrar ríkisstjórnar í haust. Ef til vill þarf stjórnin meiri tíma til að marka spor í stjórnkerfinu á þessu sviði .En tvö alvarleg dæmi valda því, að vekja þarf athygli á nauðsyn stefnu breytingar. Annað dæmið sýnir, hve óhagkvæm leyndarmálastefnan getur verið, og hitt sýnir, hve ósiðleg hún getur verið.
Fyrra leyndarmálið felst í tillögum embættismanna um lausn landhelgisdeilunnar við Vestur-Þýzkaland. Þessar tillögur, sem sumir nefna samningsuppkast, hafa nú verið til umræðu í rúmar tvær vikur án þess að sjá dagsins ljós. Alls konar Gróusögur um innihald tillagnanna hafa fengið byr undir báða vængi.
Hið eina, sem menn hafa getað byggt á, eru meira eða minna rangfærðar upplýsingar í Þjóðviljanum og litlu betri upplýsingar alþingismanna á almennum fundi í Reykjavík. Þjóðin hefur á þessum tveimur vikum smám saman verið að móta sér skoðun á þessum tillögum á grundvelli algerlega ónógra upplýsinga.
Stjórnvöld geta ekki ætlazt til þess, að áhugafólk um landhelgismál fresti því að hugsa og ræða þetta mikilvæga mál, unz hinu opinbera þóknist að veita langþráðar upplýsingar. Þess vegna hafa Gróusögurnar náð að móta skoðanir fjölda manna á tillögum embættismanna um samning við Vestur-Þýzkaland.
Vísir reyndi á laugardaginn að bæta úr skák með því að rekja í leiðara eftir beztu vitund helztu atriði þessara margfrægu tillagna, að vísu samkvæmt upplýsingaleka, sem aldrei er fyllilega áreiðanlegur. Því miður hafa þessar upplýsingar vafalaust komið of seint hjá okkur. Menn hafa áður verið búnir að móta sér skoðanir á málinu.
Þetta dæmi sýnir, hve óhagkvæmt getur verið að liggja á upplýsingum, sem almenningur á heimtingu á að fá hið bráðasta.
Hitt leyndarmálið felst í samningi ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um nýtt fyrirkomulag varna landsins. Stjórnvöld hafa skýrt frá helztu atriðum þessa samkomulags, en ekki enn birt það opinberlega. Í þessu felst siðferðilega röng stefna.
Látum vera, þótt ekki sé lagalega skylt að fá Alþingi samninginn til staðfestingar, því lofað hefur verið almennum umræðum þar um varnar- og öryggismál landsins. En eiga þingmenn í þeim umræðum að fjalla um samning, sem þeir hafa ekki séð? Eða eiga þeir í umræðunum að fá að birta alþjóð samninginn hver með sinni túlkun, sumum rangfærðum?
Varnar- og öryggismál landsins eru meðal allra veigamestu mála okkar. Miklu varðar, að almenningur byggi skoðanir sínar á þeim af sem mestri skynsemi og þekkingu. Að þessu mundi ríkisstjórnin stuðla, ef hún birti samninginn við Bandaríkjastjórn. En með því að halda honum leyndum, gefur hún Gróum landsins tækifæri til að dylgja um innihaldið.
Í lýðræðisríki mega atriði, eins og samningurinn við Bandaríkjastjórn og tillögurnar um samning við stjórn Vestur-Þýzkalands ekki vera leynigögn. Slík leyndarstefna er bæði ósiðleg og óheppileg. Vonandi áttar ríkisstjórnin sig fljótlega á, að kjósendur hennar hafa fastlega reiknað með, að hún opni kerfið að þessu leyti.
Jónas Kristjánsson
Vísir
