Tillögur brezks verðbréfafyrirtækis um bættan hlutafjármarkað á Íslandi eru góðra gjalda verðar. Þær ná þó einungis yfir hluta vandamálsins, það er að segja opin fyrirtæki, sem eru nálægt því að vera skráð á hlutafjármarkaði. Slík fyrirtæki eru fá hér á landi.
Auðvitað er brýnt, að kaup og sala hlutafjár fari hér á landi fram með svipuðum hætti og tíðkazt hefur í löndum með þróaðan hlutabréfamarkað. Um leið megum við ekki gleyma, að mestur hluti íslenzkrar atvinnustarfsemi fer fram í meira eða minna lokuðum félögum.
Starfshættir slíkra félaga eru alvarlegra vandamál heldur en starfshættir opnu félaganna. Við verðum nærri daglega vör við afleiðingar þess í stjarnfræðilegum gjaldþrotum, sem sagt er frá í fréttum. Umfang gjaldþrotanna er ótrúlega mikið í samanburði við veltuna.
Svo virðist sem bókhald íslenzkra fyrirtækja sé ekki í þeim skorðum, að stjórnendur þeirra og lánardrottnar geti gert sér grein fyrir stöðunni. Ennfremur virðast endurskoðendur fyrirtækjanna ekki hafa neina umtalsverða sýn yfir þessa stöðu eða þróun hennar.
Sumir endurskoðendur haga sér sem þjónar framkvæmdastjóra eða stjórnarformanna fyrirtækjanna, er þeir vinna fyrir. Dæmi eru um, að þeir neiti stjórnarmönnum um aðgang að upplýsingum úr bókhaldi, svo að ekki sé minnst á réttleysi almennra hluthafa.
Ein afleiðing þessa er, að bankar og sjóðir geta ekki treyst upplýsingum endurskoðenda og verða að leggja út í dýrar athuganir á stöðunni. Þá tekur við næsta vandamál, sem felst í afskiptum stjórnmálamanna af bönkum og sjóðum, sem yfirleitt eru ríkisstofnanir.
Þegar fagmenn lögðu árið 1988 fram skýrslu um, að enginn grundvöllur væri fyrir öllu því fiskeldi, sem var í undirbúningi, og að sumar greinar hennar væru algerlega vonlausar, ákváðu stjórnarmenn og forstjórar Framkvæmdasjóðs að stinga skýrslunni undir stól.
Þannig var framleitt sjö eða átta milljarða fjárhagstjón í fiskeldi án þess að montkarlar í stjórn og framkvæmdastjórn Framkvæmdasjóðs hafi verið látnir sæta nokkurri ábyrgð fyrir að halda áfram að lána og fyrir að halda um leið leyndri skýrslu um stöðu mála.
Í alvöruþjóðfélagi alvörufyrirtækja eiga aðvörunarbjöllur að hringja fyrr og hærra en nú tíðkast. Skarpari venjur þurfa að vera um bókhald. Og endurskoðendur þurfa að setja sér strangar siðareglur, því að öðrum kosti má alveg eins sleppa þeim úr eftirlitskeðjunni.
Ekki er hægt að hindra, að fyrirtæki verði gjaldþrota. Hins vegar er unnt að koma í veg fyrir, að gjaldþrot verði eins stjarnfræðileg og þau hafa orðið að undanförnu. Til þess þarf að kanna ferlið, sem leiðir til slíkra gjaldþrota, svo sem hjá Álafossi og í fiskirækt.
Slík athugun mun vafalítið leiða í ljós, að gera þurfi endurskoðendur sjálfstæðari og ábyrgari; að gera þurfi stjórnarmenn og framkvæmdastjórnarmenn lánastofnana sjálfstæðari og ábyrgari, og að leggja beri niður ríkisábyrgðir og önnur pólitísk afskipti af atvinnurekstri.
Bókhaldarar og endurskoðendur eru nú í vasa forstjóra og lánastofnanir eru í vasa stjórnmálamanna. Í öllum þessum vítahring virðist helzt hald í fagmönnum lánastofnana, ef skýrslum þeirra er þá ekki stungið undir stól, svo sem sýnir dæmi Framkvæmdasjóðs.
Gaman væri að hafa hér fínan hlutabréfamarkað. En vandamál íslenzkra hlutafélaga eru mun stórkarlalegri og frumstæðari en fram kemur í ensku tillögunum.
Jónas Kristjánsson
DV
