Afgreiðsla fjárlaga ríkisins hér á landi er mikið sjónarspil, er minnir helzt á óskalista um jólagjafir, sem börn semja. Menn sitja með sveittan skallann við að semja langa lista yfir opinber verkefni, sem þeir telja nauðsynlegt að ráðast í.
Fyrst eru þessir óskalistar samdir í ráðuneytunum og síðan auknir og endurbættir á alþingi. Það vantar skóla hér, veg þar og höfn alls staðar. Verkefnin eru vitanlega takmarkalaus og gaman að geta glatt kjósendur. Og svo ranka þingmenn við sér, þegar komið er fram undir jól, og búið er að leggja saman listana. Þá kemur í ljós, að kostnaðurinn við jólagjafirnar er langt umfram það, sem reiknað hafði verið með.
Það fyrsta, sem heilbrigðum og heiðarlegum þingmönnum dettur í hug, er, að nú verði að skera eitthvað af þessu niður og koma fjárlögunum aftur niður í skikkanlega upphæð. En þá er spurt: Ætlarðu að taka skólann af þessum, veginn af hinum og hafnirnar af öllum? Þingmenn sjá, að þeir verða úthrópaðir af kjósendum, ef þeir minnast á niðurskurð framkvæmda í þeirra heimabyggð. Keppinautarnir á þingi sjá til þess.
Staðreyndin er sú, að þingmaður fremur pólitískt sjálfsmorð, ef hann leggur til, að ákveðnar nafngreindar framkvæmdir verði skornar niður. Hann kemur því frekar með almennt orðaðar hugmyndir um niðurskurð fjárlaga og getur ekki svarað spurningum um, hvar hann vilji spara. Þess vegna eiga eyðslustefnumenn í hópi þingmanna auðvelt með að stjórna skrípaleiknum.
Niðurstaðan er svo sú, að tekjuhlið fjárlaga er teygð út til að mæta tapinu. Það er gert með því að auka skatta. Þannig hefur á aðeins þremur vinstristjórnarárum tekizt að belgja ríkisbúið verulega út á kostnað annarra þátta þjóðlífsins. Á viðreisnarárunum var ríkisbúið 20% af þjóðarbúinu, en á næsta ári fer það upp í 30%. Með sama áframhaldi verður 1995 ekki eftir króna handa heimilum landsmanna, atvinnulífi og sveitarfélögum.
Þessi vítahringur er ekki séríslenzkt fyrirbrigði. Hið sama hefur t.d. gerzt í Danmörku, unz blaðran sprakk þar í kosningunum í vetur. Þá gáfu kjósendur fjárlagahækkunar- og skattahækkunarflokkunum rækilega á baukinn, svo að þeir fara væntanlega varlegar í sakirnar, þegar þeir semja næstu fjárlög.
Fjárlög á að byggja upp með allt öðrum hætti. Fyrst á að ákveða, hver eigi að vera heildarupphæð fjárlaga. Síðan á að skipta heildarupphæðinni milli málaflokka. Síðast á svo að skipta kökusneiðunum milli einstakra verkefna. Ef þetta er gert, sjá menn strax, hve mikið fé er til ráðstöfunar á hverju sviði og geta einbeitt sér að því að bítast um, hvaða framkvæmdir séu nauðsynlegastar. Þá er ekki þörf á neinum síðari niðurskurði á framkvæmdum, sem þegar eru komnar á blað. Það er miklu auðveldara að tala um, hvaða framkvæmdir komist hverju sinni gegnum nálarauga fyrirfram ákveðinnar upphæðar.
Ef skynsemi leysir ekki skrípaleik af hólmi á þessu sviði, fara seinþreyttir skattgreiðendur senn að grípa til gagnráðstafana.
Jónas Kristjánsson
Vísir
