Þvert nei

Greinar

Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra hefur tekið ábyrga afstöðu gagnvart tillögum um mikla minnkun þorskafla. Í sjómannadagsræðunni sagði hann afdráttarlaust, að ekki kæmi til greina annað en að gefa þorskstofninum tækifæri til að byggja sig upp að nýju.

Ráðherrann tók sérstaklega fram, að ekki væri nóg að miða við óbreytt ástand, heldur yrði að haga aflamagni þannig, að þorskurinn ykist í sjónum. Með þessu var hann að segja, að ekki yrði veittur neinn afsláttur frá sjónarmiðum fræðimanna um samdrátt aflans.

Búast má við, að niðurstaða Hafrannsóknastofnunarinnar og hins erlenda sérfræðings, sem ráðinn hefur verið til að meta hana, verði í sömu átt og ráðgjafanefndar Alþjóða hafrannsóknaráðsins, sem lagði til, að þorskafli yrði skorinn niður um 40% á næsta veiðiári.

Freistandi hefði verið fyrir sjávarútvegsráðherra að fara að fordæmi margra fyrirrennara sinna, sem voru veikir fyrir hagsmunum andartaksins. Meðal þeirra er flokksbróðir ráðherrans, Matthías Bjarnason, sem nú hefur lagt til, að þorskaflinn verði ekki minnkaður.

Aðrir frægir sjávarútvegsráðherrar voru Lúðvík Jósepsson og Steingrímur Hermannsson, sem stuðluðu eindregið að óhæfilegri fjölgun fiskiskipa, með þeim afleiðingum, að saman fór hnignun fiskistofna og arðminni veiði með versnandi afkomu sjómanna og útvegsmanna.

Það var ekki fyrr en með Halldóri Ásgrímssyni að sjávarútvegsráðherra fór að standa gegn skammtímasjónarmiðum þrýstihópa. Halldór náði þó ekki fullum árangri, því að hann var mjög gefinn fyrir niðurstöður, sem hægt væri að þræla öllum til að sætta sig við.

Sáttastefna Halldórs leiddi til, að flest ár var leyft að veiða nokkru meira magn en fiskifræðingar höfðu lagt til. Af því súpum við seyðið núna. Ástandið er orðið þannig, að við þurfum og höfum sjávarútvegsráðherra, sem getur sagt þvert nei við undanbrögðum þrýstihópa.

Núverandi sjávarútvegsráðherra er eindregið studdur helztu talsmönnum sjávarútvegsins. Þeir sjá fyrir, að þungbærar tillögur fiskifræðinga séu eina leiðin til að gera þorskveiðar arðbærar að nýju, þegar tímar líða fram. Þeir vilja taka á sig tímabundna erfiðleika.

Þessi skynsamlegu sjónarmið hafa verið ráðandi í umræðunni, sem farið hefur fram, síðan fréttir bárust af tillögunni um 40% niðurskurð. Helzt eru það Matthías Bjarnason og nokkrir þekktir skipstjórnarmenn, sem telja lítið eða ekkert mark á slíkum tillögum takandi.

Í málflutningi sumra andstæðinga niðurskurðar er fjallað um fiskifræðinga sem eins konar þrýstihóp eða hagsmunagæzlumenn, er setji fram ýtrustu tillögur um aflasamdrátt í þeirri fullvissu, að endanlegar niðurstöður verði 30% hærri en upphaflegar tillögur þeirra.

Þvert á móti liggja fiskifræðingar undir miklum þrýstingi um að vera sem bjartsýnastir, þegar þeir leggja fram tillögur sínar. Þannig var ástandið fyrir áratug, þegar þáverandi stjórnendur Hafrannsóknastofnunarinnar þjónuðu óskhyggju Steingríms Hermannssonar.

Við gerum ráð fyrir, að nú séu fiskifræðingar hvorki óskhyggjuþjónar né þrýstihópur, heldur vísindamenn, sem segi það, er þeir vita réttast hverju sinni. Þess vegna er skynsamlegt og ábyrgt, að sagt verði þvert nei við kröfum um útvötnun á tillögum fiskifræðinga.

Ef við höfum nú loksins fengið sjávarútvegsráðherra, sem getur sett hnefann í borðið, er það bezta leiðin til að flýta því, að aftur komi betri tíð með blóm í haga.

Jónas Kristjánsson

DV