Ríkissneiðin minnkar

Greinar

Hin mikla hækkun ríkisútgjalda, talin í krónum eða prósentum, er vafalaust eitt hið fyrsta, sem menn taka eftir í fjárlagafrumvarpi ársins 1975. Margir munu því vafalaust spyrja, hvort gleymzt hafi loforðin um, að spornað yrði við útþenslu ríkisbúskaparins.

En hækkun í krónutölu segir ákaflega lítið, þegar verðlag hefur á einu ári hækkað um 50-55%. Verðlagshækkanir koma af fullum krafti niður á rekstri og framkvæmdum ríkisins eins og annarra aðila í þjóðfélaginu. Ef unnt er að koma hækkun ríkisútgjalda niður fyrir meðaltal verðlagshækkana, er unnt að halda því fram, að nokkur sigur hafi unnizt.

Þegar talað er um útþenslu og samdrátt ríkisbáknsins, er réttast að skoða, hve mikill hluti ríkisbúið er af þjóðarbúinu í heild. Á þessu ári er gert ráð fyrir, að ríkisútgjöld verði 29,1% af þjóðarframleiðslunni. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir, að þessi hlutdeild minnki aðeins, ríkisútgjöldin verði 28,7% þjóðarframleiðslunnar.

Þetta er alger stefnubreyting frá undanförnum árum. Meðan vinstri stjórnin var við völd, hækkaði hún smám saman hlutdeild ríkisins í þjóðarbúinu úr 20% í 29,1%. Þessi útþensla hefur nú verið stöðvuð með fjárlagafrumvarpinu nýja og fyrsta skrefið stigið til samdráttar.

Ríkisstjórnin hefur aðeins setið að völdum í fáar vikur. Ekki er hægt að ætlast til, að hún geri betur á svo skömmum tíma en að stöðva útþensluna. Í næstu atrennu, þegar gengið verður frá fjárlagafrumvarpi ársins 1976, má svo reikna með, að ríkisstjórninni takist að lækka hlut ríkisins enn frekar.

Sparnaðarstefna fjárlagafrumvarpsins felur að sjálfsögðu í sér, að fresta verður ýmsum nytsömum framkvæmdum. Fjártesting ríkisins mun samkvæmt frumvarpinu minnka um 10-15% að magni til. Slík stefna er nauðsynleg í því efnahagsástandi, sem nú ríkir í landinu.

Frumvarpið gerir ráð fyrir, að hin hörmulega fjárhagsstaða ríkisins verði styrkt, yfirdráttarskuldin við Seðlabankann minnkuð um 250 milljónir króna og spariskírteini endurgreidd án endurútgáfu um 500 milljónir króna. Í athugasemdum fjármálaráðherra hvetur hann Alþingi til að hækka þessar upphæðir í meðferð frumvarpsins og innan ramma þess.

Annar kostur frumvarpsins er, að það er ekki opið í báða enda, eins og undanfarin frumvörp hafa verið. Í því eru 500 milljónir til ráðstöfunar, sem nota má til að halda óbreyttum niðurgreiðslum og fjölskyldubótum út næsta ár eða til að framkvæma aðrar ráðstafanir, sem kunna að þykja heppilegri, þegar líða tekur á árið.

Samkvæmt frumvarpinu á skattvísitala að hækka um 45% til að létta skattbyrðar fólks. Ennfremur eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga lækkaðar um 500 milljónir til að greiða fyrir samræmingu algengustu bóta almannatrygginga og tekjuskattsins.

Í heild er því unnt að segja, að Matthías Á. Mathiesen fjármálaráðherra hafi við gerð frumvarpsins unnið stefnumarkandi sigur við erfiðar kringumstæður.

Jónas Kristjánsson

Vísir