Trinità dei Monti
Við förum upp tröppurnar að kirkjunni Trinità dei Monti. Að ofanverðu er gott útsýni yfir miðbæinn og alla leið til Péturskirkju. Enn betra útsýni er úr veitingasal Hassler-hótels, sem er hér við hlið kirkjunnar og getið er í gistingarkafla bókarinnar. Á torginu ofan við tröppurnar er rómverskur einsteinungur, sem er stæling á egypzkum.
Smíði Trinità dei Monti hófst 1502 og lauk 1585. Framhliðin er í hlaðstíl eftir Carlo Maderno, þann hinn sama og hannaði framhlið Péturskirkju. Í kirkjunni eru listaverk eftir Volterra.
Við getum tekið krók norður frá kirkjunni eftir Viale Trinità dei Monti að Villa Medici frá 1564, þar sem oft eru listsýningar og franskar menningarvikur.
Casino Borghese
Að öðrum kosti förum við til suðurs eftir Via Sistina að Via Crispi, þar sem við beygjum til vinstri upp brekkuna og höldum beint áfram eftir Via Porta Pinciana að samnefndu hliði á borgarmúrnum.
Við getum tekið á okkur krók gegnum Porta Pinciana inn í Borghese-garða og þar til hægri eftir Viale Museo Borghese að samnefndu höggmynda- og málverkasafni, sem er í Casino Borghese. Þetta er 800 metra leið, sem borgar sig, ef við erum á ferð nógu snemma dags.
Í safninu eru verk eftir Bernini, Canova, Caravaggio, Dürer, Pinturicchio, Rafael, Rubens, Titian og marga fleiri þekkta listamenn fyrri alda.

