3. Amalienborg – Amalienborg

Borgarrölt
Amalienborg, København

Amalienborg

Síðan förum við eftir Kvesthúsbrúnni (Kvæsthusbroen) meðfram innri höfninni að götunni Sankt Annæ Plads. Við beygjum til vinstri og þar eru brátt á vinstri hönd hótelið Neptun (og hádegisverðarstofan Sankt Annæ á nr. 12. Til hægri, við þvergötuna Tollbúðargötu, er hótelið Admiral í rúmlega 200 ára kornþurrkunarhúsi.

Við höldum áfram eftir Sankt Annæ Plads og beygjum til hægri inn í Amalíugötu (Amaliegade). Ef komið er hádegi, er kjörið að líta inn í áðurnefnt Sankt Annæ eða í Amalie, sem hér er framundan vinstra megin, á nr. 11. — Konungshöllin Amalíuborg er skammt undan. Við göngum inn á hallartorgið og svipumst um.

Amalienborg livvagt, København

Amalienborg lífvörður

Amalíuborg er einkar viðfelldin og sérkennileg konungshöll í fjórum höllum í svifstíl, aðskildum af krossgötum. Hallirnar mynda átthyrning umhverfis torgið. Upphaflega voru þetta hallir fjögurra aðalsmanna, en voru gerðar að konungshöll, þegar Kristjánsborg brann 1794.

Við förum undir tengibyggingu, þegar við komum inn á torgið. Hægra megin tengiálmunnar er bústaður Margrétar II Þórhildar drottningar og Hinriks prins. Vinstra megin eru veizlusalir drottningar. Í þriðju höllinni, hægra megin, býr Ingiríður, ekkjudrottning Friðriks VIII. Og í fjórðu höllinni, vin
stra megin, bjó Kristján X.

Tjúgufáni yfir höll Margrétar sýnir, hvort hún er heima eða ekki. Við stillum helzt svo til að vera hér kl. 12 til að sjá varðsveitina koma með lúðrablæstri eftir Amalíugötu inn á torgið, þegar skipt er um varðmenn með tilheyrandi serimoníum.

Hverfið umhverfis Amalíuborg heitir Friðriksbær, byggt eftir ströngum og þá nýtízkulegum skipulagsreglum um miðja átjándu öld. Göturnar eru tiltölulega breiðar og húsin einkar virðuleg. En mannlíf er hér miklu minna og fátæklegra en í gamla bænum, sem við lýstum í fyrstu gönguferð. Helzt er líf í verzlunargötunni Stóru Kóngsinsgötu (Store Kongensgade), sem liggur samsíða Amaliegade.

Næstu skref